„Garður er granna sættir“: Hugleiðingar að loknu námskeiði um kirkju og kynferðisbrot

Höfundur: Sigríður Guðmarsdóttir

„Garður er granna sættir“, segir gamalt máltæki og grjóthleðslur forfeðranna koma upp í hugann. Slíkar hleðslur má finna um allt land. Þær voru settar niður til að sporna gegn óblíðu úthafi, aðrar til að fegra og prýða kirkjugarða og fögur bæjarstæði. Velflestir grjótgarðar á Íslandi hafa hins vegar markað landamæri milli bújarða. Þeir voru reistir til að setja grönnum og skepnum þeirra mörk og búa til frelsi innan marka garðanna til jarðarbóta og jarðarnytja.

Landamærakarp hefur löngum talist til þjóðaríþrótta Íslendinga, en þótt margir hafi deilt um það hvar mærin eigi að liggja virðast fáir hafa efast um gildi slíkra garða fyrir mannlegt samfélag. Grjóthleðslur marka eigin garð hleðslumanns og aðgreina veröld hans frá garði annarra og almenningnum sem hópurinn hefur komið sér saman um. Garður er granna sættir og án girðinga, án marka, er hvorki friður né frelsi. Ein eru þó mörkin sem löngum hafa þótt lág og fljótandi á Íslandi og liggja þau velflest um líkama kvenna og barna. Þessir lágu og vanræktu garðar standa umhverfis kynverundarréttindi, mörk líkama okkar og okkar persónulega rýmis.

Umræðum um kynverundarréttindi, kynferðisafbrot og kynferðislega áreitni hefur fleygt fram á síðastliðnum árum, umræðu sem fyrst og fremst fjallar um persónuleg mörk og samskipti. Þessar umræður hafa náð nýjum hæðum í tengslum við ásakanir kvenna á hendur fyrrverandi biskupi í íslensku þjóðkirkjunni um kynferðisbrot 1996 og 2009, sem aftur komust í umræðuna á síðasta ári í í kjölfar nýrra upplýsinga um stórfelld mistök og jafnvel þöggunartilburði valdamikilla aðila innan Þjóðkirkjunnar. Fréttir hafa borist af fleiri kynferðisbrotamálum presta Þjóðkirkjunnar, sem og forstöðumanna annarra trúfélaga, og rannsóknarnefndir og fagráð um kynferðisafbrot verið skipuð.

Ameríska prestinum Marie Fortune var boðið til landsins í vikunni, en hún hefur sérhæft sig í viðbrögðum og fræðslu vegna kynferðisafbrota í trúfélögum. Málþing var haldið í Háskóla Íslands á þriðjudaginn með Fortune og fleiri fyrirlesurum og síðan hélt Fortune tölu frá morgni miðvikudags fram til kvölds fyrir presta, starfsfólk, sóknarnefndir og fulltrúa frá hinum ýmsu trúfélögum, fríkirkjum og kirkjudeildum á Íslandi.

Fortune hélt fjögur erindi á námskeiðinu sem öll tengdust persónulegum og faglegum mörkum með einhverjum hætti. Hún talaði um nauðsyn slíkra garða, um frelsið sem fylgdi því að virða mörk annarra og hið upplýsta samþykki sem yrði að liggja til grundvallar því að færa til mörk og skapa sameiginleg rými. Fortune nefndi mikilvægi forvarna til að söfnuðir væru upplýstir um vandann og gætu greint hættulega einstaklinga sem virtu engin mörk. Hún sýndi dæmi um afneitun og yfirhylmingu í söfnuðum. Hún upplýsti um viðeigandi íhlutun til að leysa slík vandamál í trúfélögum.

