Þróast í drasl

Höfundur: Gísli Magnússon 

Lyktdeyðingin

Það er allt uppá rönd í netheimum útaf alhæfingum, fullyrðingum, staðhæfingum hinna og þessara um að „þetta“ sé fyrir konur og „konur hafa áhuga á“. Einn og ein hafa stigið fram og bent á að ekki hafi öll áhuga á því sama og verið sé að kúga minnihluta kvenna til að njóta og skilgreina sig útfrá svokölluðum áhugamálum meirihlutans.

Þetta væri allt gott og blessað, eða reyndar ekki, því þetta er alveg hörmulegt, ef ekki væri verið að ræða meðal annars fegurðarbreyti- og lyktdeyðibransann. Sumsé, lítill hópur kvenna (og mögulega nokkrir karlar) setur spurningarmerki við þau markaðsþjóðfræði að allar konur hafi jafnmikinn áhuga á „fegurðar-“ og lyktdeyðimeðulum.

Það er kanski fræðimannslegt og sanngjarnt að taka fram að ég er ekki hlutlaus, alls ekki og langt frá því, mér finnst áðurnefndir fegurðar- og lyktdeyðizealotar vera mannhatarar af nazísku kaliberi sem leitast eftir að drepa niður, tortíma, öllu sem mannlegt er, „fegurðar-“ hugtakið snýst í raun um að afmá öll persónu- og einstaklingseinkenni – allar eiga að vera með sama bil milli augna, allar með sömu eyrnastærð, með sama húðlit, allar með sama hárlit. Lyktdeyðingin, ellegar snyrtibransinn, er í grunninn byggð á þeirri skoðun að mannslíkaminn sé viðurstyggilegur (ekki bara konulíkaminn, meiraðsegja líkamar karla), og hamingja fáist ekki nema líkaminn sé aflíkamaður, svitakirtlar brenndir burt með leisigeislum, hárum tortímt með hvaða hatursfullu pyndingu sem upphugsa má, mannsandanum drekkt í sorbitólskoli og kæfður með xylófóníntyggjói, slímhúðinni tortímt með þurrkuspreyjum.

Það væri allt gott og blessað, eða reyndar ekki, því þetta er sorglegra en tungum taki, ef snerist þetta einvörðungu um hatur fólks á sínum eigin líkama. En það er ekki málið þarsem að baki liggur öfgatrú og áðurnefnd nazísk gjöreyðingarstefna, þá stoppar þetta hatur ekki í brjósti þess sem það ber – dömur mínar og herrar, við erum að tala um einelti, róg, níð og baknag. Öll vitum við að einelti er ljótt, mjög, mjög ljótt – allavega bloggar fólk nógu mikið um það og birtir grátbólgna feisbúkkstatusa þaraðlútandi – samt höfum við komið okkur upp samfélagi þarsem ekkert þykir verðskulda athygli nema hátæknilegar umræður um hvað aðrir eru ljótir og illa lyktandi.

Minnihlutinn og meirihlutinn

Það double sorglega í þessu er náttúrlega að á þessu græða feitir kettir, feitu kettirnir sem selja fegurðarbreytingarnar og líkamseyðingarnar og aflátstískuna sem kaupir fólk undan illu umtali.

Nú kann einhver forsvari hins ríkjandi menningarfyrirkomulags að taka við sér og segja að ég hljóti að vera subba fyrst ég hef slíka andúð á „hreinlæti“ – fólk með fullu viti sér afturámóti að hér er lýst hluta fyrir heild, ég sé engan stórfenglegan mun á slúðri um fræga fólkið, uppskriftaporri, kynlífssérfræðiráðgjöfum og hverju öðru útlitsrúnki sem fólki er boðið upp á sem afþreying í dag. Allt grundvallast þetta á lægstu hvötum mannsins, að hatast útí og öfunda aðra, rægja þá og rífa niður. Einu sinni var því haldið að fólki að það væri göfugt markmið að reyna að þroskast uppúr slíkum kenndum.

Ég var að lesa grein eftir Maríu nokkra sem benti á þrýstinginn sem minnihlutahópurinn, sá sem gengst ekki upp í „þessum heimi“, verður fyrir þegar hann markar sín mörk. Sérstaklega minntist hún á að litli hópurinn er sakaður um að sýna áhugasviði meirihlutans óvirðingu og hroka, með því að neita að taka þátt. Einhver segði þá að kötturinn kalli pottinn svartan.

Þá datt mér í hug af því ég var að horfa á fínustu mynd með Anitu Briem, Dylan Dog: Dead of Night, þá rifjaðist upp fyrir mér hugmyndin um hinar tilfallandi ofurkonur.

Fyrir þá sem ekki fatta samstundis um hvað er rætt, þá má segja í stuttu máli að hún lýsir því þegar konum er bætt samkvæmt kvalitatífum kynjakvóta inn í sögu sem gerir annars ekkert sérstaklega ráð fyrir konum. Er þá hin viðbætta kona oft hálfgert ofurmenni, bæði af því það má leika á kynjakvótann með því að hafa hina stöku konu sérstaklega öfluga, og þá þarf ekki eðlilegt hagstofulegt hlutfall kynja, né 10 konur – ein nægir.

