Konur eru hin raunverulegu fórnarlömb „karlakrísunnar“

Þýðandi: Erla Elíasdóttir

Það er ekki bara ímyndun í þér: eins og tvær nýlegar rannsóknir sýna fram á, þá þurfa ungar konur raunverulega að leggja meira á sig en karlar til að hljóta sömu meðferð.

Samkvæmt nýlegri skýrslu tímaritsins Inside Higher Education um breyttar inntökuaðferðir í bandarískum háskólum kom í ljós að bæði almennir og einkareknir skólar setja nú karlkyns umsækjendur í forgang, burtséð frá kynþætti eða stétt. The New York Times ákváðu, nokkuð fyrirsjáanlega, að hunsa þessa niðurstöðu og einblína frekar á þá augljósu staðreynd að auðugir stúdentar standa betur að vígi en nokkru sinni hvað inngöngumöguleika varðar. En það eru engin ný sannindi að geta til að greiða full skólagjöld vegur upp á móti lægri einkunnum; þannig hefur það alltaf verið. Hinsvegar eru það nýmæli að kvenkyns umsækjendur af öllum kynþáttum þurfi nú að uppfylla strangari kröfur en hvítir karlar, í háskólum af öllum stærðum og gerðum.

Tilhneiging til að hygla körlum á þennan hátt var löngum talin einskorðast við háskóla sem hafa strangar aðgangskröfur almennt. Fyrir fimm árum skrifaði Jennifer Delahunty Britz, deildarforseti inntökumála í Kenyon College, pistil í New York Times undir yfirskriftinni „To All The Girls I’ve Rejected“ eða „Til allra stúlknanna sem ég hef hafnað“, þar sem hún gekkst við því að í þágu jöfnunar kynjahlutfalla væru inntökuskilyrði í skólanum nú „stífari fyrir konur en karla“. Nú hefur rannsókn Inside Higher Education staðfest að það sem talið var einskorðast við nokkrar elítustofnanir er í dag frekar reglan en undantekningin.

Ekki er nóg með að skilyrðin séu hagstæðari karlkyns umsækjendum, þeir eru líka í sviðsljósinu í fjölmiðlum. Hitamál augnabliksins er „krísa karlmannleikans“. Hanna Rosin lýsti yfir áhyggjum af „endalokum karla“ í greininni „The End of Men“ og Bill Bennett skrifaði nýverið um vaxandi „þroskaskort“ meðal karlmanna. Fagfólk, prestar, barnalæknar – allir eru að gefa út bækur þar sem tíundað er hvað sé „að strákum“. Vissulega bendir margt til þess að ungir karlmenn séu að dragast aftur úr. Umræðu um orsakirnar er gjarnan beint á hápólitískar brautir og umræða um úrræðin því líkleg til að halda áfram um einhvern tíma. En eins og við vitum hefur eitt sterklega vafasamt úrræði þegar fundið sér stað: lægri inntökukröfur fyrir karla í háskólanám. Og þrátt fyrir játningu Britz í The Times, þá hefur tjónið sem þessi viðleitni veldur konum verið svo gott sem hunsað.

Það tjón birtist ekki aðeins uppúr umslögum frá inntökuskrifstofunum. Strangari kröfur á konur en karla bæta gráu ofan á svart hvað annað vandamál varðar: fullkomnunaráráttu ungra kvenna, sem fór versnandi fyrir. Stúlkur hafa löngum þurft að sætta sig við misrétti og tvískinnung í kynferðismálum og sitja nú í ofanálag uppi með mun hærri væntingar á vitsmunasviðinu.

