Karlar í kreppu

Höfundur: Erla Elíasdóttir

Eftir tveggja ára búsetu í Finnlandi, og mismikla viðleitni á þeim tíma til að fylgjast með finnskri þjóðmálaumræðu, rakst ég nýlega á nokkuð sem fékk mig til að staldra við: heimasíðu Jafnréttisfélags finnskra karla. Í framhaldinu fór ég að velta stöðu finnska karlsins betur fyrir mér.

Komið að körlunum

Á síðasta ári kom út heimildamynd eftir Joonas Berghäll og Mika Hotakainen sem nefnist á ensku Steam of Life og ég held að hafi verið sýnd í ríkissjónvarpinu heima. Á finnsku heitir hún Miesten vuoro, sem gæti á íslensku útlagst sem Komið að körlunum, en er einnig notað bókstaflega um að komið sé að körlunum í kynjaskiptri sánu. Myndefnið samanstendur mestan part af körlum sem, sitjandi í sánunni, ræða líf sitt og tilfinningar. Á heimasíðu RÚV fann ég umfjöllunarkorn um myndina, þar sem leikstjórar myndarinnar (sem kölluð er „Sálnasána“!) eru sagðir hafa séð í viðfangsefninu tækifæri „til að kveða niður þá ímynd að finnskir menn séu þögulir og tilfinningasnauðir einstaklingar og láta þá þess í stað tala um málefni eins og: ást, dauða, fæðingu, föðurhlutverkið og vináttuna“.

Þetta er óneitanlega nýleg þróun í hegðun finnskra karla, svona út á við . Ég er heldur ekki frá því að undanfarinn áratug eða tvo hafi farið að bera á nýrri karltýpu í finnskum bókmenntum. Þetta eru söguhetjur (eða kannski andhetjur lýsi þeim betur) sem lenda í kröppum tilvistardansi og upplifa sig einmana og einangraða – frá þeim sem ættu að teljast þeirra nánustu, hver frá öðrum og frá samfélaginu, og má nefna sem dæmi skáldsögur eftir Arto Paasilinna og Kari Hotakainen (ekki þó skyldur fyrrnefndum leikstjóra), sem notið hafa mikillar velgengni. Höfundar hafa húmorinn jafnan að vopni, en undirtónarnir eru alvarlegir. Þetta er varla sérfinnskt nútímafyrirbæri – af íslensku efni dettur mér Hallgrímur Helgason í hug – en þó finnst mér sterkar hafa kveðið að þessu hér. Að einhverju leyti kann það að haldast í hendur við aðra flóðgátt sem virðist óðum vera að opnast: umræðu um stríðið, nokkuð sem Íslendingar hafa ekki þurft að eiga við í sinni þjóðarsál en átt hefur sterk ítök í sálarlífi Finna, og eðli málsins samkvæmt haft beinni áhrif á karla en konur.

Hlutlaust jafnrétti

En aftur að félagsskapnum: Jafnréttisfélag finnskra karla var stofnað í árslok 2008 og samkvæmt heimasíðunni voru helstu hagsmunamál m.a. að taka á hárri sjálfsmorðatíðni í eigin röðum, bágu heilsufari, ofbeldi og allskonar neyslu. Einnig höfðu forsvarsmenn áhyggjur af menntunarleysi, herskyldu, slæmri stöðu einstæðra feðra – og ekki síst af því áhugaleysi sem þessum vandamálum væri sýnt í umræðunni. Þeim fannst umræðan vanrækja þá, og svo virðist sem sjónarmiðin hafi hlotið þónokkurn hljómgrunn. Í ársbyrjun 2011 myndaði félagið svo Bandalag karlasamtaka ásamt samtökunum Karlahópnum og stjórnmálaaflinu Grænu karlahreyfingunni (hljómar allsaman frekar vírd í þýðingu, ég veit…) Var yfirlýst markmið „samfélag þar sem velmegunar- og jafnréttismálum verður ekki forgangsraðað með tilliti til kyns“ og þar sem „stuðlað er að samvinnu gegnum gagnkvæma virðingu og samskipti“. Þetta er í sama anda og manifestó hins upprunalega Jafnréttisfélags, en þar var meðal annars talað um að „ná jafnrétti með kyn(hlut)lausum formerkjum“, þar eð karlar nytu nú minna jafnréttis en konur „á mörgum sviðum“. Málefni karla ætti einnig að skoða með kynjagleraugum, en ekki einskorða sig við „einglyrni kvennamála“, eins og tíðkast hefði. (Útúrdúr: Á heimasíðu þýskrar ríkisútvarpsstöðvar rakst ég á pistil á þýsku, sem ég skil lítið sem ekkert í sjálf – en í honum er bæði talað um Miesten vuoro og Juuso Erno, fyrrum formann karlajafnréttisfélagsins.)

