Að halla máli eða mæla halla

úr Dykes to Watch Out For
eftir Alison Bechdel

Höfundur: Arngrímur Vídalín

Að horfa á myndband er góð skemmtun, einsog Gylfi Pálsson fræddi viðskiptavini myndbandaleiga ítrekað um hér áður fyrr. Stundum situr þó eftir einhver ónotatilfinning að myndinni lokinni sem kannski er erfitt að henda reiður á; eitthvað alvarlegt sem var að annars ágætri mynd. Oft rennur það upp fyrir mér við nánari skoðun að það sem var að myndinni er kynjaslagsíðan, hvort sem staðalmyndin hallar á annað kynið eða bæði. Slík slagsíða getur vissulega verið paródía á kynjaímyndir, og í vissum tilvikum getur hún sannarlega verið raunsæ (til að mynda gæti annars óraunhæfur söguþráður gamanmyndarinnar The Hangover allteins fjallað um ákveðna náunga sem ég þekki til).

Slík túlkun á veruleikanum, eða sú framsetning á söguheimi myndarinnar, skilur hinsvegar ekki eftir sig þetta sama óbragð og ég á við. Með öðrum orðum er ekkert athugavert við staðalmyndir í sjálfu sér, heldur er það samhengið sem þær birtast í, og það samhengi er oft erfitt að greina nema áhorfandinn sé grandvar. Til eru, einsog gefur að skilja, ýmis greiningartól til að aðstoða rýni við grandskoðun kvikmynda – að sjálfsögðu misgóð einsog lög gera ráð fyrir – og ekkert þeirra fullkomið eða hafið yfir gagnrýni fremur en önnur verkfæri. Bechdelstaðallinn, eða -prófið eftir því hvað hver kýs að nefna það, er eitt þeirra.

Bechdelstaðalinn setti Alison Bechdel fram í teiknimyndasögu sinni Dykes to Watch Out For, og honum er ætlað að mæla ásættanlegt kynjahlutfall í kvikmyndum, en hann er raunar jafnhentugur mælikvarði á bókmenntir ef út í það er farið. Bechdelstaðallinn er tveggja gilda mælikvarði, sem getur verið eins mikill kostur og það getur verið galli; allt fer það eftir því hvað mæla skal. Staðallinn sem prófa má eftir felst í þrem einföldum liðum. Kvikmynd skal hafa til að bera:

1. tvær (nafngreindar) kvenpersónur
2. sem tala saman
3. um eitthvað annað en karlmenn.

Sumpart getur Bechdelstaðallinn verið ósanngjarn eftir tilvikum. Til að mynda væri ekki beinlínis sanngjarnt að meta Bréf til Láru eftir Þórberg Þórðarson á forsendum Alison Bechdel þar sem bókin er í reynd sendibréf frá einum aðila til annars (og raunar má finna óvænta feminíska vinkla í bókinni sem Bechdelstaðallinn mælir ekki, einsog nánar verður vikið að í væntanlegum pistli). Þá var mér bent á þegar ég fjallaði fyrst um staðalinn að Alienmyndirnar með Sigourney Weaver standast til dæmis ekki staðalinn, enda þótt í þeim sé gríðarlega sterk kvenpersóna, einfaldlega vegna þess að hún er í reynd eina kvenpersónan í þeim sem tjáir sig að ráði og skipta kringumstæður sögurammans þá ef til vill meira máli. Þá eru sjálfsagt ýmsir til sem álíta staðalinn óþarfa leik að stráum sem fremur hallar máli en að raunverulegur halli sé mældur.

Hinsvegar er því ekki að neita að merkilega margar kvikmyndir og bækur standast ekki þetta einfalda próf, ekki síður þær sem gefa sig út fyrir að vera feminískar á einn eða annan hátt (t.d. sjónvarpsþættirnir og kvikmyndirnar Sex & the City). Hér má sjá statistík yfir þær myndir sem hafa verið skoðaðar með tilliti til Bechdelstaðalsins, að því gefnu að sjálfsögðu að hann mælir ekki allt; hann er aðeins eitt tól af mörgum mögulegum.

Þetta einfalda próf, þótt ófullkomið sé, segir margt um þau (á stundum lítt) duldu viðhorf til kvenna sem finnast innan dægurmenningarinnar, rétt einsog samfélagsgerðarinnar sjálfrar, og eins einfalt og það er eru niðurstöðurnar eftir sem áður sláandi. Staðlaðar kynjamyndir eru einfaldlega nokkuð sem margir leiða hugann ekki sérstaklega að, hvort sem er í kvikmyndum, bókmenntum eða í daglegu lífi.

Til þess er pistillinn skrifaður að hvetja lesendur til að prófa sjálfir að líta kvikmyndir og bókmenntir gagnrýnum augum, og Bechdelstaðallinn er ágætur staður til að byrja. Þótt honum sé aðallega beitt af kímni er nefnilega ótrúlegt hversu margt afþreyingarefnið kolfellur á jafn einföldu prófi. Ekki væri heldur leiðinlegt ef í framtíðinni fylgdi einkunn í Bechdelum með almennum dómum í dagblöðum og vefmiðlum: staðið eða fallið.

Þá má til gamans benda á þetta skemmtilega flæðirit, sem einnig býður upp á sniðugan greiningarmöguleika, en ég því miður veit ekki hver er höfundur að.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.