Hausatalningar, kynjahlutverk og menningin

Höfundur: Yrsa Þöll Gylfadóttir

Það eru engar fréttir að konur eru mjög oft hunsaðar í sögubókunum og í fréttunum (eins og Hildur Lilliendahl hefur m.a. bent á með myndrænum hætti hér og hér)og sömuleiðis í menningu okkar og listum: bíómyndum, sjónvarpsþáttum, bókum og öðrum listformum. Þær eru einkum og sér í lagi hunsaðar sem viðmælendur og sem afmarkaðar sjálfsverur (subject), en fá stöku sinnum umfjöllun, þá sem heildrænt viðfangsefni (object), þ.e. sem málsvarar eða fulltrúar kyns síns. Karlmenn eiga þannig heiminn, söguna og menninguna, og þeirra list- og menningarafurðir eru ekki sérmerktar kyni þeirra, þar sem þeir eru núllpunkturinn. Kvenmenn, aftur á móti, eru hitt kynið, viðaukinn eða frávikið, og hvað það sem þeim viðkemur þykir því réttast að merkja með forskeytinu „kvenna“ – kvennalist, kvennamenning, kvennabókmenntir – og lesa má á milli línanna þá yfirlætislegu hugmynd að heimur kvenna og „allt sem viðkomi konum“ (eins og í ónefndum nýjum sjónvarpsþætti), sé þar hentuglega samansafnað, þjappað og vakúmpakkað.

Hóran og gyðjan

Þegar konum bregður fyrir í skáldsögu, mynd eða sjónvarpsþætti, segjum bara í sögu almennt, eru hlutverk þeirra nánast alltaf háð fyrirsjáanlegum takmörkunum. Hlutverkin eru oftar en ekki klisjukennd staðalmyndahlutverk á borð við dýrlinginn (meyjuna/gyðjuna), hóruna, móðurina, vönunarkvendið, fórnarlambið og ljóskuna.

Nýlega gekk um netið stikla fyrir heimildamynd sem nefnist Miss Representation og er um einmitt þetta – rangfærslur og skekkta mynd af konum í (bandarískri) menningu og miðlum. Stiklan vakti mikla athygli, ekki síst vegna þess hversu miklum áhrifum hún náði á fáeinum mínútum, eflaust þökk sé samansafni sorglegra birtingarmynda af konum sem brugðið er þar upp.

Í gær horfði ég á epík Sergio Leones, Once Upon a Time in America, en birtingarmyndirnar þar eru skólabókardæmi um kvenklisjur. Myndin er 4 klukkustundir og í henni er þrenning kvenna – ein selur líkama sinn allt frá unga aldri, önnur er fórnarlamb nauðgunar og enn önnur er hrein og ósnertanleg fegurðargyðja. Þegar líður á myndina er reyndar hinni hreinu og ósnertanlegu gyðju að lokum einnig nauðgað. Í annarri mynd eftir Leone, hinni sígildu Once Upon a Time in the West, er þó sterk og vel sköpuð kvenpersóna í lykilhlutverki, og sem vestri er myndin einmitt sér á parti hvað þetta varðar. Engu að síður þykir markaðsöflunum ástæða til að smætta kvenpersónuna niður í klisju á auglýsingaplakati fyrir myndina, en þar segir: „There were three men in her life. One to take her (sem sagt taka hana með valdi) – one to love her – and one to kill her“.

En hvernig ætli ákvörðun sé tekin um að hunsa konur eða birta þær á svona einsleitan hátt í menningu okkar? Er hún meðvituð eða ómeðvituð? Eru konur virkilega svona óáhugaverðar eða eru þær svo óskiljanlegar að karlkyns listskaparar (sem á heimsvísu eru jú í ótvíræðum meirihluta) kunna ekki að setja hana á svið? – eins og í Seinfeld þættinum þar sem Jerry og George eiga að skrifa grínþátt og ákveða að hafa enga kvenpersónu í þættinum, þar sem þeir segjast ekki „kunna að skrifa fyrir konu“. „Hvað segja konur?“ spyr George, rétt eins og karlar og konur tali yfir höfuð ekki sama tungumál.

