Vændi, siðferði og lauslæti

Höfundur: Eyja M. Brynjarsdóttir

Siðferði er það sem við köllum staðla, reglur eða viðmið um þá hegðun sem viðeigandi eða rétt getur talist. Stundum greinir okkur á um nákvæmlega hverjir þessir staðlar eigi að vera en oftar en ekki erum við nokkuð sammála, svona þegar á heildina er litið. Flest erum við til dæmis sammála um að rangt sé að misþyrma börnum, sem við getum líka orðað sem svo að slíkt brjóti í bága við siðferðið, eða að það sé siðferðilega rangt. Ýmsa greinir svo á um rætur siðferðisins og eðli þess, hvort siðferðið sé algilt, hvaðan það kemur og svo framvegis, og mér dettur ekki í hug að fara nánar út í það hér enda kemur það ekki þessu máli við. Það sem skiptir máli er að hugtakið ‚siðferði‘ er haft yfir eitthvað sem skiptir okkur öll ákaflega miklu máli; án siðferðis er ekkert samfélag.

Siðferði eða siðavendni?

Að þessu sögðu finnst mér það afskaplega undarlegt þegar orðið ‚siðferði‘ er látið einskorðast við tepruskap í sambandi við kynlíf eða stífar hugmyndir um að fólk skuli halda fjölda rekkjunauta í lágmarki. Þetta kemur gjarnan upp í umræðum um réttmæti vændis; þá fer fólk stundum að velta vöngum yfir því hvort vændi hafi eitthvað með siðferði að gera, eða eitthvað álíka. Ég hefði haldið að það væri augljóst að þegar réttmæti einhvers er rætt þá hljóti siðferði að koma við sögu. Þeir sem telja að kaup á vændi skuli vera refsiverð hljóta að gera það á þeim forsendum að slík kaup séu siðferðilega röng og hinir sem vilja að þau séu lögleg telja þá væntanlega að kaupin séu ekki siðferðilega röng. Þetta gildir iðulega um lagasetningar; við höfum lög sem gera morð refsiverð vegna þess að við (eða flest okkar alla vega) teljum það siðferðilega rangt að fremja morð. Og þegar fólk gagnrýnir það að eitthvað sé refsivert þá er það á þeim forsendum að viðkomandi athöfn sé ekki siðferðilega röng.

Sem sagt tel ég það augljóst að umræða um réttmæti vændis hljóti alltaf að vera umræða um siðferði. Hvort lauslæti hafi eitthvað með siðferði að gera finnst mér hins vegar síður en svo augljóst. Sjálfsagt getur það gert það í einhverjum tilfellum, þá á ég við það að lauslæti geti verið siðferðilega vafasamt í einhverjum tilvikum þegar það veldur einhverjum særindum eða skaða. Sé ekki um neitt slíkt að ræða hefur kynhegðun fúsra og fullorðinna einstaklinga tæpast nokkuð með siðferði að gera, en á hinn bóginn hlýtur það þá að vera siðferðilega rangt fyrir utanaðkomandi að ætla að skipta sér af henni, hvað þá setja á hana höft eða hömlur.

Lauslæti

Það er nákvæmlega hér sem þarf að staldra við í umræðu um réttmæti vændiskaupa. Því er gjarnan haldið fram af þeim sem ekki vilja að vændiskaup séu refsiverð, að það að setja sig upp á móti vændiskaupum feli í sér að vilja skerðingu á kynfrelsi vændiskvennanna og að andstæðingar vændis (= femínistar af verstu sort?) vilji setja höft og hömlur á kynhegðun fúsra og fullorðinna einstaklinga. Þessi ásökun smellpassar við hugmyndina um ljótu og loðnu femínistana sem aldrei fá … þið vitið. Hvort vandamálið er að við séum kynkaldar eða að við fáum okkar (miklu?) kynferðislegu fýsnum ekki fullnægt vegna þess hve ljótar við erum hef ég aldrei almennilega fengið á hreint. En alla vega þá er hugmyndin, sem þið hljótið öll að kannast við, sú að femínistar, eða alla vega svona vondir femínistar eins og þeir sem vilja að vændiskaup séu refsiverð, eru víst einhverra hluta vegna á móti því að fólk stundi kynlíf.

Ásökunin um kynlífshatandi femínistana er svo óspart notuð til að drepa umræðu á dreif. Í stað þess að ræða vændi sem slíkt og hvað það er sem skiptir máli þegar meta skal réttmæti þess leiðist fólk út í að fara að tala um það hvort femínistar séu sexí eða ekki og hvort þeir séu almennt á móti kynlífi. Þetta eru hlutir sem koma málinu nákvæmlega ekkert við. Satt að segja á ég erfitt með að trúa því að þarna sé um einhvern einlægan misskilning að ræða heldur grunar mig að frekar sé á ferðinni vísivitandi áróðursbragð. Fyrir mitt leyti þá hafna ég því að leyfa einhverjum áróðursmeisturum að stýra umræðunni. Ef ég ræði einhvers staðar skoðanir mínar á vændi og vændiskaupum þá mun ég harðneita að ræða hluti eins og það hvort ég sé almennt á móti kynlífi og enn síður mun ég vera til viðræðu um það hvenær ég hafi fengið það síðast eða hvort ég sé þjökuð af komplexum yfir útliti mínu. Allar ásakanir um tepruskap eða slíkt mun ég túlka sem tilraunir til að afvegaleiða umræðuna.

Vændi og feðraveldið

Sú tenging sem ég fæ séð að gildi milli vændis og lauslætis er þessi: Óheftur aðgangur að kynferðislegri þjónustu kvenna og fordæming á lauslæti þeirra haldast í hendur í feðraveldinu. Hvort tveggja snýst um að stjórna kynhegðun kvenna; frelsi kvenna til að njóta kynlífs er ekki inni í myndinni heldur er hlutverk konunnar að þjóna kynferðislegum nautnum karlsins. Það er einmitt vegna þess að lauslæti kvenna er fordæmt sem karlar finna til valds síns þegar þeir geta með fjármunum (sem eru jú valdatæki) fengið konur til að lítillækka sig með því að framkvæma hið forboðna. Vændi er eins fjarri því að vera iðkun kynfrelsis og hugsast getur. Í vændi undirgengst konan (oftast kona já, þótt vissulega séu líka til karlar sem stunda vændi) öll þau höft sem feðraveldið setur á kynfrelsi hennar. Og fordæming á lauslæti er líka hluti af þeim skorðum sem feðraveldið setur kynfrelsi kvenna, enda hefur lauslæti kvenna löngum verið dæmt mun harðar en lauslæti karla. Það að líkja baráttu gegn vændiskaupum við einhvers konar baráttu gegn lauslæti kemur því úr hörðustu átt og er ekki svara vert.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.