Feitir rassar syngja illa

Höfundur: Helga Þórey Jónsdóttir

women are from earthAnita Sarkeesian, sem heldur úti vefnum www.feministfrequency.com, hefur bent á litla viðleitni bandarískra fjölmiðla til að fjalla um konur í samhengi við málefni og réttindi og ríka tilhneigingu þeirra til að líta á konur sem hluti og skemmtiefni. Hún bendir til dæmis á það hvernig fjölmiðlar sem eiga að heita málefnalegir eins og til dæmis The Huffington Post, flytja dágott magn frétta með myndum af kvenlíkömum framsettum til þess að horfa á.

Ég velti því oft fyrir mér hvernig þessum málum er háttað á Íslandi og skoða fjölmiðla mjög mikið. Fyrir þá sem þekkja til fjölmiðla hér á landi ætti það að vera nokkuð ljóst að þótt kvenréttindamál séu nægilega umdeild til að draga að marga lesendur þá hafa þau ekki beinlínis notið mikillar hylli innan íslenskra fjölmiðla. Vissulega eru fluttar fréttir af nýjustu rannsóknum sem varða málefni kynjanna og þar fram eftir götunum en það er ekki hægt að segja að málefnum kvenna sé sinnt sérstaklega að öðru leyti en að tilraunir til femínískrar gagnrýni á samfélagið eru hæddar í athugasemdakerfum DV og Eyjunnar.

Til að bæta gráu ofan á svart er ein tegund frétta af konum sérlega vinsæl og má finna á mjög mörgum miðlum. Það eru fréttir af líkömum kvenna. Samkvæmt mbl.is er Christina Aguilera svo feit að það er ekki hlustandi á hana syngja og Fréttablaðið sá nýverið ástæðu til að fjalla sérstaklega um að Lindsay Lohan ætlaði að sitja fyrir nakin í Playboy. Ég veit að einhverstaðar í einhverjum heimi telst það frétt en er í alvöru ekki hægt að skrifa samt um eitthvað annað? Er hugmyndaflugið virkilega ekki meira en þetta? Vita blaðamenn ekki um neitt meira spennandi sem konur eru að gera og hægt er að skrifa um á menningarsíðum blaða og annarra miðla?

Hvað gerir það að verkum að starfsmönnum og ritstjórum fjölmiðla þykir þetta í lagi? Frá femínísku sjónarmiði er þetta dæmi um hvernig konur eru hlutgerðar og sviptar hlutverki sínu, persónuleika og skoðunum. Frá almennum mannúðarsjónarmiðum er þetta líka fáránlegt. Af hverju er Christina Aguilera gerð að athlægi fyrir lesendur? Er það af því að hún er fræg? Er það af því að hún hefur fitnað? Þurfum við þá ekki að sýna henni virðingu lengur?

Ég óska eftir því að fjölmiðlar sýni þá viðleitni að hætta að flytja rætnar fréttir af konum og fréttir sem ganga eingöngu út á að fjalla um þær sem líkamleg fyrirbæri. Christina Aguilera hlýtur að hafa gefið út nógu margar plötur til þess að hægt sé að fjalla um tónlistina hennar en ekki rassinn á henni eða í hvaða föt hann var klæddur.

Það væri ánægjulegt að sjá aðeins meiri viðleitni. Það er alveg nógu skítt að skoða fréttamiðlana og finna alltof fáar fréttir um konur og málefni kvenna til þess að ofan á það bætist ekki að þær fáu fréttir sem fjalla um konur sýni þær sem líkamleg fyrirbæri sem má hlæja að standist þær ekki ströngustu kröfur Mörtu Maríu í Smartlandi. Konur eru ekki hlutir fyrir aðra til að dást að, konur eru persónur sem gegna hlutverki og hafa skoðanir. Það væri mun auðveldara fyrir fólk að skilja að konur eru vitsmunaverur ef fjölmiðlar hysjuðu upp um sig buxurnar og sýndu fordæmi.

Ein athugasemd við “Feitir rassar syngja illa

  1. Bakvísun: Stúlkur í neyð í tölvuleikjum, 2. hluti | *knúz*

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.