Kynjamisrétti er flókið

Þýðing: Kristín Vilhjálmsdóttir
Hafið mig svo afsakaða á meðan ég set Alanis á fóninn og gef köttunum mínum að éta

9.01.2011
Í gær dróst ég inn í svolítið drama í kringum háskólabol sem var á útsölu hjá JC Penney. Þið hafið kannski heyrt um það?
Þetta er ekki fyrsti háskólabolurinn sem gerir kynjunum mishátt undir höfði og hefur svekkt mig og hann er áreiðanlega ekki sá síðasti. En ég er ekki vön að þegja þegar ég rekst á eitthvað  sem mér blöskrar.

Ég var augljóslega í meirihluta í þessu tilfelli, en sú hefur ekki alltaf verið raunin. Alls ekki. Stundum hef ég uppgötvað að ég var eina manneskjan á blogginu að reyna að útskýra fyrir öðrum mæðrum hvers vegna þetta er ekki sniðugt og að þó að einn háskólabolur boði auðvitað ekki heimsendi sé alveg þess virði að gagnrýna hann.
Á einu bloggi skrifaði ég eftirfarandi athugasemd:


Veröldin sem við lifum í gerir stúlkum sífellt erfiðara fyrir að sýna metnað. Snooki fær meiri umfjöllun í ljósvakamiðlum en forsetafrúin og gegnumgangandi kynlífskúltúr er til staðar, sem börn sogast inn í löngu áður en þau hafa aldur til.

Ég er móðir tveggja stúlkna og þarf að berjast við þetta hvern einasta dag. Ég þarf að vinna hörðum höndum að því að þær skilji að skilaboð fjölmiðla eru ekki alltaf þau réttu. Ég þarf að útskýra hvers vegna bolir sýna setningar eins og “future gold digger.” Ég þarf líklega fljótlega að útskýra hvers vegna lagatextar tala um konur sem tíkur og hórur (bitches and hos).

Þar næst þarf ég að útskýra hvers vegna það er ekki í lagi að stunda kynlífsathafnir með strákum, bara svo að þeim líki við þær. Það er nefnilega það sem stúlkur gera, þegar þær halda að eina gildi þeirra felist í því hversu aðlaðandi þær séu.

Er þessi heimskulegi háskólabolur (sem auglýsir allt sem ég hef andstyggð á) boðberi heimsendis? Auðvitað ekki. En hann er einkenni á stærra vandamáli sem hættir aðeins þegar við stöndum upp og látum í okkur heyra. Og ef stórar verslanakeðjur verða hluti af lausninni, með því að standa að jákvæðari skilaboðum fyrir stúlkur, verður hlutverk okkar sem mæðra miklu auðveldara. Og veröldin verður aðeins betri, að mínu mati.

Við eigum aldrei að hætta að berjast fyrir því sem við höfum trú á, jafnvel þó að við höfum skiptar skoðanir á því hvað er rétt og rangt.
(Já, ég hef verið að lesa Peggy Orenstein. Skrýtið að þið skulið spyrja.)
Fólk skellir að sjálfsögðu alltaf skollaeyrum við röksemdafærslunum. Hrakningarnar falla fyrirsjáanlega undir einn af fjórum flokkum:

1.               Þetta er bara brandari og þú hefur enga kímnigáfu.
2.               Ættirðu ekki að beina athyglinni að mikilvægari málum?
3.               Þetta er auglýsingabrella.
4.               Þú hefur allt of mikinn tíma á þínum höndum.
Það eina sem þessar röksemdafærslur eiga sameiginlegt er að þær stefna að því að gera lítið úr mótherjanum. Þær færa aldrei rök fyrir því hvers vegna bolurinn eigi að vera í sölu, heldur sýna aðeins fram á að viðkomandi er hálfviti og ætti að halda sér saman.
Það var þó að minnsta kosti einn náungi á Twitter sem vísaði í hinn frjálsa markað og reyndi að segja eitthvað sem er frumlegt að einhverju leyti:
Veistu, stundum velti ég því fyrir mér hvort fólk myndi bera fram sömu rök ef bolurinn segði til dæmis…. Ég er gyðingur, svo að ég þarf ekki að læra heima. Foreldrar mínir borga námsgráðuna mína.

