Tónaður, tanaður og kjötaður í drasl: formáli og ritfregn um mannasiði

Höfundur: Ingólfur Gíslason

I. Langur formáli um feðraveldi 

Ráðakarlar slá á létta strengi

Hvað einkennir samfélag okkar einna helst? Margir myndu taka undir að tvö megineinkenni þess séu stöðug barátta um völd og þráhyggja um að ná stjórn á öllum hliðum tilverunnar. Við lesum og hlustum og horfum á efni sem þykist geta sagt okkur hvernig við náum stjórn á líkömum okkar, samskiptum okkar við aðra, starfsferli, fyrirtækjum, stofnunum og samfélögum. Fólk eyðir mikilli orku í að bæta eða viðhalda félagslegri stöðu sinni og völdum innan samfélagsins og okkur er kennt að við séum í samkeppni við alla aðra um alla skapaða hluti. En menningin er líka karlræði, karlmiðuð og karlmiðjuð (e. male dominance, male identification, male centeredness), svo ég taki hugtök að láni úr bókinni The Gender Knot eftir Allan G. Johnson.

Karlræði þýðir að æðstu valdastöður eru almennt skipaðar körlum: póltitískar stöður, stjórnunarstöður í fyrirtækjum, höfuð trúarhópa, dómarastöður og svo framvegis. Konur í slíkum stöðum eru undantekningar. Karlar hafa hærri tekjur og eiga meiri auð. Þetta þýðir hins vegar ekki að allir menn séu valdamiklir. Flestir þeirra hafa frekar lítil völd og eyða dögum sínum í að gera það sem aðrir segja þeim að gera. Hins vegar breytir það ekki því að það eru yfirleitt karlar sem ráða.

Karlmiðun þýðir að ríkjandi hugmyndir um hvað er gott, æskilegt og eðlilegt eru tengdar karlmennsku. Í orðabókum stendur að karlmennska þýði manndómur, hreysti, dugnaður og hugrekki. (Kvenleiki er hins vegar ekki í orðabókum, en kvenlegur þýðir til dæmis að vera fínlegur eða teprulegur.) Við getum haldið áfram að telja upp karlmannlega eiginleika sem eru í hávegum hafðir í samfélaginu: styrkur, rökvísi, harka, sjálfstjórn. Öðruvísi eiginleikar svo sem samvinnuhæfni, jafnræði, jafnskipting, samlíðan, umhyggja, viðkvæmni, vilji til að gefa eftir og ná samkomulagi hafa ekki sama gildi og eru tengdir konum og kvenleika.

Karlmiðjun þýðir að karlar eru í brennidepli samfélagsins. Dagblöð, fréttir, kvikmyndir, bækur, afþreyingarþættir sýna karla í aðalhlutverki. Hvað eru karlar að gera, hvað eru þeir ekki að gera, og hvað hafa þeir að segja um hvortveggja. Stundum fá konur að fljóta með, yfirleitt til að veita körlunum stuðning eða veita þeim verðug viðfangsefni. Sögur um hetjuskap, siðferðisstyrk, uppljómun sálarinnar og æðri þroska, sögur sem fjalla um glímu manneskjunnar við heiminn, eru undantekningarlítið sögur af körlum.

Ég hef þennan formála til að reyna að gera stutta grein fyrir því hverju hugtakið feðraveldi lýsir: það er menning og kerfi sem byggir á stjórnunarþráhyggju, karlræði, karlmiðun og karlmiðjun. Það byggir á ákveðnum hugmyndum um kyn, manneskjur, karlmennsku, hvernig samfélög eiga að virka, hvaða hlutverk fólk getur leikið og hvernig því á að líða. Það skilgreinir karla og konur sem andstæður þar sem árásargirni, keppnisandi, yfirráð og fleira er talið einkenna karla, en umhyggja, undirgefni óvirkni og fleira teljast eðlislægir eiginleikar kvenna. Í því fást meiri völd og peningar við að sýsla með peninga en að ala upp börn. Hér hef ég einungis nefnt örfá atriði til að gefa tilfinningu fyrir því um hvað þetta skýrandi hugtak snýst. Feðraveldi er nafn á þessari menningu eða samfélagsformi og við lifum öll innan þess og verðum fyrir miklum áhrifum af því. Því er ekki haldið fram að allir eða flestir karlar hafi mikil völd, allir eða flestir karlar hati konur, allir eða flestir karlar vilji viðhalda feðraveldinu, hvað þá að konur hafi einhverskonar eðlislæga yfirburði yfir karlmenn. Lykilatriði er að um er að ræða kerfi og að við getum hugsað um stöðu okkar og tengsl við kerfið. Fókusinn er ekki á einstaklinga, þó að þeir skipti auðvitað máli sem slíkir. Það hvort sumum konum tekst að komast í valdastöður og sumir karlar séu undirokaðir af konum breytir ekki heildarmyndinni. Og þess ber að geta að íslenskir feministar hafa margir kosið að nota ekki orðið feðraveldi heldur kynjakerfi þess í stað, líklega vegna þess að fyrrnefnda orðið gæti ruglað fólk í ríminu, það gæti haldið að þetta snerist eitthvað um völd feðra.

