Með Ísland í klofinu

Lytalaus-af-netiUm bókina Lýtalaus eftir Tobbu Marinós (JPV 2011) – höfundur: Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir
Hvorki Tobba Marinós né JPV útgáfa höfðu mig í huga sem vænlegan lesanda þegar bókin Lýtalaus var skrifuð og gefin út. Það er nokkurn veginn á hreinu. Ég er fertugur femínisti, á ekki eina einustu merkjaflík, sit aldrei á kaffihúsum í hópi vinkvenna sem eru eins og ljósrit hver af annarri og þar að auki finnst mér bæði sushi og mojito vont.
Hér kemur einlæg játning: Ég hefði heldur aldrei keypt mér bókina ef Páll Baldvin Baldvinsson hefði ekki skrifað svona fávitalega um hana í Fréttatímann.
Eftir að ég las dóm Páls Baldvins greip mig löngun til að leggja mat á þessa bók sem hann afgreiddi með dylgjum og einhverju skensi um „konur á fengialdri“. Ályktunarhæfni ritdómarans er raunar einstök: Tobba er grófyrt = allar konur á hennar aldri eru líkast til svona klámgjarnar.
Páll Baldvin gerir líka útlit höfundar að umtalsefni, segir að Tobba láti alltaf mynda sig á hlið til þess að sýnast „þunn“ og að hún passi að reka fram barminn. Svo rekur Páll smiðshöggið á dóminn með því að vísa í „almannaróm“ sem segir víst að Tobba skrifi ekki bækur sínar sjálf, heldur þurfi þrír háskólamenntaðir karlar á miðjum aldri að gera það fyrir hana! Minna þarf nú til að fólk telji vegið að starfsheiðri sínum.
Við stelpurnar
Bókin segir af Lilju Sigurðardóttur (26), sem er á leið á Heilsustofnunina í Hveragerði þegar sagan hefst. Lilja þarf að fara í endurhæfingu eftir fótbrot sem hún hlaut þegar hún lenti í bílslysi í lok fyrri bókarinnar, Makalaus, sem út kom í fyrra. Í Hveragerði er hún fljót að falla inn í hópinn og kynnast fólki, en hún á líka í miklum samskiptum við stóran vinahóp sinn og fjölskyldu.
Lýtalaus er skrifuð inn í velþekkta hefð skvísubókmenntanna og víkur ekki frá henni. Innri tími sögunnar eru sex vikur og bókin skiptist því í sex hluta, sem hver um sig er einkenndur með Bridget-Joneslegum upplýsingum: „14. vika án kynlífs. 4. vika án sykurs“ (141). Kaflarnir hefjast svo allir á feisbúkkstatusum.
Lilja á fjórar vinkonur sem standa með henni í gegnum þykkt og þunnt og eru mjög nálægar alla söguna. Þær tala mikið um áfengi, mat, karlmenn og tískufatnað; segja af ástarlífi sínu og ráðleggja hver annarri um fatnað og framkomu.
Vinkonurnar fara líka mikið í brönsa og lönsa og borða sushi og humar og drekka kokkteila og hvítvín og Lite-bjór. Og allar elska þær súkkulaði þó að þær viti fullvel að þær megi ekki borða of mikið af því.
Aðalpersónan Lilja hefur miklar áhyggjur af holdafari sínu og með stærri vandamálum hennar í bókinni er að hún má ekki ganga á háum hælum (vegna fótbrotsins). Í byrjun hefur hún m.a.s. ekki getað rakað á sér fótleggina dögum saman af sömu ástæðu! Lilja er á köflum afar óörugg með sjálfa sig og óttast að klaufagangur hennar og of umfangsmikið hold fæli karlmenn frá, en treystir á háa hæla, snyrtivörur, falleg föt og „réttu“ samræðurnar til þess að laða þá að.
Það verður að viðurkennast að bæði Lilja og vinkonur hennar eru æði einsleitar persónur. Vinkonan Ósk er fyrirferðarmest, en hún er eftirmynd Samönthu í Sex and the City (óhrædd við druslustimpil og tjáir sig hispurslaust um fjölskrúðugt kynlíf sitt). Karlmennina í sögunni sjáum við svo með augum Lilju. Sumir eru lúserar, aðrir mögulegir elskhugar.
Tobba er trú hefðinni og er t.d. ástarsamband Lilju og Hans fremur fyrirsjáanlegt: Þau fara saman í ástarhreiður úti á landi en kela bara (sofa ekki saman fyrr en á þriðja deiti). Þau drekka rauðvín og borða osta. Þau fara út í garð eftir rómantíska nótt og búa saman til snjókall. Þau fara í bröns. Hann kallar hana prinsessu í tíma og ótíma. Þetta er samband sem er teiknað á rannsóknarstofu chick-lit-eftirlitsins.
Egill Helgason með meik
Það sem einkennir Tobbu sem höfund er ofhlaðinn stíll og ýkt og (oft og tíðum) stórundarlegt myndmál. Ég kýs að leyfa dæmunum að tala:
 „[M]eð tárin hangandi í maskaranum og nafnið hans á milli gnístandi tannanna … “ (13).
„[M]amma stekkur út hraðar en búálfur á leið í bröns … “ (10-11).
