Tildrögin að stofnun knúz.is má rekja til ótímabærs fráfalls Gunnars Hrafns Hrafnbjargarsonar á Eyrarsundi í byrjun ágúst.
Gunnar Hrafn var doktor í málfræði og starfaði við háskólann í Lundi, þar sem hann bjó ásamt konu sinni og tveimur börnum. Mörg okkar sem skrifum á Knúzvefinn þekktum Gunnar Hrafn persónulega, en önnur þekktu hann aðeins af netinu. Gunnar Hrafn var einkar afkastamikill í netskrifum og alveg frábærlega skemmtilegur og virkur fb-vinur.
Það má segja að framar öðru hafi einkennt skrif hans (oft og tíðum) fremur svartur húmor – tja eða jafnvel aulahúmor – auk mjög sterkrar réttlætiskenndar.
Baráttuviljinn, réttlætiskenndin og dirfskan sem voru meðal margra mannkosta Gunnars Hrafns fengu þegar fram liðu stundir útrás í alteregóinu Sigurbjörn, sem vinur vor bjó til þegar það gerðist sem kemur fyrir okkur flest, honum blöskraði allt bullið sem flæðir um netheima, hann fékk nóg og byrjaði að gagnrýna það sem honum þótti gagnrýnivert. Þetta gerði hann á bloggsíðunni gagnrynt.blogspot.com.
Sigurbjörn var óþreytandi við gagnrýnina, hann þráaðist við og þverskallaðist, sendi tölvubréf til einstaklinga og fyrirtækja, bloggaði í löngu máli þar sem hann gagnrýndi t.d. einhverja grein á afþreyingarmiðli lið fyrir lið o.s.frv. Það var sko ekki auðvelt að eiga við Sigurbjörn ef fólk var ósammála honum eða hafði að hans mati gert sig sekt um stórfelldan dómgreindarskort. Óþol fyrir hvers kyns vitleysu – einkum staðalímyndum kynjanna – einkenndi skrif Gunnars Hrafns á þessum vettvangi.
Þegar Sigurbjörn hafði haldið úti síðu sinni í hálft ár útskýrði hann í fáeinum orðum hvað hann væri að vilja upp á dekk. Hann sagðist t.d. vilja vekja athygli á furðulegri orðræðu í samtímanum – og því þegar konum og körlum væri holað niður á bása staðalímyndanna. Hann sagðist vilja gagnrýna konur og karla sem vildu endurreisa feðraveldið frá grunni – og hann ætlaði að benda á ofbeldið sem fólgið er í því feðraveldi.
En fyrst og fremst sagði Sigurbjörn að bloggið hans snerist um að benda á kynjamisrétti og að hann vildi beita jákvæðri og uppbyggilegri umræðu til að bæta stöðuna.
Það segir kannski sitt um ástandið í jafnréttismálum að mjög margir áttu erfitt með að trúa því að karlmaður skrifaði undir nafni Sigurbjarnar. Hvaða karlmaður hefur svona mikinn áhuga á jafnrétti kynjanna? var jafnvel spurt með léttu fussi.
Þess má geta að það var Gunnar Hrafn sem var einn aðalhvatamaðurinn að svonefndu Kiljubréfi, sem birt var í fjölmiðlum þegar Sigurbjörn og fleiri höfðu skrifast á við Egil Helgason og Sigrúnu Stefánsdóttur, vegna skakkra kynjahlutfalla í bókmenntaþáttunum Kiljunni í Ríkissjónvarpinu. Ekki skal fullyrt að Kiljubréfið hafi borið tilætlaðan árangur, en það vakti athygli og umræðu – og einmitt það var lagt upp með í byrjun.
Það var okkur öllum gríðarlegt áfall þegar Gunnar Hrafn lést, aðeins 35 ára gamall, 4. ágúst sl. Kannski er klisjukennt að segja að „stórt skarð hafi verið höggvið í hóp okkar“ en það á fullkomlega við í þessu tilfelli. Það vantar eitthvað mikið í netheima þegar Gunnar Hrafn er horfinn. Því fæddist þessi hugmynd: Að skapa gagnrýninn vefmiðil sem gæti orðið vettvangur fólks – okkar vina Gunnars Hrafns og skoðanasystkina hans – til þess að tjá sig um femínisma / jafnrétti / mannréttindi og allt sem okkur liggur á hjarta.
Eitt af síðustu kommentunum sem Gunnar Hrafn skrifaði í lífinu var þetta: „Alnetið þarf knúz miklu oftar. Annars breytist það í vígvöll.“
Í minningu vinar okkar viljum við breiða út knúzið, sem er vinalegt og smáfyndið, en líka grafalvarlegt andsvar við hverskyns óréttlæti og vitleysu.