Af meintum kynlífsskorti femínista

Höfundur: Þorgerður E. Sigurðardóttir

Byrjum á því að hverfa aftur til nóvembermánaðar árið 2009.  Þá birtust fréttir í fjölmiðlum um það að Pálma Jónssyni, fyrrverandi fjármálastjóra Knattspyrnusambands Íslands hefði orðið það á að strauja kreditkort sambandsins helst til hressilega á strippstað einhversstaðar í Sviss. Mig minnir að staðurinn hafi heitið því frumlega nafni Rauða Myllan.

Eðlilega settu ýmsir spurningamerki við það að starfsmaður KSÍ, sem var í vinnuferð, skyldi veifa þessu kreditkorti á slíkum stað og sumir  viðruðu einnig þá skoðun sína að starfsmaður í vinnuferð á vegum íþróttahreyfingarinnar eigi ekkert með að láta sjá sig á slíkum stað yfirhöfuð. Aðrir héldu því fram að enginn ættu nokkurn tímann að láta sjá sig á slíkum stöðum. Miklar umræður spruttu upp um málið á netinu, femínistar gagnrýndu Pálma og smám saman snerist umræðan upp í það að gagnrýna femínista og þeirra málstað. Semsagt – hefðbundin umræðuþróun í íslenskum vefmiðlum þegar femínismi er annars vegar.

Það er ekki ætlunin að ræða sérstaklega um þetta mál hér og það er heldur ekki ætlunin að ræða um nektarstaði og starfsemina sem þar fer fram. Afstaða mín hvað það varðar er hinsvegar skýr:  Kaupi maður kynlífsþjónustu, hvort sem er á nektardansstað eða annars staðar,  er alltaf möguleiki á því að sá sem þjónustuna selur sé neyddur til þess í einhverjum skilningi og slíkt er einfaldlega ofbeldi í mínum huga, hvernig sem á það er litið.

Ég ætla hinsvegar að ræða það hvernig er talað um femínista, ekki síst ef femínistarnir skipta sér af einhverju sem tengist kynlífsiðnaði. Í athugasemdum þeirra sem gagnrýna femínista við slík tækifæri birtast aðallega tvær skoðanir sem eru í raun mótsagnakenndar:

     1.     Femínistar (og hér er að sjálfsögðu alltaf reiknað með því að femínistar séu kvenkyns) sem eru á móti klámi/nektardansi/vændi hafa engan skilning á kynlífi og eru  a) kynkaldar eða b) frústreraðar af því að þær fá það aldrei (að öllum líkindum vegna þess að þær eru of ljótar og/eða feitar). Í báðum tilvikum stunda femínistarnir ekki kynlíf. Helsta mögulega hjálpartækið er klám, en samkvæmt þessum skoðunum má öðlast kynlífsþekkingu og –víðsýni með því að nota klám en þessari uppfræðsluleið hafa femínistarnir hafnað og því er þeim ekki við bjargandi.

      2.     Hinsvegar er lagt upp úr því að heimur strippstaða og vændis sé ekki ætlaður konum, þær muni aldrei hafa skilning á þörfum karlmanna þegar kemur að slíku og því verði þær að halda sér til hlés og sýna skilning. Karlmenn vilja hafa þennan heim út af fyrir sig af því að þeir vilja ekki að upp komist um kynlífskaup þeirra og fyrir því eru auðvitað ýmsar ástæður. Þeir sem kaupa kynlíf eru flestir nefnilega svokallaðir venjulegir menn sem eiga eiginkonur, sambýliskonur, börn, barnabörn og flestir vilja eflaust ekki horfast í augu við það sem þeir eru að gera. Konur eru því aðeins viðföng í þessum heimi kynlífssölu, þar liggur þeirra eina hlutverk.

Mótsögnin hér er augljós. Konur eiga að opna sig fyrir klámi til að teljast gjaldgengar í kynlífi en jafnframt er sá heimur lokaður þeim, þ.e.a.s. fyrir þeim sem virkum þátttakendum. Konum er þannig í raun gert ókleift að njóta kynlífs samkvæmt þessum furðulegu röksemdafærslum. Þær geta hinsvegar auðvitað tekið þátt sem viðföng en þá þurfa þær að aðlaga sig að óskum kaupendanna og helst að koma sér upp stöðluðu útliti sem óþarfi er að lýsa hér í smáatriðum (sílíkon, almennilegt tan o.s.frv). Þegar hér er komið sögu í röksemdafærslunni bregðast menn oft ókvæða við og benda á að það megi finna allskonar konur í klámmyndum, maður lifandi, þar blandast sko kynþættirnir og líkamsgerðirnar, það er víst til markhópur fyrir allar konur sem vilja snúa sér að klámi. En þetta er auðvitað ekki svona. Staðalímyndin er normið, feitu konurnar, dvergvöxnu konurnar, fötluðu konurnar og gömlu konurnar (þ.e. allar konur yfir þrítugu) eru kúríósum, þær eru jaðraðar í kláminu rétt eins og í lífinu, það er ekkert frelsi að finna þar.
Til að vera gjaldgeng kynvera þarf kona þannig að líkjast þessum staðalklámstjörnum. Hér er kannski djarflega ályktað en allir sem hafa komið í búningsklefa kvenna í sundlaugum eða líkamsræktarstöðvum á undanförnum árum ættu að geta áttað sig á þeim áhrifum sem klámið hefur haft á útlit ungra kvenna. Og það er auðvitað hægt að breyta útlitinu út í óendanleikann en hinsvegar getur reynst erfitt að standast væntingar þeirra sem nota kynlífsiðnað og klám sem viðmið. Konur verða óánægðar af því að þær standast ekki væntingar karlmanna sem hafa sett sér óraunhæf viðmið. Þannig verður kynlíf bæði karla og kvenna ófullnægjandi í einhverjum skilningi, gæði kynlífsins minnka. Er það markmið kynlífsiðnaðarins? Minna og verra kynlíf?

Þannig er erfitt að sjá að meira/betra/frjórra kynlíf sé niðurstaðan ef klámið er viðmiðið. Í mínum huga gengur sú hugmynd einfaldlega ekki upp, þó ekki væri nema vegna þess að klámmyndageirinn er án efa íhaldsamasta kvikmyndagrein sem völ er á og ekki líklegur til að kenna neinum, hvorki konum né körlum, nokkurn skapaðan hlut sem skiptir máli í kynferðislegum samskiptum.

Svo hafa femínistar hreinlega ekki átt í neinum vandræðum í gegnum tíðina þegar kemur að kynlífi. Eins og fram hefur komið hér eru femínistar oft sakaðir um kynkulda og tepruskap en þá er ekki úr vegi að leiða hugann að því að femínistar hafa í gegnum tíðina barist fyrir raunverulegu kynfrelsi kvenna, t.d. með því að tala fyrir traustum getnaðarvörnum, með því að gefa út kynfræðslurit fyrir konur, með því að opna fyrir umræðuna um kynverund kvenna, með því að skrifa erótískan skáldskap þar sem konur eru ekki aðeins viðföng heldur einnig gerendur og þar fram eftir götunum. Þetta vill gleymast í allri umræðunni um hinar meintu kynlífsfrústrasjónir femínista.

Þannig vilja aðalatriðin gleymast og einhvern veginn svona snýst umræða um femínista og femínisma iðulega upp í vitleysu og órökstutt bull.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.