Meg Ryan, Natalie Portman og Trausti rakari

Höfundur: Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir

megryanÉg held að það hafi verið á biðstofunni hjá Trausta rakara fyrir næstum þrjátíu árum sem ég tók að átta mig á því að tískuheimurinn væri sennilega byggður á blekkingum. Þó að Trausti starfrækti hárgreiðslustofu sína á Eskifirði, þá vildi hann samt vera heimsborgaralegur rakari og þó að maður væri bara tólf ára gamalt stelpurassgat þá vísaði hann manni til sætis í leðurstól og staflaði fullt af glansandi hártískublöðum á glerborðið fyrir framan. Ég fletti svo í gegnum blöðin á meðan Trausti var að hjálpa einhverjum af karlkyns íbúum bæjarins að snyrta kragann og greiða yfir skallann, eða taka permanent-rúllur úr kaupfélagsstjórafrúnni. Þegar röðin kom að mér hjá Trausta, þá hafði ég í taumlausri bjartsýni valið mér mynd af einhverju súpermódeli með alveg rosalega töff og æðislegt hár. „Trausti! Svona langar mig að vera!“ sagði ég af allri þeirri festu sem manni er gefin þegar maður er tólf ára. Trausti kinkaði kolli vinalega og hófst svo handa við klippinguna.
Það brást ekki að Trausti gerði sitt besta. En það brást heldur aldrei að heim fór ég með sama drengjakollinn og ég hafði verið með frá því að lét klippa mig stutt. Aldrei sáust nokkur einustu líkindi með mér og konunum í blaðinu. Aldrei nokkurn tíma.
Ég þýfgaði ekki Trausta um þetta, vegna þess að ég byrjaði strax að hugsa: Þetta hefur ekkert með konurnar í blaðinu að gera. Og það er ekki Trausti rakari sem veldur ekki starfi sínu, heldur er það ég og mitt ömurlega skítahár sem aldrei getur verið eins og hár á að vera.

Sveipurinn okkar Ólafs Ragnars
Þegar ég eltist og sjálfstraustið jókst lítið eitt, þá fór ég að orða það við hárgreiðslukonur sem klipptu mig, hvers vegna klippingin sem ég fékk væri svona ólík þeirri sem ég valdi og benti á í blaðinu. Ef ég hefði kunnað orðasambandið „Hróplegt ósamræmi“, þá hefði ég áreiðanlega notað það.
Ekki stóð á svörunum. „Þú ert með svo marga sveipi í hárinu“. „Og svo ertu með liði í því sem ekki ná því að verða fullburða krullur“. „Þú ert“… [hér koma ótal skýringar og öllum tók mitt brothætta sjálf á einn veg: Þú ert misheppnuð, Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir].Svo óx ég náttúrlega upp úr þessu. Ég fór að sætta mig við að vera með risasveip í toppnum, sem er nákvæmlega eins og sá sem Ólafur Ragnar Grímsson er með, og veldur því að ég verð að skipta til hægri, hvort sem mér líkar það betur eða verr. Ég fór að velja klippinguna eftir hárinu á mér fremur en hárinu á einhverju módeli sem ég vissi annars hvorki haus né sporð á. Ég fór… tja, að sætta mig við að vera eins og ég, en ekki einhver önnur. Því hló ég upphátt fyrir nokkrum árum þegar hárgreiðslukvendi eitt rótaði í hnakkanum á mér með klístraðri fituslepju og sagði, rétt þegar ég var að standa upp úr stólnum, að nú liti ég út alveg eins og Meg Ryan. Ég sagði: „Takk, kærlega. En ég er nákvæmlega ekkert lík Meg Ryan. Og mig langar bara alls ekki neitt að líkjast henni.“

Diormeik = Natalie Portman
Mér datt í hug langdregin glíman við hárið á mér og tískublöðin þegar ég sá fyrirsögnina Vertu jafn sæt og Natalie Portman á Smartlandinu hennar Mörtu Maríu. Með nýjasta Dior-meikinu eigum við konur víst að geta orðið alveg jafnsætar og Hollywood-stjarna sem hefur atvinnu sína af því að líta vel út. Kona sem hefur í vinnu heilan her fólks sem ráðleggur henni um útlit og klæðaburð. Leikkona sem hefur förðunarfræðinga, hárgreiðslufólk, fatahönnuði, stílista, matarráðgjafa og einkaþjálfara á launum allt árið. Myndirnar af henni taka svo heimsins færustu ljósmyndarar (sem kunna líka á fótósjopp) og allt þetta lýtur að einni niðurstöðu: Natalie Portman lítur alltaf frábærlega út. Alltaf. [Nema þegar ósvífnir papparassar taka myndir af henni við óvæntar aðstæður og fyrirsagnir eins og: „Hún er með appelsínuhúð!!!“ dúkka upp í fjölmiðlum. En það er önnur saga.

Ég gæti alveg átt það til að róta í hnakkahárunum á mér með fituslepju. Alveg eins og ég gæti átt það til að kaupa mér nýjasta meikið frá Dior, þrátt fyrir ömurðarauglýsingar eins og þær sem Smartlandið dælir út í ljósleiðarana. En ég mun líta út eins og Þórunn Hrefna með úfinn hnakka, eða eins og Þórunn Hrefna með meik. Ekki eins og Meg Ryan eða Natalie Portman. Sem betur fer eru allnokkur ár síðan ég áttaði mig á því.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.