Eða, Ég er svartur, svo að ég þarf ekki að læra heima. Ég get spilað körfubolta!
Sumir myndu segja já, samt fyndið. Og á meðan ég man, þetta er auglýsingabrella og þú hefur of mikinn frítíma og ættum við ekki frekar að beina sjónum okkar að hungrinu í heiminum?
Kynjamisrétti er gegnumgangandi. Það laumast inn í líf dætra okkar, áður en þær eru færar um að koma auga á það og hrekja það. Áður en þær eru færar um að skilja kaldhæðni. Áðu en þær eru færar um að aðskilja skilaboðin sem þær fá heima hjá sér frá þeim sem þær sjá á háskólabolum eða plakötum í neðanjarðarlestinni. Ef skilaboðin væru aðeins þau sömu.
Það er líklega það sem ég er að biðja um.
Þið konur sem veltið enn fyrir ykkur hvers vegna við þurfum enn á femínisma að halda (eða jafnrétti, ef þið þolið ekki f-orðið), gleymið háskólabolnum og farið beint í einhverjar af þeim bloggfærslum sem ég uppgötvaði bara í gær:
Þessa frá Jason Sperber sem lýsir hvaða þýðingu það hefur að vera karlmaður á fallegan hátt – án þess að minnast á áhuga á íþróttum eða bjór eða vélar.
Þessa sem ver auglýsingu sem slær töfraljóma á heimilisofbeldi. (Því að ekkert er jafnkynæsandi og karlmaður sem lemur konur. Voff!)
Þessa um þátttakanda í spunaleikriti sem lýsti stefnumótanauðgun sem hann hafði framið eins og hún væri einræða í farsa.
Úff, hvernig fann ég allar þessar færslur á einum og sama deginum? Það var eins og risastór  loftsteinn, hlaðinn málum sem snerta kyngervi, þeyttist í átt að RSS fréttaveitunni minni.
Ég veit ekki hvernig á að laga þetta, fyrir utan að halda áfram að ræða þetta og útskýra að ég hafi ekki aðra hluti sem ég ætti að beina sjónum mínum að í augnablikinu. Þetta hentar mér mátulega, takk fyrir að spyrja.
En ég veit að eitt af því sem við getum gert er að skilja að heimska gerir ekki greinarmun á kynjunum.
Þetta snýst ekki um karlmenn versus konur, þó að ég hafi séð þann málflutning stöðugt endurtekinn í gær.  Eitt skiptið birtist hann í Twitter-straumi Women’s Media Center, sem vakti áhyggjur mínar. Já, því sama Women’s Media Center. (Ég veit!)
Þetta hófst með nokkrum tístum um kynrembu í auglýsingaiðnaði (jájá, auglýsingar geta verið  fullar kynjafordóma, alveg eins og háskólabolir, tónlistarmyndbönd og fulltrúardeildarþingkona frá Minnesota). Og síðan benti Susan vinkona mín mér á þetta:
Kannski ættu konur að brjótast inn á völlinn og stöðva auglýsingar sem stuðla að kynjamisrétti í fæðingu?
Á þetta að vera fyndið?
Já, ef ég fengi aðeins tækifæri til að skrifa auglýsingar! Ég og hinar stelpurnar í hraðrituninni. Þá gætum við kannski sett upp litlu hattana okkar og farið í flottu tvíddragtirnar, ráðist inn á fund hjá körlunum, smellt hælunum þrisvar og breytt öllu kynjamisrétti í auglýsingamennsku. Að innan, fattið þið? Eða bíðum aðeins, kannski reyni ég bara ekki nóg. Það er málið. Ég hef fengið þetta stóra tækifæri til að bjarga auglýsingaheiminum í eigin persónu frá böli kynjamisréttis og ég hef sólundað því með því að eyða hádeginu á Facebook í stað þess að lauma eintökum af Ms. Magazine undir hurðina hjá yfirmönnum mínum.
Við lifum á árinu 2011. Auglýsingaiðnaðurinn er ekki fullur kynjafordóma vegna þess að karlmenn eru að skrifa auglýsingar, á sama hátt og háskólabolir eru ekki fullir kynjafordóma vegna þess að karlmenn eru að hanna þá.
Skilaboð sýna kynjafordóma af því að fólk er fullt kynjafordóma.
