Gunnar Hrafn og hliðarsjálfin

Höfundur: Helga Kristín Einarsdóttir


Ef karlar eru frá Mars eru konur frá Snickers
Gunnar Hrafn var pungþula í skóla lífsins frá september 1975, segir Facebook netvinum hans í óspurðum fréttum þessa dagana. Upprifjun fésbókar byggist að sjálfsögðu á hans eigin orðum og minnir óþyrmilega á tómarúmið sem hann skildi eftir sig, bæði sýnlegt og ósýnilegt. Ég þekkti Gunnar Hrafn hvorki mikið né lengi, kynntist honum á Facebook í gegnum sameiginlega netvini okkar, Þórunni Hrefnu og Þórdísi, og byrjaði reyndar á því að móðga hann með galgopalegum athugasemdum um hekl og fleira sem ég man ekki og uppskar mikinn reiðilestur. Þegar storminn hafði lægt og að eðlilegum umþóttunartíma liðnum sendi hann mér vinarbeiðni og loks varð hann ómissandi þáttur af nettilverunni.
Fráfall hans er ekki bara missir fyrir ástvini og netvini, heldur alla þá sem láta sig samfélagið varða. Gunnar Hrafn var nefnilega femínistatussa frá nóvember 2010, svo aftur sé vitnað í hans eigin orð sem óspart er gert í þessari samantekt, en um þær mundir leit hliðarsjálfið Sigurbjörn dagsins ljós. Sigurbjörn þessi, sem margir héldu að hlyti að vera kona, var óþreytandi við að vekja fólk til umhugsunar og vitundar um andvaraleysi gagnvart staðalímyndum um bæði karla og konur. Hann sýndi líka aðdáunarverða þrautseigju í rökræðum og  bréfaskriftum við bloggara, blaðamenn, fjölmiðla, opinberar stofnanir og ráðamenn.

Sigurbjörn hafði jákvæð áhrif á umræðuna og benti á að fjöldi þakkarbréfa sýndi og sannaði að skrif hans og umfjöllun hefðu gert sitt gagn. Hann sagðist líka hafa heyrt gagnrýnisraddir, að aðrir karlar teldu hann of upptekinn af jafnrétti kvenna og að hann níddi niður kynbræður sína. Eitt sinn var hann líka vændur um „mansplaining“, en hann leit á það sem hrós: „Ég átti von á þessu. Það er nefnilega þannig að þegar fólk fer yfir einhverja fyrirfram ákveðna línu leita aðrir að skýringum fyrir því hvers vegna. Karlmaður getur ekki verið einlægur femínisti. Það er mansplaining. 

Sigurbjörn var hins vegar stoltur af því að vera femínisti. „Bloggið mitt snýst um að benda á kynjamisrétti, vekja athygli á furðulegri orðræðu, og ég tek sífellt mið af því sem betur mætti fara í þjóðfélaginu með jákvæðri og uppbyggilegri umræðu. Ég hef einbeitt mér að því að fjalla um netmiðla og læt mig allt mannlegt varða.Ég gagnrýni konur og karla sem vilja endurreisa feðraveldið frá grunni. Ég fjalla um ofbeldi í ýmsum myndum (andlegu aðallega). Ég tala um það hvernig konum og körlum er holað niður á bása staðalímyndarinnar. Ég einblíni á lausnir og hvað mætti betur fara. Ég hef einsett mér að breiða út þann boðskap að konur eigi að elska sig sjálfar eins og þær eru. Ég hef gagnrýnt útlitsdýrkunina og það hvernig afþreyingarmiðlar hafa dregið upp einhæfa mynd af körlum og konum og því hvaða hlutverkum karlar og konur eiga að gegna í samskiptum sínum.  Kynjamisrétti er hættulegt, þrálátt og mun algengara en okkur grunar.

Brennið flíspeysuna, setjið á ykkur varalit og hunskist í brjóstahaldarann!

Í herferð sinni gegn staðalímyndum fjallaði Sigurbjörn meðal annars um fordóma í garð feðra og þær hugmyndir að karlar skíti út og konur hlaupi á eftir með tusku og úða. Honum blöskraði það sem skrifað er um karlmenn og gamaldags viðhorf til feðra sem einskis nýtra letingja, fjarverandi í uppeldi barnanna sinna. Hann fór líka í saumana á  „lipstick femínisma“ og þeirri sérkennilegu en algengu rökvillu að hægt sé að setja samasemmerki milli útlits og skoðana, sem og þeim rómantíska heimi þar sem eina kúgun kvenna felst í því að þær fái ekki að klæðast eða sminka sig eins og þær vilja. „Ef þú hugsar um útlitið geturðu ekki verið femínisti. Ef þú ert femínisti hugsarðu ekki um útlitið.“

Sigurbjörn gagnrýndi staðalímyndir um femínista og spurði unga konu, sem hann átti í rökræðum við, meðal annars hvort hún héldi að norrænir femínistar væru konur sem rotta sig saman og drekka te í lokuðum vinkonuboðum til þess að flytja kappræður um kynjakvóta og staðgöngumæðrun. Hann deildi líka á heiftina sem felst í því að lýsa femínistum sem konum sem þyrftu helst að láta ríða sér duglega til þess að þær gætu byrjað að hugsa skýrt, að slíkar konur væru sagðar kynþroskaheftar og kynsveltar, að viðbættri gömlu klisjunni um biturleikann og líkamshárin (sem í seinni tíð kristallast í einkum í loðinni og ósnyrtri píku, frekar en leggjum og handarkrikum). Sigurbjörn gerði líka athugasemdir við orðalag í fréttum um nauðganir og kynferðisofbeldi gegn börnum og krafði íslensk stjórnvöld um skýringar á viðhorfi sínu til nauðungarhjónabanda, svo fleira sé nefnt. Í þessari baráttu sinni hafði Sigurbjörn því miður í mörg horn að líta.

Faðir, karl, sveinn

Sigurbjörn femínisti var með „æðiber í rassi“ og var ekki einn um það því í júlí síðastliðnum bjó Gunnar Hrafn til annað hliðarsjálf á fésbókinni, montrassinn Hnallþór Fólkason, sem hugðist einkum fjalla um langferðalag sitt í gegnum lífið með fjölskyldunni og  stæra sig af börnunum, með ýkjur og væmni að leiðarljósi. Þegar ég var farin að fylgjast með Gunnari Hrafni á fésbókinni og Google+, Hnallþóri á fésbókinni og skrifast á við Sigurbjörn í tölvupósti laust þeirri hugsun niður í kollinn á mér, án þess þó að ég staldraði lengi við hana, að honum lægi allt í einu dálítið mikið á. Færslum og myndum rigndi bókstaflega yfir okkur lesendur hans. Og það bjó líka nokkur einlægni í því sem Hnallþór skrifaði, sem kannski er ekki svo langsótt því ein einkunnarorð skapara hans voru „kärleken segrar allt“. Aðfaranótt 1. ágúst skrifaði Hnallþór í fésbókina sína: „Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Lífið er hverfult en heldur engu að síður áfram. Lifum í núinu, upplifum augnablikið.“ Þremur dögum síðar missti alnetið risastórt knúz.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.