Höfundur: Sóley Tómasdóttir
Berit Ås er norskur femínisti og samfélagsrýnir og hefur stundum verið kölluð ljósmóðir kvennahreyfingarinnar. Greining hennar á samskiptum fólks er einkar athyglisverð, en hana setur hún fram í kenningu um Drottnunaraðferðirnar fimm.
Drottnunaraðferðirnar eru sammannlegar og notaðar af körlum og konum í einhverjum mæli í hinu daglega lífi, yfirleitt alveg ómeðvitað. Þær eru einkar greinanlegar þegar valdamisræmi er til staðar og því er oft gagnlegt að greina samskipti kynjanna eftir þeim. Greinilegastar eru þær þó í orðræðu andstæðinga femínisma.
María Lilja Þrastardóttir er íslenskur femínisti og samfélagsrýnir og hefur verið áberandi í umræðunni upp á síðkastið vegna beinskeyttra skrifa sinna um misrétti samfélagsins. Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa, enda reisir hún kröfu um breytingar á ríkjandi gildum, viðmiðum og valdamisrétti í samfélaginu. Hefðbundnir málsvarar feðraveldisins koma fram einn af öðrum og beita hefðbundnum aðferðum til að gera lítið úr skoðunum hennar, málflutningi og persónu.
Þá er gott að hafa kenningar Beritar við hendina. Drottunaraðferðirnar fimm fylgja hér á eftir, settar í samhengi við þá gagnrýni sem María Lilja hefur sætt að undanförnu:
• Að gera fólk ósýnilegt
Þegar horft er framjá framlagi kvenna í umræðum, hvort sem er á opinberum vettvangi eða í persónulegum samtölum. Framkoman er til þess fallin að konum finnist framlag þeirra og skoðanir léttvægar og skipti ekki máli.
Þetta á við almennt um kvenfrelsismál í samfélaginu, þau málefni sem Maríu Lilju eru hugleikin. Fjölmiðlaumfjöllun um misrétti kynjanna er ekki í neinu samræmi við áhrifin sem það hefur enda snertir misréttið öll svið samfélagsins, bæði kynin, ungt fólk og gamalt. Því til viðbótar hefur grein Maríu Lilju verið tekin úr birtingu á Innihald.is (eins og betur verður komið inn á síðar).
Skrif Maríu Lilju beinast meðal annars gegn þessari leið – hún vekur athygli á málum, setur þau á dagskrá og krefst umfjöllunar.
• Að gera fólk hlægilegt
Þegar framlag kvenna í umræðum, hvort sem er á opinberum vettvangi eða í persónulegum samtölum er gert hlægilegt. Skoðanir þeirra jafnvel taldar byggja á tilfinningasemi eða kynbundnum líffræðilegum þáttum. Framkoman er til þess fallin að konur efast um gildi og réttmæti skoðana sinna og þora síður að setja þær fram.
Hér er hægt að nefna fjaðrafokið sem varð vegna bréfaskrifta Maríu Lilju til forsvarsfólks Skjáseins um að konur hefðu áhuga á fleiru en því sem Tobba Marinós og Ellý Ármanns hygðust fjalla um. Þá var reynt að gera Maríu Lilju kjánalega, meðal annars vegna þess að hún notaði varalit.
• Að leyna upplýsingum
Þegar konur hafa ekki sama aðgang að upplýsingum og karlar, hvort sem er á opinberum vettvangi eða í persónulegum samskiptum. Gerist á vinnustöðum, í stjórnmálum og í félagslífi. Karlarnir skiptast á mikilvægum upplýsingum í eigin óformlega hópi sem aldrei koma upp á yfirborðið á formlegum fundum og því standa konur höllum fæti í samskiptunum.
Þótt leiðin sé algeng og flestar konur þekki hana af eigin raun er vandséð að tengja hana Maríu Lilju í svipinn.
• Tvöföld refsing
Þegar konum er legið á hálsi fyrir val sitt eða forgangsröðun í lífinu, bæði sem hópur, en einnig einstaklingar. Þá skiptir ekki máli hvert valið er, niðurstaða konunnar verður gagnrýnd hvort eð er. Velji kona t.d. að krefjast réttar síns er hún brjáluð, geri hún það ekki, getur hún sjálfri sér um kennt.
Femínistar virðast eiga sérstaklega erfitt með að forgangsraða rétt. Hér mætti nefna bréfaskriftir Maríu Lilju og Davíðs Þórs. Þar hafði María Lilja val milli þess að láta skoðanir og dylgjur Davíðs Þórs óáreittar gegn eigin sannfæringu eða þess að koma sínum skoðunum á framfæri og hljóta bágt fyrir þar sem bæði leiðum 1 og 5 var beitt.
• Að framkalla skömm og sektarkennd
Þessar velþekktu tilfinningar meðal kvenna eru framkallaðar m.a. með aðferðum 1-4, eða bara því sem þykir henta hverju sinni.
Klisjan um að femínistar hafi nú margt fram að færa, þær þurfi bara aðeins að passa hvernig þær orða hlutina eða setja þá fram er skínandi dæmi um þessa aðferð. Gagnvart Maríu Lilju hefur margt verið reynt, en fáir þó gengið jafn langt og Davíð Þór sem beitti þeirri kunnuglegu aðferð að hóta meiðyrðamáli. María Lilja átti að skammast sín.
Það eru ekki bara karlrembur sem beita þessum aðferðum. Við gerum það sjálfsagt að einhverju leyti öll, en ættum að reyna að láta af því eftir fremsta megni. Við þurfum að þekkja þessar reglur til að koma í veg fyrir að við beitum þeim – en líka til að koma í veg fyrir að þær hafi áhrif á okkur.
Ég fæ ekki betur séð en að ritstjórn Innihald.is hafi fallið í gryfju Drottnunaraðferðanna og tekið þátt í að þagga Maríu Lilju. Og gleymum því þá ekki að bréfið sem þar hefur verið tekið úr birtingu snérist ekki um hana sjálfa. Þar var hún að verja nafnlausan hóp kvenna fyrir ávirðingum Davíðs Þórs af einurð og kjarki og ósérhlífni. Við hin eigum að þakka henni fyrir það og standa með henni. Við eigum að vera óhrædd að benda á þær drottnunaraðferðir sem verið er að beita hverju sinni og útskýra þá ósanngirni sem í þeim felst. Þannig náum við árangri.