UCLA háskóli hefur áratugum saman gert árlega könnun til að fylgjast með breytingum á viðhorfum meðal fyrsta árs nemenda skólans. Samkvæmt nýjustu niðurstöðunum, síðan í janúar á þessu ári, er streita svo gott sem einskorðuð við kvenkyns nemendur. Í The New York Times segir svo um niðurstöðurnar:

Á hverju ári höfðu konurnar neikvæðari sýn á eigin geðheilsu en karlarnir, og bilið hefur breikkað…

Margt ungt fólk glímir við alvarlega streitu þegar fyrir háskólanám. Í fyrra sögðu 27% nema í könnuninni að þeim hefði oft fundist vinnuálagið yfirþyrmandi, í ár voru það 29%.

Í svörum við þeirri spurningu kom jafnvel meiri kynjamunur í ljós en í tengslum við geðheilsu – 18% karlanna fannst álagið oft vera yfirþyrmandi, í samanburði við 39% kvennanna.

Einnig kom í ljós að kynin vörðu frítíma sínum á mismunandi hátt – Linda Sax hjá UCLA bendir á að samkvæmt könnuninni séu karlar „líklegri til að sinna streitulosandi áhugamálum á borð við íþróttir á meðan konur hafa tilhneigingu til að bæta á sig ábyrgðarhlutverkum, t.d. með því að taka þátt í sjálfboðastarfi og aðstoða innan fjölskyldunnar, sem dregur ekki úr streitu“.
Eins og fram hefur komið gera háskólar um öll Bandaríkin meiri kröfur til kvenkyns umsækjenda, og því hefur þátttaka í sjálfboðastarfi orðið að samkeppnislegri nauðsyn fyrir kvenkyns nemendur. Allt frá því á 9. áratugnum hafa margir framhaldsskólar sett samfélagsþjónustu í sjálfboðastarfi sem skilyrði fyrir útskrift, en nú á tímum hömlulausrar einkunnaverðbólgu, þegar nánast hver umsækjandi um háskólavist er líklegur til að hafa mjög góða meðaleinkunn, hefur sjálfboðastarf öðlast aukið vægi. Þeim mun fleiri stundum sem varið er til að gefa heimilislausum súpu eða hlúa að krabbameinssjúkum, þeim mun betri líkur á að skera sig úr risastórum hópi klárra, metnaðargjarnra og frambærilegra stúlkna sem allar hafa sótt um takmarkaðan fjölda af nýnemaplássum.

Umsækjendur í hópi ungra karla eru hinsvegar verðlaunaðir fyrir skort hópsins í heild á akademískum metnaði og samfélagsanda. Á samkeppnisdrifnum mælikvarða inntökunefndar gæti ferilskrá sem teldist í meðallagi hjá kvenkyns nema (til dæmis 5 tímum á viku varið í að lesa upphátt fyrir blinda) virst beinlínis hetjuleg þegar hún kæmi frá strák. Þeim mun meiri tíma sem ungir karlar verja í ræktinni eða við spilun tölvuleikja, því meira styrkist staða hinna sífellt færri meðal þeirra sem sýna lágmarks metnað í verki; háskólarnir geta notfært sér þá til að jafna kynjahlutföll nemendanna.

Hinir hefðbundnu streituvaldar í lífi margra ungra kvenna – skyldurækni gagnvart fjölskyldunni, sú byrði að eltast við ómögulegan líkamlegan fullkomleika, pressan um að vera kynæsandi en ekki kynferðisleg, áhyggjur af að „tíminn sé á þrotum“ – allt þetta var til staðar löngu fyrir allan æsinginn yfir endalokum karlmennskunnar. Við þessar gamalkunnu áhyggjur hefur nú bæst sú niðurdrepandi staðreynd að ungar konur þurfa að vera mun frambærilegri en ungir karlar til þess að vera metnar til sömu inntökumöguleika í háskólum.

Það má vel vera að „karlakrísa“ sé til staðar. En eins og rannsóknir IHE og UCLA sýna fram á eru það ungar konur sem nú verða streitu og ofþreytu að bráð vegna tilrauna okkar til að ráða bót á henni.

– – – 
Greinin er eftir Hugo Schwyzer, birtist upprunalega á Jezebel.com og er birt hér með leyfi höfundarins.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.