Eitt af því sem helst sat eftir hjá mér eftir námskeiðið var leikin mynd sem Fortune sýndi um siðblindan prest í söfnuði. Handritið hafði orðið til í samræðu kvenna sem allar höfðu orðið fyrir kynferðisofbeldi presta og aðstæðurnar sem myndin lýsti voru settar saman úr reynslu þeirra allra. Presturinn sem myndin lýsti vældi sig inn á konur í söfnuðinum undir því yfirskini að hann væri sendur til að hjálpa þeim og styðja. Í samtölum þeirra snéri hann hins vegar við hlutverkum skjólstæðings og sálusorgara. Hann var svo þreyttur, aumur og óhamingjusamur og gat ómögulega lifað án þeirra. Og konurnar, með áratuga þjálfun í markaleysi og tvö þúsund ára kærleiksboðskap á bakinu, gátu ómögulega neitað sínum sorgmædda presti með þyrnikórónuna á höfðinu. Þær hugguðu prestinn sem átti að hugga þær og allir garðar einkalífs þeirra hrundu.

Margt í fari hinnar uppdiktuðu amerísku persónu minnti mig á hegðun biskupsins eins og konurnar sem ásökuðu hann hafa lýst í blaðaviðtölum, og dóttir hans í bókinni Ekki líta undan sem kom út s.l. sunnudag. En hlutverkaviðsnúningur sá sem myndin lýsti og þar sem skjólstæðingurinn lendir í því að hugga huggarann, kemur líka skýrt fram í frægum dómi Hæstaréttar frá 19. mars 2009 yfir þáverandi sóknarpresti á Selfossi.

Í dómnum koma fram ítarlegar skýrslur um samskipti sóknarprestsins og nokkurra stúlkna sem hann hafði nýlega fermt, sem að mínu viti virka eins og klassískt dæmi um slíkan hlutverkaviðsnúning og markabrenglun. Þar segir af samskiptum prestsins og einnar stúlkunnar:

Skýrsla var tekin af A fyrir dómi skv. 1. mgr. a-liðar 74. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð opinberra mála. Skýrði hún þá frá því að sunnudaginn 21. október 2007 hefði hún verið að vinna við sunnudagaskólann í kirkjunni þegar ákærði hefði beðið hana að koma með sér inn á skrifstofu sína í kirkjunni. […] Hefði hann þá dregið hana afsíðis, frá dyrunum, þangað sem enginn gat séð þau, og sagt við hana að hann yrði að fá að faðma hana af því að honum liði svo illa. Hefði hann sagst hafa farið til læknis og fengið hjá honum eina töflu á dag og væri hann að hugsa um að fara aftur til hans og fá þá tvær. Hefði hann svo sagt við hana að hann fyndi „að straumarnir streymdu úr líkama sínum“ þegar hann fengi að faðma hana. Hefði hann svo strokið á henni bakið, utan klæða, upp og niður um mjóbakið.

Þegar presturinn var spurður um þetta atvik sagði hann svo frá:

Aðspurður minntist hann þess að hafa einni sinni beðið stúlkuna um að aðstoða sig smávegis við tölvuna á skrifstofu sinni. Það atvik tengdist þó ekki því atviki sem lýst er í ákærulið 1 því að í því tilviki hefði hann verið á leið frá kirkjuskipinu til skrifstofu sinnar, líklega að lokinni einhverri athöfn, og stúlkan þá staðið þar við dyrnar. Hefði hann þá faðmað hana þar að sér, í kannski fjórar til fimm sekúndur, og þótt hann myndi ekki eftir því væri þó líklegt að hann hefði þá eitthvað strokið henni um handlegg eða bakið, utan klæða, í sama mund. Hefði hann og á sama tíma sagt við hana sem svo: „Ég er nú ekki alveg hress A mín. Gefðu mér nú kraft.“

Þegar presturinn minntist þessara atburða fyrir dómi fannst honum ekkert athugavert við hegðun sína og orð:

Ástæða þessara orða hans hefði verið sú að hann hefði þá verið búinn að vera einkennilega lengi ekki alveg hress og stundum jafnvel fengið fáeinar hitakommur þegar á daginn leið. Hefði hann haft orð á því við stúlkuna að hann hefði verið að breyta um blóðþrýstingslyf og héldi að þetta stafaði af því. Hann kvaðst hins vegar ekki kannast við að hafa talað um að straumarnir streymdu úr líkama hans eða eitthvað slíkt. Sagði ákærði að þetta faðmlag við stúlkuna hefði ekki verið neitt frábrugðið því sem algengt væri hjá honum í samskiptum við annað fólk og sæi hann ekkert óeðlilegt við það á nokkurn hátt. Lýsti hann því nánar þannig að hann hefði tekið utan um herðar stúlkunnar og faðmað hana, en þó ekkert mjög þétt. Ekkert kynferðislegt eða ósiðlegt hefði verið í hans huga hvað þetta varðaði.