Skilaboð sýna kynjafordóma af því að fólk er latt. Það grípur til steríótýpunnar af því að það er auðvelt að fá fólk til að hlæja, auðvelt að fá samþykki á hugmynd, auðvelt að halda áfram að næsta atriði á tossalistanum.
Ég veit þetta af því að ég hef sjálf gert þetta.
Hey, það er auðvelt að grínast með karlmenn sem dýrka ketti eða White Zinfandel eða Alanis Morrisette, stundum í einum og sama brandaranum.
(Er það ekki?)
Eða stundum skortir þá sem semja skilaboðin einfaldlega innsæi. Eða stundum eru þeir ekkert sérstaklega klárir í kollinum. Þetta snýst ekki um að karlmenn séu slæmir og konur góðar og ef við höldum að svo sé erum við að falla í þær steríótýpísku gildrur sem eru alveg jafnslæmar og þær sem við eigum að vera að berjast á móti.
Ástæðan fyrir því að vörumerki eins og Nike og Dove og Ikea hafa að jafnaði staðið fyrir svo sterkum auglýsingarherferðum er að ákaflega klárir einstaklingar, fullir innsæis, vinna hörðum höndum að því að fá góðar hugmyndir og síðan vinna ákaflega klárir viðskiptavinir, fullir innsæis, hörðum höndum að því að berjast fyrir þeim og troða þeim í gegnum kerfið.
Ég hef haft karlkyns viðskiptavini sem börðust með kjafti og klóm til að halda uppi framsæknum gildum í auglýsingum sínum. Ég hef haft kvenkyns viðskiptavini sem trúa því að aðeins 19 ára ljóskur með anorexíu geti auglýst vörur þeirra.
Þetta er flókið.
En síðan er stóra leyndarmálið sem enginn vill minnast á.
Vitiði hvar góðar hugmyndir deyja?
Hjá ykkur.
Neytendunum.
Mæðrunum.
Þið spyrjið hvers vegna það eru alltaf konur sem sjá um innkaup í auglýsingum? Hvers vegna eru það alltaf konurnar sem sjá um þvottinn og tiltekt í barnaherbergjum?
Ég skal segja ykkur hvers vegna:
Vegna þess að neytendur vilja hafa það þannig.
Það hefur komið fyrir að ég berjist með kjafti og klóm fyrir auglýsingum sem halda uppi framsæknum, nútímalegum svipmyndum af konum og fjölskyldulífi, komi þeim í gegnum efins markaðsfólk og, ótrúlegt en satt, inn í rýnihóp neytenda.
Þarna byrja erfiðleikarnir, hinum megin við gegnsæja spegilinn.
Þegar auglýsingu með karlmanni að gera matarinnkaup er komið inn í rýnishóp er það fyrsta sem gerist að konur ranghvolfa í sér augunum. Síðan tala þær um hvað eiginmennirnir geri sjaldan innkaup. Þar næst segja þær frá því hvernig eiginmennirnir kaupi alltaf ranga hluti þá sjaldan sem þeir kaupa í matinn. Svo hlæja þær og slá saman lófum og fá sér meira M&M og við höldum áfram að næstu auglýsingu, á meðan viðskiptavinurinn hugsar með sér, Ég sagði þér það. Við förum í sögurammann, sem sýnir móður í innkaupaleiðangri og kannski eru krakkarnir hennar sífrandi eða setja hluti í körfuna þegar hún sér ekki til.
Það er sagan sem dregur fram brosin og svörunina, ójá. Ég kannast við þetta.
Og þá er auglýsingin ykkar komin, dömur.
Kannski var háskólabolurinn í JC Penney búinn til á þennan hátt. Af hópi kvenna sem krotuðu setningu á blað, hlógu og hugsuðu, Ég kannast við þetta.
Hvar endar kynjamisréttið þá? Þegar við segjum öll að við kaupum þetta ekki. Við kaupum ekki háskólabolinn, við kaupum ekki heimskulegar auglýsingar, við kaupum ekki skilaboðin að dætur okkar skuli eingöngu metnar fyrir útlit sitt, elskulegheit og húsmóðurhæfileika.
Þegar kaupandann vantar, er söluaðilinn enginn.
Og þess vegna lét ég í mér heyra í gær.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.