Þrír vondir pistlar og eitt gleymt vandamál

DV, 20. apríl 1999.

Höfundur: Þorsteinn Vilhjálmsson

Enn annað íslenskt fjölmiðlastríð er hafið út af femínisma: Davíð Þór vs. María Lilja vs. Davíð Þór aftur. Þetta er gömul saga og ný. Ástæður þessa eru líka þær sömu og venjulega: illa ígrunduð og illa rökstudd skrif. Til að reyna að koma í veg fyrir enn eina hringekjuferðina, sem dregur femínista og andstæðinga hans jafnt enn lengra ofan í svaðið, ætla ég að líta aðeins á skrifin og sjá hvar þau falla um sig. Ég bið lesendur um að lesa ofanálinkaða pistla meðfram þessum, því ég vil helst ekki kópera þá heila og hálfa hingað inn – nógu langt er þetta fyrir.

Fyrsti pistill Davíðs

Í fyrstu málgrein grípur Davíð til líkingar vændis við fíkniefnaneyslu. Þessi samlíking er léleg, því a.m.k. hér á Íslandi þá er, eftir því sem ég held, afar lítilvægur glæpur að kaupa sér neysluskammta af fíkniefni – hinsvegar er alvarlegur glæpur að selja. Þessu er einmitt öfugt farið hvað vændi varðar í nýrri íslenskri löggjöf – vændiskonunni er ekki refsað, heldur vændiskaupandanum; sem er alveg rétt, að mínu mati. Vændiskonan á sér að öllum líkindum hryllilegar félagslegar aðstæður að baki sem verða ekki bættar með því að kasta henni í fangelsi. Það er hinsvegar kaupandinn sem ætlaði að nýta sér neyð konu, og er því sekur um siðferðisbrest, og það er það sem lögin eiga að standa vörð um: siðferði.

Íhaldsmenn eru hinsvegar mikið fyrir að hafa þetta eins með eiturlyfin og vændið, þ.e.a.s. að refsa vændiskonunni fyrir að selja, enda sjá þeir ekki að hún sé í neyð heldur telja hana einhverskonar illan tælanda. Þetta finnst mér ólíklegt. Svo er frjálshyggjusjónarmiðið, að bæði eiturlyf og vændi eigi að vera lögleg, bæði að kaup og sölu. Því er ég heldur ekki sammála, þó ég sé nær því. Afstöðu Davíðs í þessu er erfitt að koma auga á, hinsvegar: nokkuð sem María mun seinna nýta sér.

Í annarri málsgrein birtist ákveðin málfræðileg flétta sem felur í sér „conceptual leap“. Davíð byrjar í viðtengingarhætti: „Þráist lögreglan við …“, tekur sumsé hýpótetískt dæmi, en lætur svo aðalsetninguna vera í framsöguhætti: „… verður rekið upp ramakvein …“ – þrátt fyrir að skilyrðið hafi verið óraunverulegt þá lætur hann afleiðinguna vera staðreynd. Þetta er cheap. Ég veit ekki hvað Davíð er að vísa í en ég efast um að það sé íslenskt dæmi, eða að það komi málinu við.

Í þriðju málsgrein byggir Davíð rökleiðslu sína á því að mistúlka gjörðir Stóru systur. Hann segir: „Enginn, held ég, vill búa í landi þar sem fólk er dæmt fyrir glæpi sem það hefur ekki framið heldur aðeins látið í ljós áhuga á að fremja eftir að hafa verið hvatt til þess …“ Þetta er ekki rétt lýsing, því Stóra systir hvatti alls ekki til vændiskaupa – þær biðu eftir að karlmenn höfðu samband við sig og gáfu þeim síðan allar ástæður fyrir að hætta við: sögðust vera undir lögaldri, settu upp verð – og karlmennirnir samþykktu. Þeir fengu öll tækifæri til að snúa við. Þeir voru ekki gabbaðir. Þeir vildu kaupa sér vændi frá ungum stúlkum. Sýndu af sér það sem ég held að kallist einbeittur brotavilji.