Hinum fjölskipaða dómi Hæstarréttar, sem dæmdi í málinu 2009, virðist lítið hafa þótt refsivert við hegðun prestsins og að fátt styddi ásakanir um kynferðislega áreitni:

Sú háttsemi ákærða, sem honum er gefin að sök, og sönnun er talin liggja fyrir um, lýtur að því að hann hafi faðmað umræddar stúlkur og jafnframt strokið annarri þeirra á baki, utan klæða, talandi um að honum liði illa, en einnig kysst hina á sitt hvora kinnina. Með hliðsjón af því sem á undan er rakið telur dómurinn að þessi háttsemi ákærða geti ekki talist kynferðisleg áreitni í skilningi 199. gr. almennra hegningarlaga. Þá verður ekki heldur fallist á með ákæruvaldi að ákærði hafi með þessari háttsemi sýnt stúlkunum yfirgang, ruddalegt eða ósiðlegt athæfi, sært þær eða móðgað í skilningi 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Verður ákærði því sýknaður af báðum liðum ákæru.

Hinn sýknaði sóknarprestur hafði nýlega skipt um blóðþrýstingslyf og þurfti þess vegna að „fá kraft“ hjá unglingsstúlku á skrifstofunni sinni. Dóttir fyrrverandi biskups hefur lýst því hvernig faðir hennar hafi þurft að „létta af sér spennu“ á sunnudagskvöldum. Hvorttveggja ber vott um hegðun þar sem hinn valdmikli huggari snýr við hlutverkum gagnvart þeim sem honum er treyst fyrir. Hvor saga um sig segir frá görðum og grjóthleðslum í einkalífi sem falla vegna þess að þeir, sem eiga að hirða um garðana og það sem garðarnir geyma, bregðast verndarhlutverki sínu.

Prestar eru ekki einir um það meðal starfsstétta að að virða ekki mörk, rugla hlutverkum og væla sig inn á fórnarlömb sín, af því að þeir eiga svo bágt og þurfa að láta hugga sig. Slík dæmi má einnig finna í röðum kennara sem leita á nemendur sína, lækna og hjúkrunarfólks sem þurfa að láta skjólstæðinga sína „hjálpa sér“, foreldra sem taka þreytu, spenning og reiði út á börnunum, starfsmenn á geðdeildum og félagsþjónustu sem krefjast greiðslu fyrir veitta aðstoð og hjálp, svo dæmi séu tekin. Inn á milli allra þeirra trúu og faglegu fagmanna og foreldra sem standa undir merkjum er líka að finna rándýr, villuráfandi sauði og siðblindingja sem nærast á litlu eftirliti, blindu trausti og óljósum skilgreiningum milli þess valdmikla og hins varnarlausa.

Marie Fortune talar inn í slíkar aðstæður með fræðslu sinni um forvarnir og íhlutanir og bendir okkur á það hversu alþjóðlegt og almennt vandamálið er. Íslenskt samfélag þarf forvarnir þar sem einn er settur til að annast um annan, á heimili, í skóla, kirkju og á heilsugæslustöðinni. Við, sem samfélag og net af minni nærsamfélögum, verðum að hafa kjark og vit til að skima og koma okkur saman um leikreglur og garða sem ekki má vaða yfir eða snúa við, nema með upplýstu samþykki á jafnræðisgrundvelli. Við þurfum að verja þessi mörk með öllum ráðum, með upplýstu réttarkerfi og viti borinni umræðu. Við þurfum íhlutun og samstöðu til að byggja upp garða og halda úti þeim eyðingaröflum sem brjóta niður persónuleg mörk.

Við þurfum lækna, kennara og framámenn trúfélaga sem „leita sér krafts“ annars staðar en hjá skjólstæðingum sínum. Því að garður er ekki aðeins granna sættir heldur grunnforsenda öryggis, frelsis og friðar.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.