Brjóstin á Grace Jones

Höfundur: Erla Elíasdóttir

Fyrirmyndir eru mikilvægar. Þær vekja fólki trú á eigin getu til að framkvæma eitthvað og afreka. Til að fyrirmynd gangi upp sem slík þarf fólk hinsvegar að geta samsamað sig henni og í heimi þar sem karlmenn hafa löngum einokað vitsmunasenuna, afþreyingarsenuna og íþróttasenuna segir það sig sjálft að stúlkur hafa átt erfitt með að finna þá trú á sjálfum sér sem nauðsynleg er til að láta að sér kveða á opinberum vettvangi. Ástandið hefur vissulega farið batnandi undanfarna áratugi, með síauknum fjölda kvenna á áberandi sviðum þjóðlífsins. Þó er það enn staðreynd að stúlkur eru ragari en drengir við að koma sér á framfæri, og það get ég fullyrt án þess að vitna í nokkra einustu tölfræði. Ég fullyrði það með hliðsjón af t.d. því að mikill meirihluti stráka sem ég þekki hefur verið í (a.m.k. einni en oft fleiri) hljómsveitum, en aðeins lítill hluti stelpnanna. Ég gef mér semsagt að þetta stafi ekki af því að stúlkur séu eitthvað síður músíkalskar, heldur frekar að samfélagið sé ekki jafn hvetjandi í þeirra garð hvað þetta varðar. Stúlkurnar eru líklegri til að þjást af fullkomnunaráráttu og mistakafælni, auk þess að þrátt fyrir óneitanlegar framfarir í jafnréttisátt eru karlar enn í miklum meirihluta þess fólks sem er áberandi fyrir skapandi störf sín. Það lýsir auðvitað ömurlegum vítahring að fáar konur fari út í greinar á borð við tónlist sökum þess að fáar konur eru þar fyrir. Hér kemur hlutverk fjölmiðlanna inn í, og ábyrgð þeirra er mikil. Þeim ber í þessu samhengi beinlínis skylda til að halda afrekum kvenna á hinum ýmsu sviðum samfélagsins til haga. Til lengri tíma litið mun það sjá ungum konum fyrir nauðsynlegum fyrirmyndum og þannig stuðla að því að jafna út kynjahlutföll á opinberum vettvangi, sem aftur myndi fjölga kvenkyns fyrirmyndum. En hvernig mætti tryggja að markvisst yrði unnið í þessa átt?

Yrsa Þöll Gylfadóttir veltir upp þeirri hugmynd í nýlegri grein hér á knúzinu að koma upp stöðum sérstakra jafnréttisráðunauta við fjölmiðla. Eftir að hafa lesið um viðbrögð listahópsins Kviss búmm bang við leiksýningunni Nei, ráðherra fyndist mér að minnsta kosti síst fjarri lagi að koma slíku á í leikhúsum landsins. Og eftir að hafa horft á annan þátt íslensku þáttaraðarinnar Hljómskálans er ég sannfærðari en nokkru sinni fyrr (og ekki var tiltrúin þó mikil fyrir) um að dagskrárstjórn Ríkisútvarpsins þjáist af alvarlegri sjónskekkju og þurfi þykk kynjagleraugu sem allra, allra fyrst. Þátturinn var skemmtilegur og margir hæfileikamenn komu þar fram í ýmsum fínum atriðum – en um þáttinn í heild get ég sagt að væri ég fornleifafræðingur framtíðar, að púsla saman mynd af íslensku samfélagi á öndverðri 21. öld, hefði hann óhjákvæmilega leitt mig að þeirri niðurstöðu að tónlist hefði þar verið algjört og tótal karlasport. Á heimasíðu RÚV kemur fram að farið sé „um víðan völl íslensku tónlistarsenunnar“. Í þættinum var rætt um og við fjölda karla á meðan eina konan sem glitti í var Grace Jones, sem minnst var á í framhjáhlaupi – og það látið fylgja að á umræddu tímabili hefði hún líka verið svo mikið á brjóstunum. Sem tónlistarkonur gerðu sko ekki nógu mikið af í dag, hre hre hre. Jú og svo var minnst á Shady Owens í erótískum sleik við gítar á einhverju Trúbrotsgiggi á vellinum endur fyrir löngu. Eru í alvörunni engar tónlistarkonur að gera neitt áhugavert á Íslandi í dag – til dæmis tónlist? Nú má vera að fyrsti þáttur seríunnar, sem heimasíða Rúv neitar að hlaða í augnablikinu, hafi verið skárri í þessu tilliti, ég myndi fagna því ef svo væri – en er reyndar ekki sérlega trúuð á það. Sjáum hvert framhaldið verður.
Sjálf spila ég tónlist, syng tónlist og hef kennt tónlist, en ég hef aldrei verið í hljómsveit. Ég efast um að það þýði neinn gríðarlegan missi fyrir samfélagið en held að sem strákur hefði ég þó verið margfalt líklegri til að láta á slíkt reyna, það segir tölfræði umhverfisins mér. Ég þekki stelpur sem hafa stofnað hljómsveitir af femínískri hugsjón og stelpur sem hafa stigið á svið sem uppistandarar af sömu hvötum. Það finnst mér mjög töff og er viss um að það geti haft áhrif til góðs, en þar sem ég hef eftir allt saman ekki gefið upp alla von um raunverulegt jafnrétti í samfélaginu, þá dreymir mig auðvitað um að einhvern daginn vaxi stelpur einfaldlega úr grasi nokkurnveginn jafn félagslega hneigðar og strákar til þess að koma sjálfum sér á framfæri í þeim greinum sem þær hafa hæfileika til.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.