Meintar og ómeintar nauðganir

Höfundur: Kristín Jónsdóttir

Það er alveg magnað, hve sláandi munur er á orðræðu fjölmiðla þegar fjallað er um karla sem kæra nauðgun eða konur sem kæra nauðgun.Ýmsir, þar á meðal bloggarinn Hildur Lilliendahl, hafa bent á þetta áður, en blaðamenn virðast alls ekki taka þetta til sín eða sjá nokkra ástæðu til að endurskoða nálgun sína á þessu viðkvæma fréttaefni. Við sáum dæmi um það 2. október síðastliðinn, þegar DV birti frétt um aukinn fjölda karlmanna sem leituðu til Stígamóta vegna nauðgana í fyrra.

Um svipað leyti birtist frétt um nauðganir á Litla Hrauni og önnur um nauðgun karls á Englandi. Í hvorugu þeirra tilvika, né í þessari frétt kemur orðið meint fram, en það orð er sláandi áberandi í fréttum af því þegar konur tilkynna nauðgun. Í raun tilkynna konur aldrei nauðgun samkvæmt fréttamönnum, nauðgun kvenna er ávallt meint.

Ég, og fleiri, höfum velt fyrir okkur hvernig á því standi að blaðamönnum þyki svo mikilvægt að leggja áherslu á að ekkert sé sannað þegar kona leggur fram kæru, en sjái enga ástæðu til að sýna svipaða varúð þegar karlar gera slíkt hið sama.

Ein hugmyndin er sú að blaðamaðurinn sé karl og finni eingöngu til með körlum, en ég á erfitt með að trúa slíkri fásinnu. Önnur ástæða gæti verið að nauðgun konu sé einhvers konar norm, nauðgun karlmanns sé sjaldgæfari atburður og þar með óhugnalegri, ekki orðinn eins hversdagslegur í hugum fólks og nauðgun á konum. Ég á líka mjög bágt með að trúa því. Sérstaklega á ég erfitt með að trúa þeirri skýringu þegar ég skoða frétt eins og þessa hér, sem birtist í DV þann 11. desember 2009:

Þetta er frásögn af nauðgun á 16 ára barni í samkvæmi í heimahúsi. Barnið er með sýnilega áverka og var árásarmanninum stungið beint í steininn. Blaðamaðurinn passar samt vel upp á að hafa hann alltaf grunaðan og verknaðurinn er vandlega meintur út í gegnum alla fréttina. Varla eru nauðganir á börnum þó jafn mikið norm og nauðganir á konum?

Ég veit ekki hvað veldur þessu, en þið getið skoðað óteljandi dæmi um þetta á netinu með aðstoð google. Ein skýringin sem mér dettur í hug, er sú að blaðamenn telji meiri líkur á því að konur og börn ljúgi um svona hluti, og því sé nauðsynlegt að draga tilkynningar þeirra í efa áður en sekt er sönnuð. Við vitum öll hve erfitt er fyrir fórnarlömb nauðgana að sanna atvikið, nauðgarar passa sig yfirleitt á því að stunda ofbeldi sitt óséðir af öðrum en fórnarlambinu sjálfu.

Það er ágætt að fara varlega í fréttamennsku, fátt er meira þreytandi en fjölmiðlafár út af engu og vissulega getur fólk logið til um árásir eða slys. Ég man til dæmis vel eftir tryggingasvikurum sem veittu sjálfum sér áverka í von um pening fyrir nokkrum árum síðan. Þessir svikahrappar voru karlmenn, en mál þeirra dugði greinilega ekki til að minna á að karlmenn hljóta að geta logið jafn auðveldlega og konur. Eða hvað?

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.