Prinsessan og drekinn

Höfundur : Kristín Jónsdóttir

Leiðari DV, þann 11. nóvember síðastliðinn, er kveðja til Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og um leið stutt yfirlit yfir stjórnmálaferil hennar, nú þegar hún er farin að vinna á alþjóðavettvangi í Afganistan.
Ekki er undirritaðri ljóst hvort í þessari kveðju felist einhvers konar léttir, farðu og komdu aldrei aftur, eða hvort þetta eru í alvörunni einhvers konar hugheilar kveðjur til hennar með þökkum fyrir allt. Í fljótu bragði hallast ég þó frekar að síðari tilgátunni, en að ritarinn hafi bara opinberað taktleysi sitt og fallið í fúlan pytt karlrembunnar, alveg óvart.
Því þessi söguskýring, þar sem notuð er myndhverfing um prinsessu sem er klófest af dreka, er ekkert annað en karlremba af verstu sort. Það dugar leiðarahöfundi ekki að stimpla Ingibjörgu Sólrúnu bara konu (eða stelpu, sem annars er ansi kunnuglegt þema í umfjöllun um konur í pólitík), sem væri í sjálfu sér nóg til að vekja upp í mér pirring, nei, hún er sko prinsessa! Sumir gætu haldið að það færi minna í taugarnar á mér að hefðartitli var skellt á hana, en nei, prinsessuvæðing kvenna (og stelpna) er einmitt ein af verstu birtingarmyndum þess hvernig kerfisbundið er talað niður til kvenna sem eitthvað hafa afrekað.

Ég skil reyndar ekki af hverju það þarf enn að skilgreina Ingibjörgu Sólrúnu út frá kyni hennar. Nú finnst einhverjum ég eflaust tala gegn eigin sannfæringu, því ég hef opinberlega lýst yfir vilja til þess hafa gætur á kynjahlutfalli í stjórnmálum, í fjölmiðlum og í stjórnun fyrirtækja, sem og annars staðar. En málið er að Ingibjörg Sólrún, sem, eins og leiðarinn rekur reyndar ágætlega, náði miklum frama og árangri í stjórnmálum, ætti að geta verið laus undan kyngreiningunni, þegar talað er um hana eina og sér. Hún ætti að vera orðin nógu mikilvæg persóna í sögunni til að þurfa hvorki að vera kona, stelpa né prinsessa. Ingibjörg Sólrún var að minnsta kosti jafningi karlanna sem hún starfaði með, ef ekki eitthvað miklu meira en þeir. Þessi leiðari virðist bera ákveðna virðingu fyrir frama hennar, og þess vegna er þessi prinsessumyndhverfing í hæsta máta óviðeigandi.

Ekki er farið út í djúpa greiningu á því hvers vegna ferill Ingibjargar fór eins og hann fór, enda er leiðari dagblaðs kannski ekki vettvangur til þess. En það er mjög lasburða skýring að dreki hafi bara klófest hana. Ef við viljum prófa að halda okkur við sama myndmálið, hefði ekki hugsanlega mátt skoða það að Ingibjörg Sólrún hafi verið illvígur dreki, sem prinsessan Geir náði dularfullu sambandi við? Mér finnst sú saga mun meira djúsí og frumleg! Allir sjá að þetta er fáránlegt, en það er það í báðar áttir.

Ég endurtek, til öryggis, það sem ég segi í upphafi, ég held að leiðarahöfundur hafi ekki hugsað málið, heldur skrifað þetta svo til ósjálfrátt. Mér finnst bara hundfúlt að hann hafi ekki séð hvað þetta er lélegt og lítilsvirðandi áður en leiðarinn var birtur.

Það er sífellt verið að benda á hvað betur má fara í orðavali og málnotkun í fjölmiðlum, en einhverra hluta vegna virðast blaðamenn eiga afar erfitt með að taka þetta til sín. Fólk sem hefur barist fyrir réttindum trans-fólks rekur sig sí og æ á að orðið kynskipti, sem lengi hefur verið beðið um að hverfi úr málinu, sé enn notað. Ég hef áður farið yfir misræmi í orðanotkun þegar talað er um nauðganir á körlum og meintar nauðganir á konum (og Hildur Lilliendahl hefur bent á þetta ósamræmi í enn víðara samhengi, til dæmis hér). Það er lágmarkskrafa á blaðamenn, að þeir vandi orðaval sitt og séu meðvitaðir um valdið sem felst í skrifum þeirra.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.