Hvað er líkt með fíl?

Höfundur: Kristín Jónsdóttir

Grín er vandmeðfarið tjáningarform og oft er erfitt að finna hvar mörkin milli góðs brandara og hreins dónaskapar liggja.
Flestir eru held ég orðnir sammála um það að það er nákvæmlega ekkert fyndið við kynferðislega misnotkun barna og að slíkir brandarar eiga engan tilverurétt. Ekki eru allir jafnsammála um grín með kvenhatur, eilíf upphafning á fyrirbærinu Gillz til dæmis sýnir það og sannar.
Í Frakklandi gerðist það fyrir nokkrum árum að karlkyns tannsmiður færði kvenkyns undirmanni sínum gervilim að gjöf. Hann var unninn úr sama bleika plastefninu og gómarnir sem þau smíðuðu. Tannsmiðurinn tjáði henni að limurinn væri mótaður eftir hans eigin tippi, og væri með ólar til að hún gæti fest hann við stól og notið áhyggjulaus. Til að fela niðurlæginguna, varð henni á að svara: „Ha, mótaður eftir þínu eigin tippi? Og svona lítill?“ Þetta svar dugði dómurum til að sýkna tannsmiðinn af kæru sem hún síðan lagði fram, um kynferðislega áreitni. Hún hafði sýnt að hún tók þessu sem gríni og málið féll um sjálft sig.i
Stundum heyrir maður brandara sem maður skilur ekki, ég lendi til dæmis ítrekað í því að börnin mín segja mér brandara sem þeim finnst rosalega fyndinn en ég sé ekkert fyndið við. Samt er ég týpan sem hlæ að fáránlegum og súrrealískum bröndurum, eins og sögunni um það hvernig dvergar urðu til, eða þessari um apann sem var með banana í eyrunum. Ég er þó aðeins farin að ná Toto-sögunum og næ stundum að hlæja í staðinn fyrir að verða eitt spurningamerki í framan. En það er ekki vanskilningur sem er vandamálið með kvenhatursbrandara, sem maður skilur alveg í botn (niður í óþolandi hyldýpi jafnvel) en manni bara finnst ekkert fyndnir lengur. Þessir brandarar byggja allir á því að maður samþykki að til sé ákveðinn heimur og að í þessum heimi séu karlar sér flokkur og konur allt annar flokkur. Karlarnir eru mjög oft í þeim aðstæðum að þurfa að losna undan konunum. Annað hvort því þær tala svo mikið eða því þær hindra þá í að skemmta sér (með hinum körlunum, eða með öðrum miklu flottari konum).

Hinn póllinn á bröndurum úr þessum sama samþykkta heimi eru þessir sem lýsa vandræðagangi konunnar við að „ala manninn upp“, kenna honum eitthvað (oftast hundleiðinlega hluti eins og að fara í búðir eða þrífa heimilið eða muna afmælisdaga). Þar er það ekki kvenhatur, heldur karlhatur sem fyndnin byggir á. Bara sú staðreynd að facebook með sínum dásamlegu afmælisdagaáminningum er ekki til í þessum samþykkta heimi, ætti að vera nóg fyrir okkur til að vita að þessi heimur er rangur á alla vegu. En það virðist vandasamt verkefni að uppræta hann, þrátt fyrir það.

Konur sem neita að hlæja að bröndurum sem byggjast á kvenfyrirlitningu eru nefnilega oft afgreiddar sem hundleiðinlegar, húmorslausar [hér má setja alls konar orð sem viðgengst að nota yfir neikvæða kvenpersónu, hvað dettur þér sjálfum í hug? Þorirðu að segja mér það, til dæmis í athugasemd?]. Ég get alveg ímyndað mér að karl sem neitar að hlæja að karlfyrirlitningar-brandara lendi í svipaðri klemmu. Það má nefnilega ekki skemma partýið, það er bannað að vera í fýlu. Það gýs jafnvel mjög auðveldlega upp einhvers konar furðuleg andúð á fólki sem rís upp og neitar að taka þátt . Sá sem ver sig og sína (jafnt systur, sem bræður, því eins og við femínistar erum alltaf að reyna að koma að, þá er staðalmyndakerfið sem samþykkti heimurinn er byggður á, bæði karl- og kvenfjandsamlegt) er álitinn uppskrúfaður og algerlega að misskilja þetta allt. Hefðin er svo sterk. Hefðin fyrir því að gera grín. Og best, langbest, er ef grínið nær að vera pínu dónó, ahhh, það er svo gott og gaman.
Fátt er betra en að heyra góðan brandara og hlæja hjartanlega. Fátt er jafn frústrerandi og að heyra lélegan brandara og kunna ekki við að játa að manni þyki hann lélegur. En nú, eftir að þú hefur lesið þennan litla pistil, hlýtur þér að vera ljóst að ef þú, hvort sem þú ert kona eða karl, ert orðin leið(ur) á bröndurum sem lýsa konum sem símalandi leiðindatíkum og djammbremsum og körlum sem gröðum drykkjusvínum og fótboltabullum, er viturlegra að láta þann leiða í ljós í staðinn fyrir að hlæja góðlátlega um leið og þú kyngir brjóstsviðanum. Franskir dómarar hafa kveðið upp dóminn. Þú ert samsekur ef þú hlærð með. Hvað viltu gera?
Ég hef enga trú á því að þó þessi samþykkti heimur verði leystur upp, hætti fólk alveg að hlæja, að partýinu ljúki þá bara endanlega. Ég held að það muni bara færast upp á nýtt og vonandi betra plan.
Fyrirsögnin er spurning, sem gengur þó tæknilega séð ekki upp sem spurning. Samt er til gott og gilt svar við henni: Hann hvorki hjólar!
i Ég las um þetta mál í grein um kynferðislega áreitni eftir franska femínistann og blaðamanninn Monu Chollet: http://www.peripheries.net/article9.html

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.