II. Um húmor og vald í verkum Gillzenegger

Karlmennska í verki?

Á dögunum birtist ritrýnda greinin Skaðleg karlmennska? Greining á bókinni Mannasiðir Gillz í veftímaritinu Netlu, eftir Ástu Jóhannsdóttur og Kristínu Önnu Hjálmarsdóttur. Bókin Mannasiðir Gillz var ein söluhæsta íslenska bókin fyrir jólin 2009. Yfirlýst markmið bókarinnar er að búa til fleiri herramenn og fækka „rasshausum“. Í greininni fjalla höfundar um þá karlmennskuhugmynd sem Egill Einarsson (Gillz) heldur á lofti í ljósi kenninga um karlmennsku og valdatengsl í samfélaginu.

Niðurstöður Ástu og Kristínar Önnu eru að karlmennska samkvæmt Gillz einkennist af áherslu á útlit og líkamshirðu (sem hefur löngum talist kvenlegt), en til að vega upp á móti því kemur ofuráhersla á fjölda kynferðislegra sigra, stjórnun líkama og tilfinninga og undirskipunar annarra samfélagshópa (svo sem feitra, fátækra, samkynhneigðra og ekki-hvítra). Innan þessarar karlmennsku er hins vegar ekkert rými fyrir virðingu, ást, umhyggju eða samskipti á jafningjagrundvelli.

Þessar niðurstöður koma mér ekki á óvart þó að ég hafi ekki lesið bók Gillz sjálfur. Það virðist hafa dugað að fylgjast með gegnum slitróttan lestur á blöðum og vefsíðum. Höfundar rökstyðja niðurstöður sínar ítarlega með dæmum úr bókinni sem þeir máta við fræðilegar kenningar. Nefnum nokkur þeirra hérna, og ég vitna í greinina, sem vitnar aftur í bók Gillz:

Sannur karlmaður, samkvæmt Agli, þarf „…að þrífa húðina, lykta vel, plokka augabrýrnar, snyrta neglurnar, vera tónaður, tanaður og kjötaður” (bls. 72). Hann þarf líka að vaxa „… á sér bringuna“ (bls. 71) og fátt er að sögn Egils „… mikilvægara í þessum heimi en að vera með vel rakaðan pung“ (bls. 70). Alvöru karlmenn þekkjast þar með á því að þeir hafa fullkomna stjórn á líkama sínum og útliti hans („Skaðleg karlmennska“, bls. 10).

Egill fjallar víða um hvernig eigi að bera sig að við að ná í konur til að sofa hjá. Í því samhengi bendir hann á þá möguleika sem „… online „kvennabúrin“…“ (bls. 102) á netinu hafi opnað. Þar er markmiðið að koma á samskiptum við hitt kynið og þá er „[h]álfur sigurinn unninn. Búðu svo til tvo dálka á msn-inu. Annar yfir ólokuð verkefni og svo lokuð verkefni“ (bls. 102). Það er greinilega magnið sem skilur alvöru karlmenn frá „rasshausunum“ og ekki er tilvísunin í sölutækniorðfærið – að loka samningum – síður áhugaverð (Nýsköpunarmiðstöð Íslands, e.d.) („Skaðleg karlmennska“, bls. 11)

Egill hefur iðulega verið spurður um meinta kvenfyrirlitningu sína en hann hefur ítrekað neitað slíku og nefnir sem dæmi að hann tali iðulega um konur sem prinsessur. Í bókinni kemur aftur á móti fram að ekki eru allar konur prinsessur heldur flokkar hann konur í tvo flokka: prinsessur eða dömur og kellingar eða drasl.

Ásgeir Kolbeins sagði mér að kellingar séu allar hrikalega horny í þynnkunni. Því er tilvalið að reyna að draga eitthvað drasl yfir. Á sunnudögum viltu ekki fá konu barna þinna yfir, þú vilt fá einhverja sem þarf ekki endilega að vera með 160 í greindarvísitölu (bls. 79).