„Það er eins og að fá órakað klof í andlitið að tala við þessa menn“ (46).
 „Hvað er þetta með auglýsingafólk – smákóngar með svo ofvaxið sjálfstraust að yfirdrátturinn þeirra skammast sín“ (46).
„Þetta er óþægilegra en sleikur við hvítlauksleginn dverg“ (61).
„Mér líður eins og ég sé Egill Helgason með meik þegar ég hlussast út ganginn, samt er ég í aðhaldsbol sem þrengir meira að mér en vísareikningurinn minn“ (103).
Þessi ofhlaðni og ýkjukenndi stíll er ansi þreytandi til lengdar, þó að vissulega komi hann stundum (jafnvel óþyrmilega) á óvart. Ég ætla að reyna að stæla Tobbu og segi: Stíllinn á þessari bók er eins og ofvirk kanína á sterum.
Glott út í annað
Þó að maður kalli ekki allt ömmu sína (hafi marga fjöruna sopið og allt það) þá þykja mér lýsingar Tobbu of groddalegar á köflum. Fixasjón hennar á líkamsvessa verður t.a.m. aldrei fyndin að mínu mati, heldur aðeins sóðaleg.
Lilja ælir t.d. oftar en einu sinni (og oftar en tvisvar) í sögunni og er því lýst fremur nákvæmlega. Brund ber reglulega á góma og strax í upphafi dvalarinnar á heilsuhælinu byrjar söguhetjan á blæðingum á meðan hún er að spila félagsvist:
„„Nei, ég er ekki að fá taugaáfall. Ég er bara að byrja á túr og er komin með sirkabát eitt Ísland í klofið,“ hvæsi ég fullhátt áður en ég átta mig. Og til að toppa þetta lyfti ég bolnum og bendi á blettinn“ (24).
Það lekur hor úr nefi Lilju þegar hún er að tala við sjúkraþjálfarann sem hún er skotin í (43), hún hefur óskaplegar áhyggjur af því að prumpa fyrir framan hann og því fer hún á klósettið og prumpar áður en tímarnir hefjast. Eða eins og hún orðar það: „Það er fátt verra en að hálf drulla á sig fyrir framan fallegan karlmann“ (29).
Það er eitthvert furðulegt ósamræmi í þessari persónu, sem hefur hugann svo fastan við ytra útlit og það að vera aðlaðandi í augum annarra, en er síðan allt að því sóðaleg í tali og allri framgöngu.  
Raunar glotti ég stundum út í annað yfir lestrinum, en þó sorglega sjaldan, miðað við hvað höfundur leggur á sig til að miðla gassalegum lýsingum á því sem eiga að vera spaugilegar eða vandræðalegar uppákomur. Eins og þegar hjásvæfa Óskar rífur buxurnar sínar og kynfærin liggja úti (154-155), eða þegar sama Ósk ætlar að fá sér „rush“ (kynlífslyf í vökvaformi) í miðjum samförum, en hellir því óvart upp í nefið á sér (135). Lýsingarnar byggja einkum á upphrópunum og blótsyrðum og ná engu flugi.
Ekki lýtalaus
Eins og stallsystir hennar, Bridget Jones, virðist Lilja vera ómótstæðileg í allra augum, þrátt fyrir gallana sem hún telur sér trú um að hún hafi. Hún er falleg og metnaðarfull í starfi. Hana skortir aldrei kærasta eða hjásvæfur, hún er umkringd góðum vinum og fjölskylda hennar er beinlínis fullkomin. Það eru karlmennirnir sem eru ekki nógu góðir fyrir hana, vegna þess að þeir eru sjálfselskir, kvæntir eða drykkfelldir. Lilja hefur þó sjálfsvirðingu sem gerir henni kleift að láta engan vaða yfir sig.
Þessi vinsæla og elskaða kona segir þó varla eða hugsar eitt aukatekið orð sem ekki snýst um karlmenn. Hvernig á að finna rétta manninn? Hvernig á að líta vel út í hans augum? Hvernig á að bæla sig til þess að maður líti ekki út fyrir að vera að „reyna of mikið“? Enn skrifar Tobba beint inn í ákveðna hefð, og hefðina þekkjum við út og inn.
Það dýpkar þó persónu Lilju í bókinni að hún eignast vin sem er (a.m.k. í hennar augum) gamall maður – og síðar þarf hún að hjálpa vinkonu í sorg. Þá kastar Lilja frá sér glossinu og sýnir að hún er meira en bara sæt rauðka. Sagan þéttist líka þegar líða tekur á hana og fallegur boðskapur um vini, fjölskyldu, sjálfsvirðingu og lífshamingju lætur á sér kræla.
Lýtalaus er verk óþroskaðs rithöfundar, en hefur þó til að bera ákveðna leikgleði og hressilegheit. Tobba Marinós hefur bersýnilega gaman af því að skemmta fólki og allur drungi eða óhóflega djúpar pælingar eru víðs fjarri hennar sagnaheimi.
Hver bók á skilið að rata til síns hóps og Lýtalaus á hreint ekki að þurfa að staldra lengi við hjá gömlum og geðstirðum bókmenntafræðingum sem kunna ekki einusinni að meta hraustlega brandara um brund og tíðablóð.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.