Mikið ertu mjó í dag!

Þýðandi: Kristín Vilhjálmsdóttir

Þegar við hittum vini, samstarfsmenn, fjölskyldumeðlimi eða kunningja sem greinilega hafa grennst erum við gjörn á að segja: „Þú hefur grennst! Mikið líturðu vel út!” Í rauninni eru það eðlileg viðbrögð.
Yfirleitt eru svona athugasemdir vel meintar. Við erum innilega ánægð fyrir þeirra hönd, við viljum sýna að tekið sé eftir því að þeir hafi lagt mikið á sig og eigi skilið viðurkenningu. Mig langar hins vegar að benda á eitt, sem gæti virst umdeilanlegt: Við ættum að hugsa okkur um áður en höfum orð á miklu þyngdartapi eða hrósum fólki fyrir það.

En af hverju?

Í fyrsta lagi vitum við ekki alltaf hvernig eða hvers vegna viðkomandi manneskja tapaði þeirri þyngd sem við erum að hrósa henni eða honum fyrir. Ástæðan getur verið óviðráðanlegar aðstæður eins og ástvinamissir eða ólæknandi sjúkdómur, en jafnvel þótt það sé ekki orsökin getum við aldrei verið viss um hvað raunverulega orsakaði þyngdartapið.

Stundum bendir þyngdartap til átröskunar og/eða óheilbrigðrar líkamsímyndar, jafnvel oftar en við gerum okkur grein fyrir. Þegar við hrósum fólki sem hefur grennst af völdum slíkra sjúkdóma er það eins og olía á eld. Að mati samtakanna National Eating Disorders Association stríða tíu milljónir kvenna og ein milljón karla [í Ameríku] við anorexíu og/eða búlimíu. Líklegt er að fleiri milljónir stríði við þessa sjúkdóma á laun þar sem þeim sem glíma við átraskanir, einkum búlimíu, hættir til að fela hegðun sína fyrir öðrum.

Spurningin er því sú þegar við hrósum fólki hátt og snjallt fyrir þyngdartap (sérstaklega ungum konum/stúlkum) hvort við séum að hrósa viðkomandi fyrir jafnvægi og heilbrigt viðhorf til lífsins eða hvort við séum hrósa manneskju sem stendur frammi fyrir röskun á geðheilbrigði? Gerum við þau mistök að hvetja hana til að halda áfram á braut sem hefur gert henni kleift að léttast, en mun jafnframt draga hana til dauða ef það uppgötvast ekki?

En þetta á ekki bara við fólk með sjúkdómsgreiningu. Ótrúlega óheilbrigðum líkamsímyndum rignir stöðugt yfir konur í fjölmiðlum og þótt manneskja gangi ekki svo langt að stunda ofát, kasta upp eða svelta sig merkir það ekki að við eigum ekki að staldra við þegar þyngdartap er annars vegar.
Okkur finnst það jaðra við ókurteisi að segja ekkert ef fólk grennist, líkt og að með því séum við ekki að viðurkenna dugnað þess. Við höldum að fólk hafi losað sig við sársaukann sem fylgdi aukakílóunum í fortíðinni, að það lifi í nútíðinni, þegar hið gagnstæða er oft raunin.

Ég er ekki að segja að við eigum aldrei að hrósa fólki fyrir að vera aðlaðandi – enda get ég ekki fullyrt hverju fólk þarf eða þarf ekki á að halda. Sumt fólk sem hefur grennst þrífst virkilega á hrósi og jákvæðri athygli. En við þurfum að meta hvort við erum að hrósa þeim sem við höfum aldrei hrósað áður og hvort hrósið gefur í skyn að þyngdartapið geri þá allt í einu að betri og réttmætari einstaklingum. Hvort við séum með því að gera þá verðuga, gefa þeim leyfi til þess að vera normal eða að samþykkja að þeir séu normal.

Ég er ekki að halda því fram að fólk kæri sig ekki um athygli og hvatningu. Ég vil bara benda á að það er hættulegt að nálgast alla með sama hætti og að hæla öðrum á þennan hátt sem okkur hefur verið kennt. Þyngdartap er ekki „one size fits all“ og viðbrögð okkar eiga heldur ekki að vera það. Við vitum í rauninni ekki hvað er að baki og komumst kannski aldrei að því. Við skulum byrja á því að spyrja okkur hvort viðkomandi hafi gefið færi á því að ræða einkamál af þessu tagi. Yfirleitt er svarið „nei“.

Við segjum „Þú ert svo falleg“ við manneskju sem við höfum aldrei sagt neitt slíkt við áður, en hvað gerist svo ef hún bætir aftur á sig líkt og gerist í mörgum tilfellum? Þegar við notum orðið fallegur um grennri líkamsvöxt fólks, hvernig á það að verjast þeirri hugsun að okkur þyki það ekki lengur aðlaðandi ef það þyngist á ný? Er fólk ekki lengur fallegt þegar líkami þess hættir að vera spengilegur?

Þýdd og stytt útgáfa af Think Twice Before You Praise Someone For Losing Weight.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.