Sean Penn kaupir ekki stúlkur

Höfundur: Sigríður Guðmarsdóttir

Undanfarna daga hefur ljósmynd af Sean Penn með skilti farið um netheima. Á skiltinu stendur „Real men don´t buy girls“ sem útleggst að alvöru karlmenn kaupi sér ekki stúlkur. Myndin er hluti af stórri herferð ofurparsins Ashton Kutcher og Demi Moore gegn mansali. Auk Sean hafa Justin Timberlake, Jamie Foxx og fleiri amerísk kyntröll látið taka af sér myndir með sama texta. Það er áhugavert að skoða uppröðun myndarinnar með kynjagleraugum. Skiltið sjálft er hvítt, textinn allur rauður nema orðið „Men“ er ritað bláum stöfum. Sean er klæddur köflóttri skyrtu og bak við hann á myndinni er síðan viðarklædd innrétting, nokkuð fornfáleg, sveitaleg jafnvel, með mörgum bókum og gömlu sjónvarpi. Það er eins og allt við myndina undirstriki karlmannlegan heimilisbrag, gömul góð gildi og boðskap í fánalitunum. Herferðin öll undirstrikar allt það góða og lofsverða sem alvöru karlmenn gera, þeir eru þjóðhollir, þvo sinn eigin þvott og gera margt fleira frábært og karlmannlegt. Og þeir kaupa ekki stelpur.

Hvað er alvörukarlmennska?

Mér finnst eitthvað að þessari hugmynd um alvöru karlmenn sem eru svo æsandi að þeir þurfa ekki að kaupa dráttinn. Ég held að hugmyndin um alvöru karlmennsku og alvöru kvenmennsku sé afsprengi feðraveldisins. Og mér finnst ekkert sérstaklega byltingarkennt að segja „alvöru karlmönnum“ að gera eitt í dag eða annað á morgun. Mér finnst meira um vert að velta fyrir okkur þeim byrðum sem feðraveldið leggur á karla og konur með þessu „alvöru“ tali. Má alvörukarlmaður kaupa konur ef hann lætur stelpurnar vera? Má hann kaupa stráka, eða er gert ráð fyrir að alvörukarlmaðurinn sé gagnkynhneigður? Inn í hvaða þjóðleg gildi þarf alvörukarlmaðurinn að falla til að fá að vera alvörukarlmaðurinn? Og er það ekki áhugaverð spurning að velta fyrir sér tengslum mansals og alvörukarlmennsku?

Ég minnist eins vinar míns í Bandaríkjunum sem átti í miklum erfiðleikum í ástarsamböndum sínum. Sálfræðingurinn hans ráðlagði honum að finna sér góða vændiskonu. Vinur minn ákvað að fara ekki að ráðum sálfræðingsins síns. Hann vildi að sú sem hann svæfi hjá elskaði sig og virti og því hélt hann áfram að bögglast við að leita sér að sálufélaga með misjöfnum árangri. Sjálfstraust hans var í algjörum molum. Vinur minn hefði ekki þurft kyntákn á köflóttri skyrtu til að segja sér að hann væri ekki háttskrifaður sem karlmaður af því að hann hafði lítinn séns.

Ég þykist vita að mansalsherferð þeirra Demi og Ashtons gangi út á það að reyna að trufla hin táknrænu tengsl á milli valds og vændis, að það sé ekki smart að kaupa stúlkur. En sagan af vini mínum er sett fram hér, ekki vegna þess að ég þrái það sérstaklega að vorkenna vændiskaupendum, heldur vegna þess að ég held að við skyldum varast það að setja alla „vændismenn“ (svo notað sé hið ágæta orð Guðmundar Andra Thorssonar), undir sama hatt eða alhæfa um það hvers vegna þeir leiddust út í vændiskaup.

Skoðum vændið

Ég er ánægð með það sem Stóra systir er að gera með að skera upp herör gegn vændiskaupendum. Ég er ánægð með það að einhverjir skuli taka það alvarlega í samfélaginu að bannað er samkvæmt lögum að falast eftir vændi eða vera dólgur fyrir annan. Ég er ánægð með að einhverjir skuli ganga fram og reyna að hreinsa leyndina og mýstíkina af þessum iðnaði. Ég er ánægð með að bent sé á tengsl eiturlyfja og vændis, svo og mansals og vændis.

Og jafnframt tel ég mikilvægt að þessi umræða fari fram á a.m.k. tveimur plönum. Það þarf að banna og berjast gegn, en það þarf líka að greina og skilja, gera rannsóknir og safna upplýsingum og skoða vændið í tengslum við kyngervisumræðuna um alvöru karlmenn og kvenmenn. Í vændisumræðu og kynverundarþekkingu þarf eitt ekki að útiloka annað. Okkur vantar fleiri upplýsingar um vændi á Íslandi.

Þess vegna er það hið fínasta mál að Sean Penn þurfi ekki að kaupa sér stelpur, en boðskapur hans kallar líka á nýjar spurningar um söluvörur, kyngervi og líkama.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.