Prinsessurnar sem eitthvað vit hafa í kollinum og gætu hugsanlega verið eiginkonuefni fá sem sagt betri meðferð en hinar sem eru ekkert merkilegri en rusl. Og fáir bera víst virðingu fyrir rusli. Eins telur hann kellingar upp til hópa auðfengnar og það dugi að „… senda eitt sms og korteri seinna heyrist bílhurð lokast, dyrabjöllu hringt og þú ert kominn með eina bónaða á stofugólfið hjá þér“ (bls. 102). Þessar konur eru samkvæmt Agli með kynlíf á heilanum og alltaf til í tuskið. Sem dæmi eiga þær „… eftir að hrista eina þegar þær sjá þig beran að ofan sveittan við að skipta um dekk“ (bls. 30). Hann virðist hér vísa til þeirrar skoðunar að konur geti einfaldlega ekki hamið sig þegar þær hitta fyrir alvöru karlmenn. Þetta á sérstaklega við þegar „… kellingar hellast vel upp [þá] fara þær að smassa þig og þá þarft þú að standa þig“ (bls. 65). Jafnvel háklassa prinsessur sem eru efniviður í eiginkonur og sæmilega vel gefnar virðast hugsa fyrst og fremst um útlitið:„Konan þín er með jafn mikið keppnisskap núna og áður en þið kynntust og hún þarf að vera í fremstu röð! Þannig átt þú að hrósa henni fyrir nýju skóna, töskuna, varalitinn og sérstaklega nýju gallabuxurnar“ (bls. 21). Þetta er í samræmi við kenningar Söndru Lee Bartky (2003) að undirskipan kvenna sé réttlætt með því að gera lítið úr áhuga þeirra á fötum og útliti þrátt fyrir að útlitskröfurnar séu frá karlmönnum komnar („Skaðleg karlmennska“, bls. 13). 

Dæmi um klámvæðinguna má líka víða finna. Egill telur til dæmis að allir alvöru karlmenn fari einhvern tíma á lífsleiðinni á nektarstaði og að slíkt sé „… nauðsynlegur liður í þroska hvers heimsborgara“ (bls. 54). Það eru bara menn „… með leggöng eins og Steingrímur J. Sigfússon sem eru á móti strippbúllum …“ (bls. 54). Annað lítið dæmi er að finna í kaflanum Hvernig á að haga sér á msn og facebook. Þar talar Egill um að gera þurfi tvo dálka á msn, annan fyrir ólokuð verkefni en hinn fyrir lokuð. Hann kemur svo með dæmi um hefðbundið spjall við prinsessu. Fjórða svar hinnar ímynduðu prinsessu sem Egill ræðir við í fyrsta sinn hljóðar svo: „Já nkl marr þúrt sko GEGT massaður híhí, það væri gegt ekkað að fara í dögy með þér sko híhí“ (bls. 103). Svona til útskýringar er það sem sagt draumur hennar að hafa kynmök eins og hundar við mann sem hún hefur aldrei hitt. Velta má fyrir sér í ljósi orðfæris konunnar hve gömul hún eigi að vera eða hvort konur séu yfirleitt svona einfaldar og barnalegar í huga höfundar? Í það minnsta virðist samtalið gefa til kynna að hún sé kynferðislega virk, hún hreinlega biður um kynlíf. Er verkefnið, sem loka á, kannski alls ekki fólgið í því að koma sér upp lista yfir prinsessur sem borin er virðing fyrir heldur yfir konur sem hægt er að kalla til með einu sms-i og fá bónaða inn á gólf í þynnkunni? Eru konur kannski flestar bara drasl sem enga virðingu þarf að bera fyrir og er það réttlætanlegt vegna þess að þær eiga þann draum heitastan að hafa mök við alvöru karlmenn og biðja ekki um neitt meira? („Skaðleg karlmennska“, bls. 14).

Það er fengur að þessari grein því það er allt of sjaldgæft að sjá svona skýra greiningu á mikilvægum afurðum og áhrifavöldum á íslenska fjöldamenningu. Í lok greinarinnar velta höfundar því fyrir sér hver áhrifin gætu verið á lesendur, sem eru væntanlega í meirihluta unglingsdrengir. Er allt í lagi að mikilvæg fyrirmynd þeirra beri á borð þessa sýn á karlmennsku og konur? Hvers vegna hefur bókin ekki fengið meiri gagnrýna umfjöllun?

Heimildir:

Ásta Jóhannsdóttir og Kristín Anna Hjálmarsdóttir. (2011). Skaðleg karlmennska? Greining á bókinni Mannasiðir Gillz. Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun. Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Sótt af http://netla.khi.is/greinar/2011/alm/005/005.pdf

Johnson, A. (1997). The gender knot: Unraveling our patriarchal legacy. Philadelphia: Temple University Press.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.