Úr fylgsnum fortíðar – Árshátíðartussan í MR

Höfundur: Gísli Ásgeirsson

Haustið 2004 var efnt til samkeppni í MR um árshátíðarlag. Fjögur lög bárust í keppnina og þótti aðeins eitt uppfylla skilyrði um tónlist og söng og þótti sjálfkrafa sigurvegari. Hljóðskrá með laginu var sett inn á vef skólafélagsins, til að þeir sem vildu gætu sótt lagið. Þar var það í rúmar sex vikur en þá var vakin athygli á textanum í fjölmiðlum. Nokkur erindi voru lesin í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins og svelgdist þá mörgum hlustendum á kvöldmatnum. Textinn var hvergi til á prenti en var ritaður eftir hljóðskránni og er á þessa leið:

leit út eins og hver önnur tussa
bleikur breezer, brund og æla
beyglan sagði, enga skussa
við jullurnar ætla að gæla

[…] stelpan fór að strippa
kúkaði í poka og náði að deyja
rauf klósettið alveg að trippa
hún hefði betur átt að þegja

árshátíðartussan er full og fín
strákarnir taka hana heim til sín
pizza pronto, typpi og bjór
koma nú, syngjum í kór

að skíta í tussu er ekkert grín
reykja tussuspaðann þar til hún hrín
skíta í tussu er ekkert vín
reykja tussuspaðann þar til hún hrín

árshátíðin búin, klukkan eitt
núna verður fyrst djammað feitt
[…] á fyrsta ári
brátt verður brund í hennar hári

árshátíðartussan er full og fín,
strákarnir taka hana heim til sín
pizza pronto, typpi og bjór
koma nú, syngjum í kór

að skíta í tussu er ekkert grín
reykja tussuspaðann þar til hún hrín
skíta í tussu er ekkert vín
reykja tussuspaðann þar til hún hrín


Mörgum ofbauð og tókst með samstilltu átaki að benda skólayfirvöldum MR á þennan ófögnuð sem var að finna á vefsíðu nemendafélagsins. Undirritaður var einn þeirra sem bloggaði um textann og fleira sem fram kom á vefsíðu nemendafélagsins. Tóku sumir færslunum vel, en nokkrir nemendur í MR tjáðu sig með skammaryrðum og ásökunum um húmorsleysi og spöruðu ekki stóryrðin.

Í kvöldfréttum RÚV 26. 11.2004 var fjallað um þetta og Spegillinn tók málið upp og ræddi við inspector scholae, sem þá var Jón Bjarni Kristjánsson. Hann hélt uppi vörnum fyrir þetta tiltæki, nefndi mikinn þrýsting nemenda til að fá lagið birt á vefsíðunni og hefði enginn nemandi mótmælt í þessar sex vikur sem lagið var þar, og alls ekki stúlkurnar. Lagið hefði nú náð tilgangi sínum og því mætti fjarlægja það.

Hér má staldra við og spyrja: Hver var þessi tilgangur? Því miður kom hann ekki fram í viðtalinu. Í bloggum og athugasemdum var talað um innanskólagrín, skemmtilega uppákomu og annað á þeim nótum. En skólafélag MR sendi svo frá sér eftirfarandi tilkynningu til fjölmiðla:

„Afsökunarbeiðni frá stjórn

Stjórn Skólafélagsins biðst hér með formlega afsökunar á að hafa birt hið umtalaða Árshátíðarlag á vefnum. Skólafélagið viðurkennir fúslega að texti lagsins sé niðurlægjandi fyrir kvenfólk og var það slæm dómgreind og hugsunarleysi sem varð til þess að lagið var birt á vefnum okkar. Það var aldrei ætlun Skólafélagsins að niðurlægja neinn né að sverta ímynd MR sem því miður hefur gerst. Stjórn Skólafélagsins biður alla þá sem lagið særði eða móðgaði á nokkurn annan hátt afsökunar og heitir því að við munum í framtíðinni sjá til þess að nokkuð þessu líkt gerist aldrei aftur.

Með von um fyrirgefningu –

Jón Bjarni Kristjánsson, Einar Búi Magnússon, Gunnar Hólmsteinn Guðmundsson, Ásgeir Birkisson, Vilhjálmur Alvar Þórarinsson.“

Salvör Gissurardóttir tók þetta mál upp á bloggsíðu sinni og benti á vef nemendafélags VMA til að sýna að kvenfyrirlitningin væri ekki bundin við Menntaskólann í Reykjavík. Þá var karlakvöld í Verkmenntaskólanum fyrir norðan og rötuðu myndir af því á netið.

Vefsíða skólafélags MR þetta haust var annars merkileg. Þar var að sjálfsögðu að finna upplýsingar um starfsemi og uppákomur í skólalífinu en þar voru líka tveir dálkar og var annar merktur Lambakjöt en hinn Nautakjöt. Telpur í þriðja bekk (sextán ára) eru lambakjöt og nöfn þeirra birt ásamt mynd. Piltar í sjötta bekk (19-20 ára) eru nautakjöt og voru nöfn þeirra einnig birt ásamt mynd.

Þetta vakti sérstaka athygli mína, enda var þá stutt síðan ég hafði spjallað við kennara í Verslunarskólanum sem hafði þann sið á haustin að vara stúlkur í hópi nýnema við strákum í efsta bekk skólans, sem töldu það helgan rétt sinn að fá að gramsa í hópnum og var lítið gefið um þessi varnaðarorð kennarans. Honum þótti nóg um atgang piltanna, sem neyttu yfirburða í þroska og aldri.

Það er hollt að rifja upp svona mál, því enn lifir strákaveldið og strákamenningin góðu lífi í sumum framhaldsskólum. Ég lauk mínum skrifum um þetta mál haustið 2004 á eftirfarandi orðum og hef engu við þau að bæta:

„Hér mætti hafa uppi langt mál um jafnrétti, sjálfsvirðingu, sjálfsmynd, niðurlægingu, lítilsvirðingu og ruddaskap ásamt vangaveltum um heilbrigða skynsemi og samskipti kynjanna. Ég læt mér þó nægja að segja að ef börnin mín hefðu verið kynnt á þennan hátt þegar þau stunduðu framhaldsskólanám, hefði ég talað við einhvern með tveimur hrútshornum.“

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.