Davíð endar svo á annarri fullyrðingu sem hann setur í samhengi við þá hér að ofan, sem er galli, því hún tengist henni alls ekki: „Ef brotið er ekki framið er óverjandi að refsa fyrir það, ekki síst ef brotaviljinn er aðeins látinn í ljós sem viðbragð við hvatningu til lögbrots.“ Seinni part þessa hef ég þegar talað um. Hið fyrra – um óframda glæpi, hvort hægt sé að refsa bara fyrir tilætlun – því svarar María ágætlega með dæminu um tilraun til manndráps. Stundum er nefnilega refsað fyrir tilætlan. Hvort það eigi að gera svo í þessu tilfelli hér á Íslandi veit ég ekki, en allavega get ég ekki séð að það sé rangt að benda lögreglunni á þessar tilraunir til vændiskaupa og spyrja hvort það eigi ekki að gera eitthvað í þessu.

Í fjórðu málsgrein kemur klisjan um elstu atvinnugreinina, sem Davíð fleygir þó fram með fyrirvara. Hver sá sem heldur þessu fram (þ.e. ekki Davíð!) gerir það af því að það er klisja, ekki út af því að viðkomandi hefur hugsað málið. Hver sá sem svo gerir kemst strax að því hversu fáránleg klisjan er. Heldur fólk virkilega að vændi hafi komið á undan einmitt ljósmæðrun, saumun fata eða fæðuöflun? Þessa klisju þarf að grafa. Ekki því hún er andfemínísk. Hún er bara nautheimskuleg. Það segir okkur því ekkert um að neyð kvenna eigi sér langa sögu, eins og Davíð segir, þó það sé rétt að saga þessa sé löng. Lokasetningar málsgreinarinnar eru hinsvegar sannar og réttar: „En vændi verður aldrei upprætt með öllu. Með því að útrýma neyðinni, valdaleysinu og kúguninni sem rekur langflestar konur út í vændi hyrfi það þó vafalaust næstum því alveg. Næstum því.“

Í seinustu málsgrein er ekkert við að athuga nema síðasta setningin. Og hún er það eina sem virkilega gefur eitthvað til að ræða um í pistli Davíðs. Hún hljómar svo: „En [sjálfsákvörðunarrétti kvenna yfir eigin líkama] fylgir líka réttur þeirra til að ráðstafa honum samkvæmt sínu eigin siðferði, ekki siðferði sjálfskipaðrar stóru systur þeirra.“

Þetta kemur eins og þruma úr heiðskíru lofti og virðist ekki í neinum tengslum við restina af pistlinum. Og þar þurfum við að stoppa við. Þetta verður erfiðlega skilið nema sem svo að það sé partur af kvenréttindum að fá að selja líkama sinn karlmönnum. Og það að berjast gegn því að konur selji líkama sinn sé eins konar ofbeldi og nauðung frá ókjörnu yfirvaldi – kúgun kvenna. Þetta er furðulegt því Davíð er nýbúinn að tala um að það verði að berjast gegn vændi, en þarna hefur hann skilyrt þá baráttu gríðarlega: hún á greinilega að vera eingöngu gegn „neyðinni, valdaleysinu og kúguninni“, en á alls ekki að hindra konur í að selja sig per se. Það sé ofríki.

En eins og Davíð segir sjálfur: þetta þrennt, neyð, valdaleysi og kúgun, er það sem leiðir langflestar konur út í vændi. Og við erum ekki að tala um nauman meirihluta heldur algjörlega yfirgnæfandi meirihluta. Davíð virðist því vera að stinga upp á því að það verði að skilyrða gríðarlega baráttuna gegn vændi, sem kemur miklum meirihluta til gagns, til að verja réttindi örsmás minnihluta sem uppfyllir staðalímynd hinnar hamingjusömu hóru. Ég ætla að orða þetta svo að hann virðist telja það rétt að láta hina raunverulegu eymd grassera áfram til að halda hlífiskildi yfir ýktri glansmynd sem er varla hægt að segja að sé til. Þetta er sjónarmið sem ég hef séð áður, út um allt, og mér finnst rangt og algjörlega málefnalegrar gagnrýni vert. En svona lendir Davíð því miður í einu sem er vissulega ósanngjarnt að hann lendi í: hann er spyrtur saman við ákveðinn hóp í íslenskri umræðu sem heldur því sama fram á þó nokkuð ofsafengnara máli en hann, og allt sem þeir segja er þar með hermt upp á Davíð forspurðan.

