Íþróttakonur eða klámstjörnur? Fimm þrep klámintons

Þýðandi: Herdís Helga Schopka

Athugasemd þýðanda: Greinin er þýdd úr vorhefti þýska femínistatímaritsins Emmu (emma.de), sem kom út rétt áður en heimsmeistaramótið í kvennafótbolta hófst í Þýskalandi (26.6.-17.7.2011).

Kynlíf selur, líka í kvennaíþróttum. Íþróttafræðingar hafa rannsakað klámvæðingu í kvennaíþróttum og skipa henni í fimm mismunandi stig. Og við spyrjum: Fara fótboltastelpurnar okkar líka bráðum að fækka fötum?

Það er löngu uppselt á leikinn og 40 þúsund áhorfendur bíða óþreyjufullir eftir að liðið komi inn á völlinn. Leikurinn í dag ætti að verða æsispennandi. Liðin sem keppa eru “San Diego Seduction” og “Dallas Desire”. Loks er komið að því: Konurnar hlaupa inn á völlinn og allt ætlar vitlaust að verða á áhorfendapöllunum, því ruðningsstelpurnar 14 eru íklæddar hjálmum og axlarpúðum og… nánast engu öðru.

Brækur leikkvennanna ná ekki upp fyrir píkuháralínuna og brjóstahaldararnir eru að springa utan af sílíkonfylltum brjóstum í yfirstærð. Á lærunum eru þær allar með svart band sem minnir (ekki af tilviljun) á sokkaband. Aðdáendurnir eru í sjöunda himni. Velkomin á leik hjá bandarísku Lingerie League – undirfatadeildinni í ruðningi!

Fyrirbærið mætti nefna kláminton, eða sportklám – íþróttir og klám spyrt saman í eitt. “Klámvæðing íþrótta er áberandi, hún er vísindaleg staðreynd og er alltaf að færast í aukana,” segja Jörg-Uwe Nieland og Daniela Schaaf, vísindafólk við íþróttaháskólann í Köln sem hafa rannsakað fyrirbærið.

Íþróttafræðingurinn Gertrud Pfister skilgreindi “Kournikova-syndrómið” fyrir heilum tíu árum, um tilfelli Önnu Kournikovu, tennisstjörnunnar miklu sem spilaði einungis skítsæmilega tennis en var þeim mun meira kyntákn. Fyrir vikið varð hún ein þekktasta tennisstjarna heims og græddi á tá og fingri á auglýsingasamningum.

Nieland, sem er félagsfræðingur, og Schaaf, sem er fjölmiðlafræðingur, höfðu veitt því eftirtekt að “það er alltaf meiri og meiri tilhneyging til að einblína á kynferði íþróttakvenna, upp að því marki að nú erum við eiginlega að tala um klámvæðingu.” Þau lögðust bæði í rannsóknir á fyrirbærinu og voru sammála um að magn og eðli þessarar klámvæðingar væri annað og meira en þau höfðu átt von á að sjá.
Sem dæmi má nefna myndaþátt um brasilísku fótboltakonuna Laísa Andrioli, sem birtist í tímaritinu Sexy (brasilíska útgáfan af Playboy) árið 2008. Landsliðskonan í fótbolta sýndi í þessum myndaþætti allt litróf kvenlegrar undirgefni: í köðlum og utan í rimlum, eða í rimlarúmi sem minnir helst á bása í hesthúsi, þar sem hin tvítuga fótboltakona situr og tínir af sér síðustu píkuhárin með plokkara. “Við áttum ekki von á að konur sem eru virkar í íþróttum myndu láta taka og birta svona myndir af sér,” sögðu Schaaf og Nieland.


