Höfundur: Drífa Snædal
Í langan tíma hef ég bisast við að mynda mér skoðun á heimilisstörfum og hvort réttlætanlegt sé að kaupa sér aðstoð inn á heimili. Þetta ræddi ég við Gunnar Hrafn knúzara í sumar og við vorum ósammála þá … en síðan hef ég skipt um skoðun. Það getur vel verið að ég eigi eftir að skipta aftur um skoðun og aftur og aftur. Ég ætla þá að leyfa mér það.
Tvennt hef ég fyrir sið að meta inn í afstöðu mína til ákveðinna mála: Eru samfélagsleg áhrif góð eða slæm og hvaða áhrif eru hugsanleg á þá sem standa verst að vigi. Þannig mynda ég mér skoðun á vændi út frá því hvort vændi sé líklegt til að auka jafnrétti í samfélaginu og hvort vændiskonur séu betur eða verr staddar með lögleiðingu eða banni. Sama má segja um staðgöngumæðrun. Ég gef lítið fyrir rök um „réttindi“ fólks til að eignast börn ef samfélagsleg áhrif eru neikvæð og þær undirokuðu, í þessu tilviki hugsanlegar staðgöngumæður, geta komið illa út úr ferlinu.
Því spyr ég þessara sömu spurninga varðandi heimilisstörf og kaup og sölu á þeim og hugsanlegar aðgerðir stjórnvalda til að ýta undir slík viðskipti.
Samfélagslega hef ég metnað til að heimilisstörf verði metin á við önnur störf og sé í því möguleika á að auka jafnrétti bæði innan heimila og á vinnumarkaðnum. Konur myndu þá minnka hina ólaunuðu vinnu sem kemur í veg fyrir að þær njóti kjara og réttinda á við karla á vinnumarkaðnum. Fjölskyldur hefðu hugsanlega meiri frítíma saman og konur sérstaklega fengju tíma til lýðræðisþátttöku í stað þess að standa í þrifum og þvottum. Einhverjir hafa orðið til að benda á að með aukinni aðstoð inni á heimilum yrðu þau eins og hótel og fólk fjarlægðist heimili sitt sem grunneiningu samfélagsins. Vissulega er fólk sem finnst nauðsynlegt að sinna heimilinu og jafnvel góð skemmtun – ég sé hins vegar lítinn mun á að fara með bílinn í viðgerð, kaupa pípara til að losa stíflu, fá málara til að mála stofuna eða að fá sérfróða manneskju til að þrífa og jafnvel elda mat. Af hverju er það svo rosalega mikilvægt að við gerum það í ólaunaðri vinnu sem hefur hingað til verið á könnu kvenna, en kaupum aðstoð við það sem hefur hingað til verið á könnu karla? Það má með fullt af rökum benda á að ef vanda skal til verka þarf reynslumikið og hæft fólk í öll þessi störf.
Önnur gagnrýni sem hefur heyrst er að kaup á heimilisstörfum festi í sessi stéttaskiptingu og láglaunastöðu kvenna sem vinnuafl í þjónustustörfum. Þetta er verulegt áhyggjuefni að mínu mati og öll opinber hvatning í átt að heimilisaðstoð þarf að taka mið af þessu. Í dag er staðan sú að fjöldi kvenna stundar þessa iðju í svartri vinnu, án þess að vera „inni í kerfinu“, þ.e. þær eiga ekki rétt á atvinnuleysisbótum ef vinnan bregst, safna ekki í lífeyrissjóð né geta þær beitt sér innan stéttarfélags. Um leið og heimilisstörfum er lyft upp á borðið og þau gerð „hvít“ öðlast það fólk sem þau vinnur réttindi sem fylgja því að vera viðurkennd starfsstétt, sem þá getur myndað þrýstihópa og háð kjarabaráttu. Það hlýtur að vera betra en sú staða sem þessi ósýnilega stétt býr við í dag. Svo getum við tekið umræðuna um hvernig við búum um hnútana svo störfin verði metin vel til launa og bæði kynin fáist til að sinna þeim.
Að vinna inni á heimilum fólks er persónulegt og viðkvæmt og þörf er á að vernda sérstaklega fólk sem vinnur slík störf frá misnotkun og valdníðslu hvers konar. Ekki síst þess vegna tel ég mikilvægt að stjórnvöld hugi að því hvernig heimilisstörf geti orðið viðurkennd í flóru atvinnulífsins.
Niðurstaða mín er sem sagt (í bili) að stjórnvöld ættu að grípa til aðgerða til að efla launuð störf inni á heimilum til dæmis með skattahagræðingu til að efla jafnrétti, búa til ný störf og viðurkenna að heimilisstörf séu jafnmikilvæg og önnur störf í samfélaginu.