Af feitum, loðnum mussufemmum

Höfundur: Kristín Jónsdóttir

Um daginn sátum við nokkrar vinkonur á spjalli. Ein þeirra er ólétt og við vorum eitthvað að ræða meðgönguna. Allt í einu leit hún snöggt á mig og sagði: „ég veit að þér finnst þetta líklega ömurlegt, en ég ætla að fá mér einkaþjálfara eftir fæðinguna og komast fljótt aftur í mitt gamla form“. Þegar ég spurði hvers vegna mér ætti að þykja það ömurlegt, sagði hún það vera vegna yfirlýstrar óánægju minnar með útlitsdýrkun.

Ég skil hvað hún á við, en þetta þarfnast leiðréttingar. Þó að ég sé yfirlýstur femínisti og baráttumaður gegn útlitsdýrkun og upphafningu þess að vera aðlaðandi, flottur, sætur og smart, á einhvern mælikvarða sem ég varla skil, er ekki þar með sagt að ég líti niður á fólk sem stundar íþróttir og ræktar líkama sinn. Eins og ég sagði við þessa ágætu vinkonu: „Það sem mér finnst ömurlegast af öllu er fólk sem er óánægt með sjálft sig og vansælt, en gerir ekkert í því.“

Ég fer sjálf í leikfimi tvisvar í viku, þar sem ég hoppa og skoppa, svitna og roðna. Mér finnst hrikalega erfitt að horfa á mig í speglinum, þar sem ég baða út öllum öngum og keppist við að fylgja þjálfaranum, sem minnir mig stundum á pæjuna úr myndinni Perfect sem Jamie Lee Curtis lék á níunda áratugnum.

Ég fer líka stundum út að hlaupa. Það á að vera reglulegt og tvisvar í viku, en stundum gerist ekkert í heila viku, eða jafnvel tvær eða þrjár, mjög furðulegt og ég skil ekkert í þessu, en stundum bara fer ég ekki út að hlaupa þó ég hafi ætlað mér það. Ég hjóla töluvert og geng mjög mikið og er því alls ekki vansæl, mér finnst ég alveg hreyfa mig nóg. Ég bara geri eins og ég get og passa mig á að fyrirgefa sjálfri mér samstundis allt skróp frá hlaupunum. En um leið passa ég mig líka á því að stunda það sem Gísli Ásgeirsson, annar knúzari, hefur nefnt sukkjöfnun. Ég borða í samræmi við það hvernig ég hreyfi mig og vice versa. Ég mætti alveg vera grennri og stæltari, maginn á mér er dálítið framstæður, en mér líður samt nokkuð vel með mig og reyni eins og ég get að vera sátt við sjálfa mig.

Fjölmiðlar sem hamra stöðugt á því hvernig við eigum að vera og hvernig okkur ætti að líða hjálpa engan veginn til, þetta kemur algerlega frá sjálfri mér og það að ég skuli skrifa gegn þessari útlitsdýrkun er mín leið til að reyna að hjálpa öðrum. Með því að afhjúpa hversu rangur boðskapur kemur í gegnum fjölmiðlana næst vonandi að vekja fólk til umhugsunar og fá það til að sættast betur við að vera bara alls konar.

Það sem mér finnst í raun skondnast er að ég sat þarna fyrir framan vinkonu mína í nýjum, fokdýrum, háhæluðum tískuskóm, á stuttum kjól, máluð, púðruð og varalituð. Samt var hún sannfærð um að ég sæi á einhvern hátt ástæðu til að dæma hana fyrir það að vilja komast fljótt aftur í form eftir fæðinguna.

Það er nefnilega furðulega grunnt á hugmyndinni um feita, loðna mussutussufemínistann sem vill endilega að allir hinir séu þannig líka. Við vorum rækilega minnt á það þegar rithöfundur og verðandi þáttastjórnandi hissaðist á því að kona, sem gerði tilraun til að hvetja fjölmiðla til að víkka aðeins út sjóndeildarhringinn, og bæta úr annars einsleitri dagskrá, væri varalituð. Því miður varð það smáatriði að stóra atriðinu í öllu því máli. Það má segja að varalitað hafi verið yfir tilraun til að ræða hlutverk fjölmiðla og ábyrgð þeirra á því hvað þeir bera á borð fyrir fólk.

Þó að konur sem berjast fyrir femínisma hafi árum saman verið kvenlegar og noti bæði snyrtivörur og skartgripi er eins og það hverfi, gufi upp, þegar þær hefja upp raust sína. Það er eins og viðmælendur sjái eitthvað allt annað en það sem fyrir augu ber. Getur verið að þessi ímynd sé svo rótgróin að vonlaust mál sé að losna undan henni?

Að verða femínisti er í fyrsta lagi ekki það sama og að ganga í sértrúarsöfnuð og fylgja ákveðnum bókstaf upp frá því. Að verða femínisti er að verða meðvitaður um að samfélagið er njörvað niður í kerfi sem byggist að miklu leyti á hefðum sem maður telur úreltar og tími til kominn að hnika til.

Breytingarnar verða oftast þannig að hægt og rólega á sér stað viðhorfsbreyting í samfélaginu, æ fleiri fara að tileinka sér nýjan hugsunarhátt. Svo verður kannski einhvers konar harkalegra slit, rof, til dæmis þegar breyta skal lögum í samræmi við ný viðhorf. Hér má nefna lög um fóstureyðingar, lög gegn heimilisofbeldi eða lög um réttindi samkynhneigðra. Þessu rofi fylgja iðulega læti og hamagangur, því ekki hafa allir breyst, það finnast alltaf einhverjir sem eru tilbúnir til að verja gömlu gildin og hefðirnar. Við megum ekki gleyma því að margt sem okkur þykir svo sjálfsagt í dag hefur kannski áður verið tabú, annað hvort þótt óviðurkvæmilegt eða bara hreinn óþarfi að ræða nokkuð. Við sem reynum að velta femínisma fyrir okkur í rituðu máli erum einmitt oft gagnrýnd fyrir að vera að sóa tíma okkar, að það séu mikilvægari vandamál sem þurfi að taka á, ef okkur er ekki sagt hreint út að finna okkur eitthvað að gera, við hljótum að hafa of mikinn tíma á okkar könnu.

En við trúum því að við séum að gera eitthvað gagn með þessu. Mér finnst í það minnsta nauðsynlegt að íhuga þessi mál öll sömul, allt sem viðkemur sölumennsku og miklum gróða þarf að vera opinskátt gagnrýnt og vera stöðugt undir smásjá, svo það breytist ekki í skrímsli sem étur okkur öll. Við skulum til dæmis átta okkur á því að einn stærsti snyrtivöruframleiðandi Frakka, L’Oréal, er í raun einn af aðaleigendum í því sem mætti kalla hlutafélagið Sarkozy, en Sarkozy er forseti Frakklands.

Mín barátta felst ekki í því að fólk eigi ekki að hugsa um útlitið, heilsuna, vellíðan sína. Heldur þvert á móti vil ég að fólki líði sem best, vegna þess að ég held að með því muni fyrr nást friður og sátt á þessari jörð. Mín barátta snýst um að við gerum okkur grein fyrir því að við erum ekki dúkkur, steyptar í eitt mót, heldur erum við alla vega í laginu og að það er hið besta mál. Mín barátta er aldrei gegn persónum, heldur gegn kerfi, kerfi sem ég tel geta batnað.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s