Þótt ég efist ekki um að ofangreind áhyggjuefni eigi við rök að styðjast og fagni því að menn opni sig um þau þá finnst mér fráleit framsetning að vilja strika kyn útúr jafnréttisjöfnunni, eins og krafa um „kynhlutleysi“ og höfnun á „kynjaforgangsröðun“ virðist byggja á. Í tilfelli kvennabaráttunnar má segja að konur hafi haft til þess ærna ástæðu að greina sig frá rí­kjandi meirihluta eftir að hafa svo lengi verið skilgreindar sem andstæða hins ríkjandi viðmiðs karls, frekar en á eigin forsendum. Að sama skapi virðist það ekkert hafa vafist fyrir karlréttindasinnunum finnsku að það sé sökum kynferðis sem þeir standi til dæmis veikar að vígi í forræðisdeilum, og algert hlutleysi virðist þannig í mótsögn við grunnhugmyndafræði þeirra. Mér finnst reyndar sennilegt að fordæming á jákvæðri mismunun í stöðuveitingum búi hlutleysiskröfunni að baki, og að það hafi hreinlega ekki verið hugsað til enda hvort það væri yfirhöfuð vitrænt að stefna að sönnu „kynleysi“ í þessari umræðu.

Talsmenn samtakanna hafa svarið það af sér að vera andfemínískir, en það skín að minnsta kosti í gegn að þeim finnst femínismi hafa stuðlað að mismunun gegn körlum að meira eða minna leyti. Ég hef sjálf rekist á fýsísk dæmi þess, þótt ég trúi varla að það sé dæmigert, að finnskir karlar mantri slagorð samtakanna sem einhverskonar röksemdir gegn femínisma almennt – eins og hann miði að því að taka eitthvað frá körlunum og dissa þeirra vandamál. Hvað kynjagleraugun snertir er svarið einfalt: samkvæmt þeirri hugmyndafræði sem ég kalla femínisma hallar ekki bara á konur, heldur bæði kynin, í meginstraumi ríkjandi heimsmyndar. Það er gróf einföldun á femínisma að ætla honum skeytingarleysi um aðstæður karla, eða vilja kenna honum um vandamál sem bitna fyrst og fremst á þeim. Þó ekki væri nema vegna þeirra fjölmörgu karla sem kalla sig femínista í dag.

Ísland (enn og aftur) best í heimi!

Það fór varla framhjá mörgum Íslendingum að samkvæmt lista sem Newsweek birti á dögunum er Ísland það land heimsins þar sem best þykir að vera kona. Minna hefur farið fyrir fregnum af neðri enda listans, en Afríkuríkið Chad lendir þar neðst allra. Í Chad hafa konur nánast engan rétt fyrir lögum og löglegt er að gefa stúlkubörn allt niður í tíu ára í hjónabönd. Og svo eru lífsskilyrði þar auðvitað töluvert bág almennt. Í kjölfar birtingar listans skrifaði bandaríski rithöfundurinn og aktívistinn Naomi Wolf pistil á enska Al Jazeera undir yfirskriftinni „The price of oppressing your women“, þar sem hún heldur því fram að fátæk lönd viðhaldi eigin örbirgð að einhverju leyti sjálf með áframhaldandi kúgun kvenna. Hún segir misræmi felast í því að skella allri skuld hungurs, ólæsis, eignaskorts og ofbeldis af hálfu stjórnvalda á arfleifð heimsvaldastefnunnar, en loka á sama tíma augunum fyrir samskonar kúgun sem konur þessara landa glíma við, bæði í opinberum stofnunum og inni á eigin heimilum. Nú er ég ekki að reyna að bera hörmungarástandið í Chad, Malí eða Kongó saman við aðstæður á Finnlandi eða Íslandi. En Norðurlöndin eru ekki eyland, við stöndum í samhengi við hinn stærri og fjandsamlegri heim. Misrétti kynjanna, konum í óhag, er einfaldlega meðal lífseigari hefða í þessum heimi, sá hugsunarháttur sem þar býr að baki fyrirfinnst ekki bara í þróunarlöndum heldur er enn til staðar í okkar heimshluta og það kemur engum vel að horfa fram hjá því. Þótt við séum lengra á veg komin en þjóðir þróunarlandanna þurfum við ekki að velja á milli stuðnings við baráttuna þar og baráttuna hér – þótt ástandið sé margfalt alvarlegra þar þýðir það ekki að femínismi á Vesturlöndum eigi ekki rétt á sér lengur. Ef við sofnum á verðinum gæti bakslag auðveldlega fylgt í kjölfarið.

Ég velti því fyrir mér hvernig Bandalag karlahópanna sé statt í dag. Google-leit að nafninu gefur engar niðurstöður síðastliðna viku, heldur ekki mánuð, og eina niðurstaðan frá öllu síðastliðnu ári er fréttin síðan í janúar um stofnun bandalagsins. Með hverri niðurstöðu (eða skorti þar á) bauð Google mér hinsvegar möguleikann: Áttirðu við Bandalag kvennahópanna? Ég vona þó að meðlimir nái að vinna í sínum málum á einhverjum vettvangi. Heimurinn breytist ört og það er skiljanlegt að karlmenn, eins og aðrir hópar, hafi þörf fyrir að endurskilgreina eigin stöðu gagnvart sjálfum sér og öðrum. Það var haft eftir varaformanni jafnréttisfélagsins við stofnun þess að svo væri nú komið í finnsku samfélagi að hugmyndir um stöðu kvenna hefðu þróast framúr hugmyndum um stöðu karla og staða kvennanna væri því orðin mun skýrar skilgreind. Það er sennilega rétt, enda hafa karlmenn almennt ekki haft til þess mikið svigrúm hingað til að draga eigin yfirburðastöðu í efa. En leið þeirra út úr sinni sjálfsmyndarkreppu getur ekki falist í því að láta sem kynjamunur skipti ekki lengur máli, eða kenna kven- og karlkyns femínistum um að hafa vanrækt þeirra hagsmuni.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.