Hinsegin halli

Höfundur: Þorsteinn Vilhjálmsson

Í pistli sem ég skrifaði um árið fullyrti ég eitt sem vakti nokkra úlfúð: „…það hallar nákvæmlega hvergi á réttindi karlmanna og mun að öllum líkindum aldrei gera.“ Ég skrifaði þetta þó að íhuguðu máli og taldi mig geta réttlætt þetta – eina gagndæmið sem mér datt í hug voru fullyrðingar um misrétti meðal foreldra, að mæður fengju oftar forræði en feður – en þessi mismunur er að mínu mati ekki tilkominn vegna þrýstings frá femínistum, heldur frá fyrirframgefnum hugmyndum karlmanna, sem stjórna lagaumhverfinu, um að konur ali upp börn en karlar vinni fyrir þeim án sérstakra tilfinningatengsla við þau.

Nú, hinsvegar, hefur komið í ljós nýtt dæmi sem ég held að komist miklu nær því að grafa undan þessari fullyrðingu, og vil ég skoða það nánar. Það kom nýlega fram ansi sjokkerandi könnun sem upplýsir annars vegar um kvíðafaraldur meðal grunnskólastúlkna, og enn fremur um hræðilegan lesskilning íslenskra 15 ára drengja. Hið síðarnefnda kallar upp samhengi við mjög svo skökk kynjahlutföll háskólanema (miklu fleiri konur), brottfalls úr framhaldsskólum (margfalt fleiri drengir) og einkunna í samræmdu prófum (miklu hærri hjá stúlkum). Hér virðist eitthvað raunverulega vera að gerast: fyrir fáum áratugum var konum ekki hleypt inn í hærri menntastofnanir; nú virðast þær eina von landsins hvað menntun varðar.

Slæm þróun
Ýmsir kynnu að telja að femínistar gleddust yfir þessu. Það er rangt. Þetta er stórfurðuleg þróun og algjörlega af hinu slæma. Fyrir það fyrsta er það þekkt að þegar stétt, svo sem stétt háskólagenginna, verður kvennastétt, verður til fyrirlitning á henni í samfélaginu og launin sem hún uppsker hrapa með, samanber til dæmis kennarastéttina. Aukið hatur á háskólagengnu fólki og menntun – hreinan antí-intellektúalisma – er nú þegar að finna út um allt í íslenskum bloggheimum, sem aftur eru algjörlega dómíneraðir af karlmönnum. Í öðru lagi geta femínistar ekki samþykkt að með aukinni menntun kvenna þurfi menntun karla að minnka á móti – ef svo væri þá væri illa komið fyrir málstað femínista. Þá á það að hjálpa mikið til að karlmenn mennti sig – menntun á að minnka hvers kyns kvenfyrirlitningarapaskap (þótt mörg dæmi séu til um hið gagnstæða).

En hvað orsakar þá þessa niðurstöðu? Ég ætla að sparka frá mér þeirri kenningu, sem ég hef heyrt fleygt fram, að það sé af því að strákar geti ekki lært af kvenkyns kennurum, þeir þurfi sterkar karlkynsfyrirmyndir og geti engan veginn borið virðingu fyrir einhverju jafn ómerkilegu og konu; þetta sé því allt konum að kenna. Ég þyrfti að sjá það miklu betur rökstutt en hefur verið gert. Ég held miklu frekar að skýringa sé að leita í almennri stemmingu í grunnskólum Íslands sem ég man vel eftir sjáfur (enda er höfundur kornungur).