Þetta má skilgreina sem fyrsta þrep sportklámsins, eins og vísindateymið hefur skilgreint það: “Klámvæðing í samskiptum fjölmiðla og íþróttakvenna”. Slíkt hefur verið áberandi í Þýskalandi. Síðan 1995 hafa meira en 30 þýskar íþróttakonur háttað sig fyrir Playboy og önnur þekkt þýsk karlablöð. Hér er um að ræða t.d skautadansarann Tanja Szewczenko, skylmingakonuna Britta Heidemann og boxarann Regina Halmich. Þess má geta að sama ár, þ.e. 1995, varð til starfsheitið “umboðsaðili” íþróttakvenna, en það starf hafði ekki verið til fram að því. Ólíkt trendinu í Brasilíu er óskráða reglan fyrir atvinnuíþróttakonur í Þýskalandi sú að brjóst og rass skuli sjást en ekki kynfærin. Brjóst og rass nægja samt til þess að íþróttakonan (og umboðsaðili hennar) beri ríkulegan fjárhagslegan ávinning frá borði, eins og Schaaf komst að í rannsókn sinni á rúmlega 72 þúsund auglýsingum yfir tíu ára tímabil: Átta af þeim tíu íþróttakonum sem birtust oftast í auglýsingum á tímabilinu, “höfðu áður birst í erótísku samhengi í fjölmiðlum”. Sem dæmi má nefna tennissnillinginn Steffi Graf, sem lét birta myndir af sér á bíkíníi í bandaríska tímaritinu Sports Illustrated á sama tíma og faðir hennar var ákærður fyrir skattsvik. Stundum er enginn greinarmunur gerður á erótíkinni annars vegar og auglýsingunum hins vegar, eins og t.d. þegar tvíþrautardrottningin Magdalena Neuner auglýsti ögrandi nærföt frá Mey í þýskum fjölmiðlum.

Öðru þrepinu í kláminton er svo náð þegar rótgrónar íþróttagreinar eru orðnar klámvæddar (sexualized). Hér verður strandblak að teljast fara fremst í flokki: Heimssamtökin, FIVB, vildu gera íþróttina “meira aðlaðandi” fyrir áhorfendur og breyttu keppnisgallanum –aðeins fyrir kvennaliðin, eins og gefur að skilja. Núna eiga konurnar að keppa í sundbol eða bíkíníi. Og reikningsdæmið gengur upp: Karlar eru svo heillaðir af sveittum, hálfnöktum kvenlíkömunum að strandblak er ein örfárra íþrótta þar sem íþróttakonur fá hærri verðlaun og feitari auglýsingasamninga en karlkyns kollegar þeirra.
Þýska körfuboltasambandið (DBB) hefur hins vegar neitað að breyta keppnisklæðnaði kvennaliðanna, þrátt fyri háværa gagnrýni þess efnis að víðu buxurnar sem konurnar keppa í séu svo “ósexý”. Ingo Weiss, forseti DBB, brást hart við þessari gagnrýni: “Við viljum alls ekki að stelpurnar fari að valhoppa hérna um í g-streng til þess eins að lokka nokkra áhorfendur í viðbót á pallana.” Íþróttaklæðnaður þarf bara að gera einn hlut, samkvæmt Weiss, neflilega að “henta íþróttamanninum/-konunni”.

Þriðja þrep kláminton er “nýjar, klámkenndar íþróttagreinar”, þar sem það sem hentar íþróttakonunni skiptir engu máli lengur. Brjóstahaldarar leikkvenna undirfatadeildarinnar í ruðningi veita engan stuðning og enga vernd þegar líkamar þeirra skella saman á fullri ferð.
Þar sem íþróttakonurnar hafa mjög takmarkaða hæfileika í ruðningi er augljóst að þær eru valdar í liðin eingöngu út frá skálastærð. “Þess vegna þarf það ekki að koma neinum á óvart að margar þessara kvenna koma hingað úr kynlífs- og klámiðnaðinum” útskýra Schaaf og Nieland. “Þær selja grimmt af auglýsingavarningi bæði á æfingum og þegar þær koma fram í næturklúbbum”.
Undirfatadeildin í ruðningi varð til í hálfleik á Superbowl-leiknum, þ.e. úrslitaleiknum í úrvalsdeild karla í ruðningi, árið 2003. Þá komu klám-kvennaliðin fyrst fram og áttu upphaflega að vera skemmtiatriði fyrir sjónvarpsáhorfendur í hálfleik. Í staðinn dró fyrirbærið að sér milljónir áhorfenda og varð árið 2009 að fullgildri deild atvinnukvenna í ruðningi sem leika fyrir troðfullum leikvöngum.

