Ég er stelpa og stelpur klæðast bleiku

Höfundur: Yrsa Þöll Gylfadóttir

Þegar ég vissi að ég gengi með stúlkubarn var ég staðráðin í því að ég og faðirinn myndum vera meðvituð um jafnréttissjónarmið í uppeldinu og byrgja hina ýmsu brunna áður en barnið dytti í þá. Fyrsti brunnurinn sem mér þótti ástæða til að byrgja strax var brunnur kynjaðra lita, bleikur og blár.

Ég var með miklar fyrirætlanir um að stúlkan okkar skyldi sko ekki verða einhver bleik dúlluprinsessa, alltaf klædd í bleika blúndukjóla og blómatreyjur. Á meðgöngunni bárust föt víðs vegar að, gjafir og lán, í hinum hefðbundna „stelpulit“ í bland við aðra og fjölbreytta liti. Samt sem áður hafði ég mínar efasemdir um að klæða (þá ófætt) barnið í „stelpulegu“ fötin, eins og ég væri þá að taka þátt í einhverju sem ég væri í grunninn mótfallin. En það er ekki fyrr en núna að barnið er fætt að ég tek eftir því að við foreldrarnir höfum enga sérstaka tilhneigingu til að banna barninu að ganga í bleiku dúllufötunum og hikum ekki við að grípa til þeirra í skúffunni, enda finnst okkur sá litur oftar en ekki einstaklega sætur og fallegur. Við erum auk þess námsmenn á fæðingarstyrk og nýtum við öll þau föt sem völ er á.

Nú er barnið 6 vikna gamalt og innra með mér bærast mótsagnakenndar og tvíradda skoðanir, og ekki hef ég beint nein svör. Ég vil að gefnu tilefni taka það fram að þótt ég sé femínisti er ég ekki af neinum skóla, engri bylgju (eða allavega engri sem ég get fyllilega sammælst), ég fylgi engum sérstökum kenningum og kreddum og hef ekki klippta, skorna og einhliða afstöðu til alls sem snýr að kynjunum, það er bara ekki svo einfalt. Skoðun mín á bleika litnum er því tvíþætt og mótsagnakennd. Hér birti ég samtal frá því í morgun sem átti sér stað í sálarfylgsnum mínum milli raddanna tveggja sem saman mynda femínistann mig. Köllum þær Yrsu og Þöll:

Yrsa: Hvað er svona hræðilegt við bleika litinn?

Þöll: Það er ekkert hræðilegt við litinn sem slíkan, heldur í fyrsta lagi þessa áráttu samfélagsins til að aðgreina kynin og í öðru lagi merkingarauka bleika litarins. Bleikur er dúllu-, dömu-, Barbie- og prinsessulitur, og dúlluleg, dömuleg, dúkkuleg og prinsessuleg hegðun er ekki til þess fallin að ávinna konum virðingu og tækifæri til jafns við menn, heldur halda þeim í sínu hefðbundna hlutverki að vera sætar, þægar og undirgefnar.

Yrsa: Úff, nú vakna ýmsar spurningar. Í fyrsta lagi, hvað er að aðgreiningu? Mega kynin ekki bara vera ólík? Lausnin er ekki að kynin þurfi að vera eins og allir skuli vera njútral heldur að bæði hljóti virðingu til jafns, hvort á sinn hátt. Ég og kærastinn þurfum ekki að vera eins til að standa jafnfætis. Í öðru lagi, ekki segja mér að liturinn á fötunum okkar sé einn ábyrgur fyrir því í hvaða hefðbundnu kynjahlutverk við séum hneppt. Ef það er ekki liturinn sem ræður þá kemur eitthvað annað til, á meðan við lifum við feðraveldi.

