Þurr húð og fótboltafár

Höfundur: Elva Björk Sverrisdóttir

Nokkrir vinir mínir á facebook lækuðu um helgina pistil sem Atli Fannar Bjarkason, blaðamaður á Fréttablaðinu, skrifaði á laugardag undir fyrirsögninni Opið bréf til Boltalands. Bréf Atla er stæling á opnu bréfi Diljár Ámundadóttur, borgarfulltrúa Besta flokksins, til bjútíráða Mörtu Maríu, sem birt eru á svonefndu Smartlandi á útbreiddasta vef landsins.

Fyrir þau sem ekki þekkja til málsins skal ég rekja það örstutt. Fyrir skömmu afþakkaði Diljá boð Mörtu Maríu um að gefa lesendum innsýn í snyrtiveski sitt. Það gerði hún með því að svara tölvupósti Mörtu með opnu bréfi þar sem hún bendir m.a. á að hún telji val sitt á sokkabuxum eða dóti í snyrtibuddu ekkert spennandi viðfangsefni. Diljá nefndi í framhaldinu að hún vildi t.d. frekar tala um þá pólitík sem hún sinnir hjá borginni.

Bréf Diljár var innlegg í umræðu um konur í fjölmiðlum sem farið hefur fram að undanförnu. Sú umræða hófst með því að María Lilja Þrastardóttir skrifaði Skjá einum bréf og óskaði eftir aukinni fjölbreytni í dagskrárgerð sem sniðin væri að konum. Það gerði hún í kjölfar viðtals við Tobbu Marinós og Ellýju Ármanns í Fréttatímanum, þar sem þær sögðust í nýjum þætti Skjásins ætla að fjalla um allt sem konur hefðu áhuga á – en hugðarefnin voru ef ég man rétt snyrtivörur, útlit, líkamsrækt og kynlíf.

Nokkuð var rætt um opna bréfið hennar Diljár í fjölmiðlum og ekki skorti gagnrýni. Á dv.is las ég að það þætti „skjóta skökku við að Diljá skuli bregðast við fyrirspurn Mörtu Maríu með þessum hætti þar sem hún kom fram í „Lífinu“ í Fréttablaðinu í febrúar síðastliðnum og deildi þar glöð með lesendum leit sinni að hinum fullkomna maskara, hvað sér þætti ómissandi að hafa í snyrtibuddunni ásamt fleiru“.

Gagnrýni gangi ekki „of langt“

Í síðu í Fréttatímanum sem helguð er stöðuuppfærslum á facebook undanfarna viku sá ég svo vísað í slíka stöðu frá ritstjóra Vikunnar. Þar sagði hún að sér þætti það hrokafullt af Diljá að svara bréfinu opinberlega – hún hefði með því verið að upphefja sjálfa sig. Diljá hefði átt að afþakka boðið í prívat skilaboðum – það þótti ritstýrunni greinilega smartara.

Og fleiri hafa hafa slegið stafi á lyklaborð vegna málsins, þar á meðal Hildur Sverrisdóttir, lögfræðingur 365 miðla, sem skrifaði grein á Pressuna. Þar segir hún m.a. að Smartland Mörtu Maríu hafi fengið „opinbera gagnrýni fyrir að hafa leitað til dugmikillar konu vegna fegrunarráða en ekki vegna verkefnanna sem hún væri að vinna að. Það er hægt að skilja hvaðan gagnrýnin kemur og fínt að minna fjölmiðla á að konur hafa áhuga og getu til annarra hluta en að mála sig. Það má þó skoða hvort að gagnrýnin gangi of langt og hvort hún geti stuðlað að annars konar fordómum gagnvart konum.“

Áhugavert er að Hildur virðist hafa áhyggjur af því að gagnrýni á útlitstengt fjölmiðlaefni geti gengið „of langt“. Eins og umfjöllun um útlit og megrun sé í einhvers konar útrýmingarhættu í fjölmiðlum landsins. Það er víst dálítið langt frá því að vera staðreynd. Hér má líka benda á hversu áberandi er að gagnrýni á konur eins og Maríu Lilju og Diljá, sem hafa vogað sér að minna á „ríkjandi skipulag“, hefur gengið lengst einmitt í þeim fjölmiðlum sem mesta útbreiðslu hafa.

Hildur virðist jafnframt gera því skóna að það sé bara staðreynd að konur hafi áhuga á varalitum og meiki rétt eins og karlar hafi áhuga á fótbolta. En hún segir í pistli sínum: „Konur ættu að mega ræða kátar og kinnroðalaust bæði um Grikkland og gloss alveg eins og karlmenn virðast komast upp með að ræða bæði um Grikkland og enska boltann.“

Ennfremur telur Hildur að það væri afskaplega miður ef fegrunarráð legðust af. Hún segir: „Það væri synd því fegrunarráð geta aldeilis verið til mikils gagns. Það getur til dæmis verið mjög gagnlegt fyrir konur með þurra húð að vita að í köldu veðri er sniðugt að setja olíu á húðina til að verja hana áður en farið er í sturtu og sund og blanda smá dagkremi saman við meikið til að það þorni síður á húðinni.“

Þaggaðir karlar og fótboltinn

Á laugardag birtist svo pistill Atla Fannars í útbreiddasta blaði landsins, Fréttablaðinu. Þar gerir hann einskonar skopstælingu úr bréfi Diljár með því að skipta út snyrtivörum fyrir fótbolta (klisjulegt, einhver?). Í pistlinum afþakkar hann boð í spjall um fótbolta og segist miklu frekar vilja ræða hljómsveitina sína fyrrverandi, skrif sín í Fréttablaðið og sitthvað fleira. Kannski fannst einhverjum þetta hnyttið hjá honum, líklegast honum sjálfum í það minnsta.

