Afsakið ónæðið

Höfundur: Hildur Knútsdóttir

Vinur minn sagði um daginn að femínistar á Íslandi væru að „tapa PR-stríðinu“. Hann átti við að þegar femínistar gagnrýna eitthvað, þá snerust vopnin oft einhvernveginn í höndunum á þeim, og af fjölmiðlaumfjöllun væri að skilja að femínistar séu grýlurnar sem vilji svipta vammlaust fólk málfrelsinu, þagga niður í þeim, jaðra, ritskoða og útskúfa. Og að alltaf þegar femínisti gagnrýnir einhvern og fjölmiðlar blanda sér í málið, þá stendur hinn gagnrýndi eftir sem saklaust fórnarlamb með pálmann í höndunum.

Mér fannst þetta merkilegt, afþví það er mikið til í þessu hjá honum. Það hefur verið bent á að femínísk gagnrýni á ekki alltaf greiða leið í fjölmiðla. Hún birtist á bloggsíðum eða á Facebook, en þeir sem gagnrýnin beinist að hafa aftur á móti yfirleitt prýðilegt aðgengi að fjölmiðlum, og fá að svara gagnrýninni í víðlesnum miðlum, þannig að svarið við henni fær miklu meiri lestur en gagnrýnin sjálf. (Ingimar Karl Helgason bloggar m.a. um þetta hér og hér).

Ímynd femínismans

Annað sem ég hef oft fengið að heyra er að femínistar séu að skemma „ímynd femínisma“ með því að nota „röng“ orð yfir hlutina, femínistar velji óheppilega framsetningu eða velji baráttumál sín ekki af nógu mikilli kænsku, sem verður til þess að fólk, sem annars væri móttækilegt fyrir málflutningi þeirra, fær andúð á femínisma og nennir ekki að taka þátt í jafnréttisbaráttu.

Það má vel deila um orðanotkun og áherslur í feminískri gagnrýni, enda er það iðulega gert. Svo oft reyndar, að það kemur oftar en ekki fyrir að gagnrýnin gleymist fljótt og í staðinn fyrir að rökræða innihaldið í orðunum, þá fer allt púðrið í að tala um hvernig hlutirnir voru sagðir, hvort þeir hefðu getað verið sagðir einhvernveginn öðruvísi, hvort sú sem sagði þau noti varalit, o.s.frv.

Og vissulega getur framsetning skipt máli, en varla svona miklu máli.

Mikil kurteisi móðgar engan

Það eru nokkur atriði sem ég staldra við þegar ég sé svona umræður um framsetningu femínisma. Í fyrsta lagi finnst mér skrýtið að einhver sem hefur virkilegan áhuga á því að berjast fyrir jöfnum réttindum kynjanna hætti við af því hann er ósammála orðanotkun eða framsetningu annarra sem berjast fyrir jöfnum rétti. Ef það þarf ekki meira til að fá hann til að verða afhuga jafnréttisbaráttu en það, þá var jafnréttisbarátta honum varla neitt hjartans mál til að byrja með.

Svo finnst mér alltaf jafn skrýtin þessi krafa um að mannréttindabarátta einhverra sem njóta ekki fullra réttinda til jafns við aðra verði að vera „rétt“, falla öllum í geð og vera með þeim hætti að hún skapi þeim sem berjast sem mesta velvild í samfélaginu. Réttindabarátta snýst ekki um það að vera vel liðinn. Réttindabarátta snýst ekki um að vinna sér inn PR-stig. Hún snýst um að ná jafnrétti.

Konur hafa minni völd í samfélaginu en karlar. Fái þær aukin völd hlýtur það að þýða að einhverjir þurfa að gefa eftir eitthvað af sínum völdum. Ég velti því fyrir mér hvort þeir sem berjast fyrir auknum völdum hafi í raun séns á því að vinna PR-stríð, sérstaklega ef það eru valdhafarnir sem stjórna fjölmiðlunum.

Hefur barátta fyrir auknum völdum einhvern möguleika á því að falla í kramið hjá þeim sem völdin hafa? Getur hún verið „rétt“ og unnið sér inn PR-stig? Hlýtur hún ekki alltaf að vera óþægileg og ógna valdhöfum, sama hvernig hún er sett fram og sama hvaða orð eru notuð? Getur krafa hóps um aukin réttindi verið kósí, þægileg og auðmelt fyrir alla?

Getur mannréttindabarátta einhverntímann verið kurteis?

P.S.
Mættu ég og systur mínar kannski vinsamlegast fá svolítið meiri völd í samfélaginu, takk? Og afsakið ónæðið.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.