Flott er að vera heimskur

Þegar ég var í grunnskóla var gríðarleg áhersla lögð á það meðal drengjanna í bekknum að vera heimskur. Sá var flottastur í bekknum sem svaraði spurningu kennarans með hvað heimskulegustum hætti eða lét það sem barnalegast í ljós að hann hefði ekki lært heima. Heimskudýrkunin í bekknum var mögnuð – en stelpurnar, merkilegt nokk, fengu ekki að vera með í þessum leik: þær sáu því alfarið um lærdóminn á meðan strákarnir voru nokkurn veginn stikkfrí. Þessi háttur á entist í gegn um allan grunnskólann, allir forðuðust það í lengstu lög að vera dubbaðir proffar – sem einkenndist helst af öllu í því að lesa bækur og texta sér til gamans. Það er erfitt að ímynda sér að slíkt hafi ekki áhrif á lesskilning, gengi í samræmdum prófum og námsárangur á hærri skólastigum – strákarnir í þessum bekk fengu að upplifa tíu ár af ströngum antí-intellektúalisma á allra viðkvæmasta skeiði; það getur gert hvern sem er ólæsan. Ég hef ekki heyrt um að þessi andi hafi neitt breyst í grunnskólum síðan og ég held að þarna liggi orsökin fyrir þessum hrikalega kynjamun sem áður var á minnst.

En þá vaknar spurningin af hverju þessi andi sé til staðar. Á sínum tíma datt mér í hug að þetta væri einfaldlega út af rapptónlistinni sem var nýútsprungin þegar ég var í grunnskóla. Þar er það kúl að rísa gegn kerfinu (sem fyrir forríku hvítu barni er skólinn) og að vera óttalega street-smart (sem fyrir forríkum hvítum börnum sem lifa í vellystingum er að láta eins og flón). En ég er ekki svo viss núorðið að blessað rappið geti útskýrt þetta alltsaman. Annarrar skýringar er einfaldlega að leita í mismunandi þroskahraða drengja og stúlkna – að strákarnir séu ófærir um að læra sömu hlutina og stúlkur og grípi því til þess ráðs að gera heimskuna að dyggð til að viðhalda einhverri virðingarstöðu. Ég veit samt ekki heldur með þetta; hversu þroskaður þarf maður í raun og veru að vera til að geta skilið samhengi í texta og lesið sér til gamans? Börn geta gert þetta frá sex ára aldri, af báðum kynjum. Líkamlegur þroski þarf ekki að vera það sama og námsþroski.

Hver er skýringin?
Skýringin held ég að gæti legið í sömu fyrirframgefnu hugmyndunum sem ég minntist á í byrjun greinarinnar, nema að þær hafa tekið á sig mynd sem er raunar stórskaðleg fyrir karlmenn. Þeir eiga nefnilega að vera góðir í því sem þeir gera frá náttúrunnar hendi, á meðan konur eiga að þurfa að hafa fyrir því. Stelpur eru því aldar upp við miklar kröfur til námsgetu þeirra, en strákar við frjálsræði sem jaðrar við vanrækslu. Í því umhverfi situr stúlkan sveitt yfir náminu með hnút í maganum yfir að stritið muni samt aldrei nægja til að fullnægja kröfunum til hennar (þaðan komi niðurstöður rannsóknarinnar um kvíðaköst stúlkna), en strákurinn er hinsvegar sallarólegur tossi, stoltur í þeirri trú sinni að hann þurfi ekkert að læra; hann muni komast áfram í lífinu án þess. En það er nefnilega mikill og stórhættulegur misskilningur.

Þennan misskilning þarf að leiðrétta, og femínistar ættu að taka virkan þátt í því ef þeir geta. Það getur af sér tækifæri til þess að reka ákveðið slyðruorð af femínismanum, nefnilega að honum sé sama þegar það hallar á karlmenn, sem gerir andstæðingum hans þarmeð kleift að búa til skiptinguna alræmdu „vondur femínisti/góður jafnréttissinni“. Það gæti hjálpað til við að hefta eða stöðva það sem virðist vera vaxandi menntahatur á landinu, sem er gríðarlega mikilvægt markmið.

Ég held að það séu allar líkur á því að málstaður femínista nái einmitt að höggva að rót þessa vanda. Sannleikurinn er sá að strákar eru engir eðlislægir snillingar sem þarf ekkert að hafa fyrir, hvað þá vitsmunalegar hítir ófærar um æðra nám; né eru stelpur betri námsmenn sem skal hampa, hvað þá síðri sem þarf að halda við efnið með þrúgandi kröfum. Og eins og venjulega er lausnin jafnrétti.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.