Mislæsi menningar

En hvað segja konur – um þetta? Hver er upplifun og viðbrögð þeirra af þeirri menningu sem þær birtast í með svo afkáralegum hætti? Konur á facebook brugðust sterklega við Miss Representation stiklunni, ef marka má facebook deilingar, svo ljóst er að þetta mál snertir margar okkar. En hvernig ætli konur takist á við þessa skekkju í sínu daglega lífi án þess að verða hreinlega yfirbugaðar og tálsviptar? Jafnvel meðvitaðir femínistar sem standa oft vaktina og taka ófáa slagi sitja oft eins og þægar stúlkur í gegnum heilu myndirnar, þættina og bækurnar og ýmist taka ekki eftir því að ekki er ein einasta kona í henni eða hún klisjulega framsett, eða tína til röksemdir fyrir því að svo sé (t.d. að svona sé bara akkúrat þessi tiltekna mynd – og trúa því jafnvel að þetta tiltekna viðfangsefni myndarinnar sé bara einfaldlega karllægt – eins og vestrar, mafíumyndir, löggu- og bófamyndir…) eða þá að þeim tekst að þagga pent niður í gagnrýnisröddinni og samfélagsrýninum í sér, fullnægja í staðinn afþreyingarþörfinni og finna eitthvað skemmtilegt, fyndið, hrífandi, stílhreint, djúpt, sorglegt, tilfinningaþrungið, o.s.frv. við myndina þrátt fyrir að…

En í raun er þetta ekki alltaf spurning um að vera vakandi eða ekki vakandi fyrir ójafnrétti og rangfærslum, þetta er að mínu mati flóknara. Konur hljóta hreinlega að lesa menningu á annan hátt en karlmenn og nálgast hana meira eins og annan heim, annað sólkerfi yfir höfuð en það sem þær lifa í. Sýnileiki kvenna í menningunni er svo lítill og svo afstæður og sýnileiki karlmanna svo mikill og fjölbreyttur að fyrir konur að horfa á eða lesa „raunsæja“ sögu getur verið þeim jafn framandi og ef sagan væri vísindaskáldskapur um líf á annarri plánetu. Þegar kona horfir á bíómynd og sér engar konur í henni, eða allavega engar konur sem líkjast henni eða vinkonum hennar, systrum, mæðrum, frænkum, o.s.frv., þá lærir hún fljótt að skilja að þessa tvo heima – sinn heim og heim myndarinnar – og viðhalda ákveðinni fjarlægð frá því sem í myndinni birtist eða birtist ekki – horfa en um leið horfa framhjá, því það er lýjandi og dapurlegt að horfast of mikið í augu við stöðu mála.

Hins vegar er nauðsynlegt að horfast í augu við þetta vandamál, bregðast við því, berjast gegn því og hafa það hugfast öllum stundum að birtingarmyndir kynjanna eru fyrirmyndir (ungs) fólks og hegðun þess litast af menningunni. Ef fólk tekur sig saman og leggur á sig að njóta ekki afþreyingarefnis án þess að vera þó samtímis vakandi fyrir kynjuðum rangfærslum og skekkjum verður kannski hægt þegar til lengra tíma er litið að slappa bara af og njóta.

Jafnréttisráðunautar

Miss Representation boðar á óyggjandi hátt að eitthvað verður að breytast í samfélagi okkar svo við höldum ekki áfram að senda ungum stúlkum þau skilaboð að hlutverk þeirra í lífinu sé að vera umfram allt þægar og undirgefnar, sætar og sexí. En þetta vitum við vel. Það óskar enginn dætrum sínum slíkra örlaga, en samt virðist lítið breytast. Það er ekki nóg að segjast ætla að breyta stöðu mála, fá skammlíft bjartsýnisblik í auga og hlýjan hópeflissting í hjartað og snúa sér svo að hverju því sem við vorum að gera áður. Ég tel að raunveruleg vitundarvakning verði aðeins ef menningarmiðlurum (rithöfundum, handritshöfundum, o.s.frv.) er gert ljóst, með konkret og kerfisbundnum hætti, að þeir bera ábyrgð, og að hver listræn ákvörðun, hver ákvörðun um efnistök og framsetningu skuli tekin með hliðsjón af spurningum um birtingarmyndir kynjanna og þau skilaboð sem þær senda. Það þyrfti að ráðast af fullum krafti í að innprenta íslenskum menningarmiðlurum þessa ábyrgu hvöt og krítíska viðbragð. En hvernig? Með hvaða hætti? Það væri næstum óskandi að stofnað væri starf svokallaðs jafnréttisráðunautar á alla helstu miðla og forlög. Slíkur ráðunautur væri að sjálfsögðu enginn fasískur rétttrúnaðar-ritskoðandi, heldur myndi hann eingöngu gegna hlutverki „jafnréttissamvisku“, höfða til fólks að hugsa út í þessi málefni ef þeim láðist að gera það af sjálfsdáðum. Ef til vill gæti það borið árangur. Þrátt fyrir að við getum varla haft áhrif á menningarmaskínu annarra þjóða (tala nú ekki um stórþjóða á borð við Bandaríkin), þá getum við þó verið sáttari við okkur. Eða eins og Michael Jackson heitinn sagði: I’m starting with the man in the mirror…

P.S. Læk á þennan pistil er ábyrg skuldbinding, ekki yfirborðsleg sjálfsmyndarspeglun í netheimum.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.