Svarpistill Maríu

Þaðan kemur svo, að því er virðist, pistill Maríu. Hann er fullur af biturð femínistans út í ofsafengna rembulega „gagnrýnina“ sem hann uppsker stöðugt, yfirleitt með hrottalegum meiðyrðum inniföldum, og inniheldur í samræmi við það margar rangfærslur. Ég skal telja þær upp einnig.

María byrjar á að gagnrýna Davíð fyrir að hafa ritstýrt Bleiku og bláu, sem má efast um hvort sé málefnalegt eða ekki. Hún segir einnig skoðun sína á því blaði, sem er henni að sálfsögðu frjálst. Hún segir: „Í pistli þínum rekur þú upp harmavein til bjargar aumingjans ”fórnarlömbum” þessara illu systra …“ Þetta er ekki rétt. Það gerir Davíð hvergi. Hann fær síðan á sig eilítið ósanngjarnar retórískar spurningar í fjórðu málsgrein. María gerir honum upp þá skoðun að hann telji klisjuna um elstu atvinnugreinina rétta – hann setur í raun fyrirvara við þá klisju. María heldur því ranglega fram að þrælahald hafi verið upprætt – kannski lagalega á Vesturlöndum, en það er engan veginn de facto hér né er það yfirleitt lagalega orðið svo í Afríku og Asíu. María spyr svo aftur retórískrar spurningar (með klisjukennda og ofnotaða orðtækinu „fljóta sofandi að feigðarósi“) um hvort hamingjusömu hórurnar réttlæti hinn annars hræðilega vændisiðnað – sem er réttlát spurning – og bætir við einhverju um verndun vændiskaupenda, sem er ósanngjarnt. Davíð minntist ekkert á slíkt í pistli sínum.

Og eins og yfirleitt í reiðum netskrifum endar þetta á að sjóða upp úr í seinustu málsgrein. Davíð er þar sakaður um brenglað viðhorf til kvenna og kynlífs. Það er gjörsamlega óverðskuldað. Þar er tjáð sú skoðun að vændi stafi eingöngu af brengluðu viðhorfi karla. Það er, held ég, ekki rétt, og með það að leiðarljósi verður aldrei neitt gert í vændisvandanum. Það er miklu meira verkefni að ráðast á óskilgreinda brenglun hjá karlkyninu í heild sinni en að lyfta vændiskonum úr neyð. Þarna hefur greinilega ekki mikil hugsun verið lögð í málið. Um lögmálið um framboð og eftirspurn má margt gott segja, en málið er flóknara en svo að það sé hægt að útrýma annaðhvort framboðinu eða eftirspurninni – það er ekki séns.

Niðurstaðan er sumsé þessi: báðir pistlarnir eru slæmir. Þeir eru stuttir, fúlir, illa ígrundaðir, illa skrifaðir og algjörlega týpískir fyrir íslenska netumræðu. Þeir vekja ákveðna stundarhrifningu í maganum á fólki sem þegar er búið að skipa sig í þá skotgröf sem pistlarnir eru skrifaðir úr: það er allt sem þeir gera. Meiri áhrif hafa þeir ekki.

Svar við bréfi Maríu

Það er að segja: ekkert nýtt. En! Nú kemur nýtt tvist sem gerir þetta smámál að stórmáli á hinni endalausu íslensku gúrkutíð: Davíð tekur upp siði Jóns Ásgeirs, Pálma Haraldssonar og Guðlaugs Þórs Þórðarssonar, og hótar lögsókn í enn öðrum lélegum pistli. Ég ætla að leyfa mér að halda áfram yfir í hann.