Þöll: Ég sagði aldrei að liturinn væri einn ábyrgur, hann er aðeins hluti af stærra samhengi. En sérðu ekki að ef við upprætum ekki alls kyns míkróbirtingarmyndir feðraveldisins, þá stjökum við aldrei við því? Og ekki gleyma því að liturinn er tákn. Barninu er allt frá fæðingu úthlutað þessum táknræna lit kyns síns og sú hefð er svo rótgróin að barnið þróar smekk fyrir honum og byggir ef til vill sjálfsmynd sína á táknrænu litarins – ég er stelpa, stelpur klæðast bleiku, ég er ekki strákur, strákar klæðast bláu, o.s.frv. Ég er auðvitað ekki að leggja til afnám aðgreiningar, en að við skulum vera á varðbergi gagnvart svo einhliða tvískiptingu og viðurkenna meiri mun milli einstaklinga, ekki bara kynja.

Yrsa: En ég er femínisti og klæðist bleiku. Ekki fæ ég séð að ég sé að stríða gegn eigin baráttu. Og ef eitthvað er finnst mér hræðslan við bleikan (sem tákn kyns okkar, eins og þú segir) bara verri, af því að hún gefur til kynna skömm á eigin kyni og upphafningu á öðrum og karllægari litum. Af hverju ekki frekar að upphefja bleika litinn og vera stoltar af kyni sínu? Bleikur er til dæmis litur kvennafrídagsins, litur brjóstakrabbameinsátaksins, o.s.frv. Mér finnst það háalvarlegt mál ef kvennabaráttan er farin að snúast um það að hafna öllu því sem þykir kvenlegt og taka upp það sem er karllegt, af því að það er ríkjandi og virðingarvert. Það er að mínu mati uppgjöf.

Þöll: Ég skil. Þú nefndir „stolt“ og „upphafningu“, en þess lags jafnréttisbarátta er oft svo yfirborðskennd, hún ber með sér í senn eitthvert „allir strákar pissa í kopp, allar stelpur borða popp“ metings-hópefli, og stuðlar að þessari aðgreiningu. Auk þess tel ég að hún beri svo takmarkaðan árangur. Ég tel t.d. ekki að við eigum að krefjast virðingar fyrir það að vera hlutgerðar kynverur, „gyðjur“, eins og einhver sagði, heldur losna undan þessu hlutverki. Og ég veit ekki til þess að jafnréttisbarátta formæðra okkar hafi farið fram með því að standa vörð um „kvenleg“ hlutverk eins og vera heima meðan karlinn er úti í heimi, eldamennsku, handavinnu, að unga út börnum, vera umfram allt fallegar og tilkippilegar, o.s.frv. heldur að fara sjálfar út í heim, út á vinnumarkaðinn, kjósa, nota getnaðarvarnir, o.s.frv. Þetta eru ekki í eðli sínu „karllegir“ hlutir, heldur sjálfsögð mannréttindi beggja kynja…

Jæja, það er ljóst að þetta er löngu hætt að snúast um liti, heldur litatáknfræði, og ég held að við kveðjum Yrsu og Þöll, þær hafa ekki sungið sitt síðasta í þessum málum, þær eru alltaf eitthvað að takast á.

Á meðan ég melti þetta, ætli ég skelli ekki dóttur minni í alls kyns lituð föt, bleik og ekki-bleik, hafi engar áhyggjur af því í bili og njóti fjölbreytninnar á meðan ég get. Mig grunar að sá tími muni koma að stúlkan harðneiti að klæðast öðru en prinsessukjólum og vilji fá varalitinn hennar mömmu sinnar lánaðan þegar hún fer á Litlu jólin í skólanum sínum. Dæs. Ætli ég díli ekki við það þegar þar að kemur…

p.s. Þess má að lokum geta að litaaðgreining er 20. aldar fyrirbæri, fyrir það voru öll börn fram að 6 ára aldri klædd í hvítt. Auk þess var bleikur upphaflega strákalitur en blár stelpulitur. Ástæðan var sú að „bleikur, sem ákveðnari og sterkari litur, hæfir strákum betur, á meðan blár, sem er fínlegri og ljúfari litur, er fallegri á stelpur“. Blái liturinn var sagður vera litur Maríu meyjar, hreinn og saklaus.

Sjá: When did girls start wearing pink

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.