Ofurkonan

Hugmyndin um ofurkonuna hefur lengi verið til, ég hef verið að glugga í rit eftir Barböru Taylor um merkar konur á 18du öld, en þá var gjarna talið að konur sem sköruðu framúr gerðu það af því þær hefðu hlotið karlmannsuppeldi, það að rísa ofar rollulegu mengi kvenna sýndi bæði maskúlín eiginleika og, sem áður segir, var mögulegt út af þessum maskúlín eiginleikum.

Þessi umræða hefur í raun lítið breyst, allavega frá 18du öld, þarsem nútíminn okkar hefst, sem slíkur. Þessi nútími sem upprunalega átti að fullkomnast í mannsemd og virðingu og skilningi á sjálfum sér, þroskaleit að þeirri dygð að lifa í virðingu og harmóníu við allt og alla – þá minnumst við ekki á þá sem setja markið svo hátt að það er handan heims.

Karlahópurinn er viðmiðið, konumengið samansafn fávísra sjálfshatara sem auðvelt er að afvegaleiða og stjórna með fyrirheitum um að fella þær betur að fegurðarhugmyndinni (sem er hvað nákvæmlega? ekki rísa þær ofar hópi sínum meðan viðmiðið er einhver óskilgreind hugmynd um líkamalausa fegurð og kemíska kosmetólógíu (jafnvel, kemalíska kosmónavtíu eða kosmíska kemalistísku)), en hvaða vit er það? Hans viðmið er annað samkvæmt skilgreiningu.

Það er títtrætt um árangur í jafnrétti kynjanna, sérstaklega í framboðsbaráttu og setningarræðum á Alþingi, eilítið minna í skátunum og enn minna á hljómsveitaræfingum og á borðtennismótum, en þegar maður sér 90 prósent kvenna í dag kjósa sem sitt aðaláhugaefni hið algera botnfall andlegs smælkis, þá gefur auga leið að 10 prósentin sem eftir standa eru by default ofurkonur, og ekki frekar tilfallandi en ekki. Þær eru ofurkonur einsog þær sem í krafti karllegra eiginleika gátu skilið og skeggrætt frumspeki og óhlutbundnar hugmyndir á 18du öld, og Anitur Briem kvikmyndanna sem einar síns liðs berjast við varúlfa, vampírur og forynjur, enda meistarar í búdó og kung-fu, auk þess að vera fjúkandi vel menntaðar, ríkar og fallegar.

Einsog áður segir er Anita eina kvenpersónan í áðurnefndri mynd, það eru nokkur fórnarlömb, eitthvað af strippurum og vændiskonum og ein dauð kona, en hvort yfirburðir Anitu yfir konunum (sem ekki eru til staðar) og geta hennar til að glíma jöfn við karlana, hvort þetta stafar af framförum í jafnréttismálum eða ofurmennsku Anitu, það er ekki gott að segja en sýnist hverjum sitt. En ef við víkjum aftur að 10 prósentunum nútímakvenna sem rísa ofar því smásálarrusli sem borið er á borð fyrir hvunndagskonuna, eru þetta ofurkonur okkar tíma? Anitur Briem veruleikans?

Þeir hverjum sárnar tregða minnihlutans til að vera með í partíinu, sem skjóta til baka og kalla 10 prósentin subbur og illa lyktandi feminista – það er þá önnur leið til að lýsa þeim karllegu eiginleikum sem gera að verkum að 10 prósentin skera sig úr frá hinum. Karlar eru subbur og hafa hvorki áhuga á að hirða um sig né að vera boðlegir. Feministar eru konur sem eru karlar, og karlar eru konur sem eru feministar. Þetta er nokkurskonar gullinsmálsjafna, en það er skiljanlega engin sérstök ástæða til að ætla að hún gangi upp, nema síður sé.

Drasl

Svo er hitt að jafnan er röng frá upphafi, ef konur eru flokkaðar sem drasl eða ofurkonur eftir því hversu þær líkjast karlmönnum. Bæði eru karlar drasl og viðunandi, en svo er líka hitt að mál manna er að mannkynið sé að stærstum hluta drasl orðið, engin einbeiting, engin dýpt, ekkert sem skiptir máli, ekkert mannlegt, bara auglýsingaskrum og froða, yfirborðsmennska, hræsni, stafrænt, lyktarlaust, staðlað.

Þegar farið er þeim megin að þessari umræðu er hætt við að allar verði þessar vangaveltur hjóm, og líka hitt að ef spurt er hvort réttindi kvenna hafi aukist á við karla – þá má benda á að meirihluti mannkyns hefur þróast aftur á bak síðustu misseri og í stað þess að konur vaxi uppúr draslinu hefur restin af mannkyninu þróast í drasl.

Eftirmál: – Ef aukinn skilningur og virðing fyrir manninum og öllu því sem mannlegt er ber vott um góðan þroska og dygð getur maður ekki annað en ætlað að áhangendur „nútímamenningar“ lendi í lægsta þrepi mannlegs þroska, svo- og sannkölluðum ruslflokki.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.