Nokkrir hlutir í pistli Maríu gætu hugsanlega talist sem lélegt en kannski mögulegt dæmi um meiðyrði. En hvað gerist? Davíð vísar í lagatexta og dóma sem hafa fallið til að sanna það að Bleikt og blátt, sem Davíð ritstýrði, sé ekki klámblað. Hann sakar Maríu svo um meiðyrði fyrir að hafa kallað það klámblað, og vitnar í lagatexta sem drynur dóm yfir henni með þessum málmrómi sem einkennir svo lagatexta: „fangelsi allt að 1 ári“! Já, það skal hún uppskera!

Hér verð ég að ákalla Davíð beint, (þótt ég vilji ekki fylgja þessari tísku að skrifa í stað venjulegrar bloggfærslu í 3. persónu endalaus „opin bréf“ tileinkuð fólki sem þau aldrei les:) Davíð! Blöð eins og Bleikt og blátt kallast á því ágæta tungumáli nútímaíslensku „klámblöð“. Punktur. Íslenskri tungu er alveg sama um hvað lögin segja, enda eru þau ekki mótandi fyrir tungumálið – fólkið í landinu er það. Orðið yfir blöð eins og Bleikt og blátt er „klámblað“ alveg eins og orðið yfir blöð eins og finnur.is er „ruslpóstur“. Það að agnúast við þessu er hlægilegt. Ekkert minna en hlægilegt. Það getur vel verið að Bleikt og blátt hafi ekki uppfyllt lagalegu skilgreininguna á klámi. En það kemur þessu ekkert við. María var ekki að saka þig um neins konar glæp með því að minnast á ritstjórn þína á því blaði: hún var hinsvegar að draga þig í dálka, sem kynni að vera ósanngjarnt. En hér eru engin meiðyrði á ferð.

Aftur í 3. persónu. Á þessu, en ekki á öllu hinu miður svaraverða, byggir restin af pistli Davíðs. Hin raunverulegu „meiðyrði“ – brigsl um kynferðislega brenglun Davíðs (sem hann þó á að deila með mestöllu karlkyninu) koma lítið við sögu. Davíð ímyndar sér svo að María saki hann um stuðning við vændisnauðung, þrælahald og nauðganir – nú erum við komin út í magnaða vænissýki – og lætur flest það sem raunverulega var að pistli Maríu eftir kyrrt liggja. Hann tekur svo upp tilraun til að ræða siðað um framboðs- og eftirspurnarspurninguna sem María bryddaði upp á – og vindur sér svo strax í hörkulega orðaða hótun um málsókn. Um árs fangelsi – fyrir ekkert!

Davíð á afsökunarbeiðni skilda. Um það er ekki spurning. Þá lofaði hann sem betur fer því að láta af öllu málsóknartali. En staðreyndin er sú að ef flest þetta sem Davíð telur að séu meiðyrði væru meiðyrði þá gæti María allt eins kært Davíð fyrir meiðyrði fyrir að hafa haldið því fram að hún hafi framið meiðyrði og úr þessu yrði hin skemmtilegasta málsóknarhringavitleysa. Nei, þetta er gengið of langt. Íslensk umræða hefur hérna einfaldlega brætt úr sér, er komin niður á ákveðinn botn. Þessu þarf að linna. Ég vona að báðir aðilar átti sig á því í tæka tíð, og þeir sem þeim fylgja að máli, að hérna er eitthvað í gangi sem þarf að stöðva. Því vændi – hið raunverulega vandamál þess að konur selji karlmönnum sem þeim er sama um eða óttast aðgang að sér til að lifa af – er nú þegar gleymt í allri vitleysunni. Nú snýst þetta um celeb-málsóknir og bloggstríð meðal pistlahöfunda á lélegum miðlum: eymd er gleymd. Það er næstum eins og einhver vilji hafa þetta svona.

En við bara hljótum að geta gert betur en þetta. Getum við ekki sameinast um það?

~

Eftir að pistill Þorsteins var skrifaður ritaði María Lilja Þrastardóttir svargrein til Davíðs Þórs Jónssonar, sem finna má hér.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.