Sláttuvélabyltingin

Höfundur: Arngrímur Vídalín

Einu sinni var ég verkamaður. Það sem í upphafi var betur launaður valkostur við Vinnuskólann þróaðist fyrstu þrjú sumrin úr því að vera garðyrkjuvinna yfir í allrahanda þursavinnu á lóðum Landspítala háskólasjúkrahúss. Táningurinn með grænu fingurna var skyndilega settur í að helluleggja planið við vörumóttöku Landakotsspítala, grafa upp og steypa fyrir brunni á lóð Borgarspítalans og leggja gangstéttir við geðdeildina á Arnarholti, svo eitthvað sé nefnt. Garðyrkjan færðist smámsaman meira á hendur stúlknanna meðan við strákarnir vorum í auknum mæli settir í erfiðisvinnu. Þarmeð fannst loks skálkaskjól til réttlætingar á launamuninum milli okkar.

 Þegar stelpurnar fyrst komust að því að þær hefðu lægri laun en við (það var víst ég sem aulaðist til að segja þeim hvað ég fengi, og hlaut ákúrur fyrir) var munurinn skýrður þannig að við karlarnir ynnum meiri yfirvinnu. Yfirvinna var að vísu óheimil með öllu, en einstaka sinnum kom fyrir að einhver einn ynni til fimm eða sex einn og einn dag. Þetta stóðst auðvitað engan veginn og því héldu þær fast við sinn keip og kröfðust betri svara eða tafarlausrar launaleiðréttingar. Þá var þeim tjáð að strákarnir ynnu alla vélavinnu, sem væri erfið. Þegar þær buðust til þess að slá sjálfar var því mætt af fálæti og þrálátri lygasögu um að sláttuvélar skemmdu eggjastokka og hvaðeina. Þegar þær svo hótuðu verkfalli var þeim sagt að þær sætu nú megnið af deginum hvort eð er.

Byltingin koðnaði fljótt niður, en í kjölfar hennar fengu stelpurnar einstaka sinnum að vinna á þær vélar sem ekki voru taldar stefna kynfærum þeirra sérstaklega í hættu. Ekki hækkuðu launin þrátt fyrir það.

Landspítalinn var grófur vinnustaður sé tillit tekið til meðalaldurs starfskraftanna. Hart var barist um stöðu alfakarls og þeir tróndu efstir í stigveldinu sem frekastir voru; þeir hinir lægst settu voru ítrekað kallaðir kerlingar, aumingjar, hálfvitar og liðleskjur. Stundum var slegist, en meira var þó um kerfisbundna niðurlægingu. Meðan á þessu stóð voru stelpurnar, okkur undirskipaðar, öllu jafnari sín á milli. En minnstu karlmennin voru þó undirskipuð stelpunum. Einhverju sinni sást til móður eins piltsins klæða hann í regnbuxur fyrir vinnu. Greyið átti ekki séns eftir það.

Það var þroskandi að vinna á Landspítalanum, að því leytinu til að ég komst ekki hjá því að átta mig á því hvað fólk getur verið ómerkilegt; hvað karlmennskuleikir eru forheimskandi og mannfjandsamlegir, hvernig ímyndaðar vegtyllur testósterónsins breyta bestu drengjum í ofbeldisfulla, kvenfyrirlítandi mannapa. Eftir að stelpurnar tóku yfir léttari vinnuvélar var til þess séð að við hefðum eitthvað enn karlmannlegra að gera; hvað er enda karlmannlegra en steypa? Hvað er karlmannlegra en að leggja hellur? Kvenfyrirlitningin skein alstaðar í gegn. Það var fyndið þegar strákur velti traktor eða kveikti á einhvern ótrúlegan hátt í sláttuvél, en þegar ein stelpan rak vinnubílinn utaní brunn var því tekið sem sönnun þess að konur ættu ekki að keyra bíla.

Á endanum virtist byltingin endanlega hafa gengið tilbaka. Stelpurnar voru áfram sendar út að arfahreinsa beðin og vökva blómin, hvort sem var í glampandi sól eða úrhellisrigningu, meðan karlarnir ýmist sátu inní skúr að karlmennast hver við annan eða hreinsuðu vinnuvélar á planinu utanvið. Hið eðlilegasta af öllu var að slíkum hreystimennum byðust hærri laun en hinum sem gerðust svo grófar að fæðast með píku. Eða það fannst þeim sjálfum. Þá hugmynd að konur gætu unnið sömu vinnu og karlar var ekki orðum eyðandi á þarna á Landspítalanum, svo til þess var séð að þær fengju sem fæst tækifæri til að gera lítið úr manndómi okkar hinna – enda sjálfir svosem fullfærir um það.

Að því leytinu til voru þessi sjö sumur mín sem verkamaður afar þroskandi, að upplifa feðraveldið sem náttúrulögmál, sem einhverslags grundvallarþekkingu sem menn stærðu sig af að búa yfir: konur kunna ekki að keyra, þær geta ekki unnið, þær eiga að fá lægri laun – helst engin – það má samt endilega horfa á rassinn á þeim. Svo spyr fólk sig hvers vegna ég sé femínisti. Menn þurfa að vera illa innrættir eða illa gefnir til að breytast ekki í femínista á svona vinnustað, nema hvorttveggja sé, og þótt ekki kæmi annað til.

Þakka má fyrir það sem vel er gert þótt áhrifin hafi jafnvel verið öfug, og í því tilliti er kannski viðeigandi að rétta út sáttahönd til hormónaapanna af Landspítalanum og óska þeim til hamingju með að hafa fyrstir orðið til þess að benda mér á óréttlætið í samfélaginu – með von um að þeir hafi þroskast örlítið á þeim árum sem síðan eru liðin.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.