En hvert er að Atli að fara með pistlinum? Er hann að benda á hlutskipti þaggaðra karla sem ekki komist að í fjölmiðlum nema þeir vilji ræða fótbolta? Eða, eins og ég sá einhvers staðar talað um, er tilgangur Atla sá að sýna fram á á að það skjóti skökku við að snyrtivörumiðill vilji ræða eitthvað annað við konur en snyrtivörur? Að það sé undarlegt að borgarfullltrúinn fatti ekki að Marta í Smartlandi hafi engan áhuga á borgarpólitíkinni.

Ræðum þessar tvær mögulegu túlkanir. Hafi Atli hugsað sér að nota húmorinn til að benda á sannarlegt vandamál, má segja að hann hafi hitt á efni sem áhugavert væri að ræða. Vissulega er fótbolti nokkuð sem stundum virðist vera gert ráð fyrir að allir karlar hafi áhuga á. Það getur eflaust verið erfitt að vera karl sem ekki hrífst af boltasparki og fellur þannig ekki í markhóp fjölmiðla sem leggja veglegan hluta dagskrár sinnar undir þessa iðju. Að maður tali nú ekki um bjórauglýsingarnar sem gera gjarnan út á hvað það sé karlmannlegt að horfa á fótbolta með einn kaldan í hönd. Það er svo önnur umræða hversu mjög hallar á konur í íþróttaefni almennt. Þetta efni er í fjölmiðlunum mjög sniðið að karlmönnum og þá gildir einu hvort um ræðir einkarekna fjölmiðla eða Ríkisútvarpið. Hvar eru t.d. umræðuþættirnir um konur og þeirra íþróttaiðkun með aðkeyptum álitsgjöfum, eins og verið hafa í karlaboltanum á Rúv í sumar? Eigum við að gefa okkur að konur hafi bara ekki áhuga á svoleiðis?

Grætt á glossi

En aftur að pistli Atla. Ef ætlun hans var að benda á að það sé kjánalegt af Diljá að halda að Marta í Smartlandi ræði við hana um eitthvað annað en miðlinum sé ætlað að ræða, þ.e. snyrtidót, þá tel ég að hann sé verulega að mis, eins og stundum er sagt.

Bréfið hennar Diljár snýst ekkert um að ræða eigi borgarpólitík hjá Mörtu Maríu, heldur er það opinberun og um leið góð ábending. Diljá bendir á hversu algengt það er að konur, sem aldrei hafa haft neitt með snyrtivöruiðnaðinn að gera í sínum störfum, séu kallaðar til viðtals um snyrtibuddur sínar. Þetta var jú í annað sinn á skömmum tíma sem leitað var til Diljár um slíkt. Með bréfi sínu dregur hún líka athyglina að snyrtivörufjölmiðlaiðnaðinum, sem er stór, og þar sem konur eru 99% umfjöllunarefnisins. Það breytir voða litlu þótt Marta María fái sprelligosann Helga Seljan eða Kalla í Baggalúti til að að tjá sig um augnblýanta í einhverjum snyrtiþættinum. Eðli miðlanna og tilgangur er hinn sami.

Fjölmiðlarnir meta það svo að þeir geti grætt á þessu efni. Það er ekki af umhyggju fyrir þurri húð kvenna, sem svona efni er haldið úti, heldur snýst þetta auðvitað um beinharða peninga.

En svo er annað sem vert er að benda á. Fjölmiðlarnir ráða sinni dagskrá sjálfir. Það er t.d. ákvörðun Morgunblaðsins að hafa Mörtu Maríu í sínu liði og gera útlitsþátt hennar jafn áberandi á vef sínum og raun ber vitni. Og það er ákvörðun Fréttablaðsins að fjalla að langmestu leyti um íþróttir karla á íþróttasíðu sinni, svo annað dæmi sé tekið. Burtséð frá áhorfi og lestri þá verðum við að gefa okkur að fjölmiðlarnir geti með efnisvali sínu líka haft ákveðin mótandi áhrif á samfélagið. Þeirra ábyrgð er því töluverð.

Höfum ennfremur í huga að rannsóknir hafa sýnt að karlar eru í miklum meirihluta þeirra sem fjallað er um eða talað við í fréttum. Það er kannski ekkert skrýtið að konur eins og Diljá Ámundadóttir taki viðbragð þegar enn og aftur er leitað til þeirra af fjölmiðlum til að fá hjá þeim upplýsingar um gloss og meik.

Fjölmiðlarnir eru auðvitað ekkert stikkfrí. Og hverjir ráða þar lögum og lofum?

Þeir eru víst langflestir karlar.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.