Fjórða þrep klámintons einkennist að sögn Nielands og Schaaf af því að umbreyta hefðum klámiðnaðarins í nýjar íþróttagreinar. Súludans gæti dregð að sér viðlíka áhorfendaskara og undirfatadeildin í ruðningi þegar hann verður að ólympískri íþrótt árið 2016. Súludans á Ólympíuleikunum? Já, grínlaust. Ef heimssamtök súludansara hefðu fengið sínu framgengt yrði keppt í súlunuddi rauðljósahverfisins á ÓL í London 2012. Alþjóðlega Ólympíunefndin komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að stjórnunarinnviðir íþróttagreinarinnar væru ekki enn nógu góðir, en lokuðu ekki á möguleikann að hún fengi að vera með í Rio de Janeiro árið 2016.

Súludans er þannig ekki einungis orðinn hluti af hversdagsleikanum (nú orðið er boðið upp á námskeið í súlufitness fyrir konur sem vilja vera í góðu formi) heldur er hann líka á leiðinni inn á íþróttaleikvanga og fram fyrir augsýn milljóna áhorfenda á pöllunum.

Svo er það fimmta og síðasta þrep klámintonsins: “Íþróttir sem viðfangsefni í klámmyndum”. “Íþróttir” er löngu orðin alvanaleg kategóría á klámsíðum en það er líka hægt að sjá naktar konur nudda sér utan í golfkylfur með því einu að ýta á réttan takka á sjónvarpsfjarstýringunni: “Sexy Sport Clips” sem eru sýndar eftir miðnætti á SPORT1 sýna hvað konur geta ekki (kastað bolta eða komið honum yfir net með aðstoð tennisspaða) og hvað þær geta (klætt sig úr og nuddað sér nautnalega utan í tennisspaðann góða).

En hvað það er nú gott að vita að eftir að horfa á leik í úrvalsdeild kvenna í fótbolta, nú eða á kringlukastarana og kraftlyftingakonurnar á heimsmeistaramótinu í frjálsum, geti þeir sem hafa áhuga á að kynna sér málin frekar svissað yfir á “Sexy Sport Clips” og sannfært sig um að heimurinn sé jú samt sem áður enn eins og hann á að vera.

Ýmis teikn eru á lofti um að íþróttaheimurinn sé smám saman að missa tökin á klámvæðingunni. “Við óttumst að á einhverjum tímapunkti muni koma að því að íþróttaandinn hverfi og hæfileikar íþróttakvennanna skipti minna máli en útlit þeirra”, staðhæfa Nieland og Schaaf. Þar með vakna fleiri spurningar, t.d. hvort næst verði til þess ætlast af íþróttakonum að þær eigi til erótískar myndir í möppunum sínum, og hvort umboðsaðilar þeirra beiti þær þrýstingi til þess arna. Einnig er engan veginn víst að þessi þróun einskorðist við afreksíþróttakonur.

“Til dæmis má ímynda sér að stúlknahandboltalið í neðri deildum fari út í að gefa út nektardagatöl til að safna peningum eða til að næla í styrktaraðila. Í svoleiðis tilfellum gæti hópþrýstingurinn orðið mjög sterkur”, segir Jörg-Uwe Nieland.

Kannski sjáum við fyrstu þýsku landsliðsfótboltakonuna í Playboy á sama tíma og heimsmeistaramótið í knattspyrnu kvenna verður haldið. Doris Fitschen, fyrrverandi landsliðsleikkona og núverandi markaðsstjóri landsliðsins, hefði ekkert á móti því: “Ef einhverja landsliðskvennanna langar til þess (að sitja nakin fyrir) á hún að geta gert það. Við munum ekki reyna að leggja steina í götu hennar.” Er þýska fótboltasambandið sem sagt nú þegar orðið klámvætt?

Upprunalegan texta er að finna á http://www.emma.de/hefte/ausgaben-2011/fruehling-2011/sportlerinnen-oder-pornostars/

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.