Killing Us Softly …

Höfundur: Gísli Ásgeirsson


Manilow að Fjallabaki


Á löngum gönguferðum gerir fólk sitthvað sér til dundurs. Oft er gengið tímunum saman milli áfangastaða og þótt landslag sé fallegt í flestum myndum, verður fleira til að stytta manni stundir. Í þessari tilteknu ferð sem hér er rifjuð upp vorum við þrjú saman og komin á það stig að fátt var mælt í alvöru, nema þegar örnefni voru þulin upp og rætt um lengd nestisstoppa. Ferðafélagar mínir urðu því fyrir barðinu á lævíslegum hrekk, án þess að fá nokkuð við ráðið. Til að lesendur njóti hans og læri, þarf að kynna forsöguna.

Allir kannast við tónlistarmanninn geðþekka, Barry Manilow, sem er sagður minna á góðlátlega sauðkind í framan. Skiptar skoðanir eru um gæði laga hans og söngs en þeir sem vilja ekki viðurkenna áhuga sinn á tónlist Barrys, en kunna samt mörg laga hans, eru sagðir haldnir Manilow-heilkenni. Ástæðan er að lög Manilows læðast inn í undirvitundina og sitja þar eins og tyggjóklessur á rúmgafli. Það tekur því ekki að hreinsa þau burt, heldur verður að bíða í von um að þau gleymist. En það er hægara sagt en gert.

Tommy Sands

Þessi Fjallabakshrekkur sem minnst var á, fólst í því að í upphafi ferðar nefndi ég það við ferðafélaga mína að fyrsti eiginmaður Nancy Sinatra væri Tommy nokkur Sands. Þetta las ég í Æskunni 1963. Í hádegisstoppinu var Tommy aftur komið á framfæri yfir flatkökum og kakói. Um kvöldið spurði ég hver hefði verið fyrsti eiginmaður Nancy Sinatra. Svarið kom greiðlega.

Á hverjum degi var síðan spurt um Tommy og alltaf voru svörin jákvæð nema síðasta daginn þar sem ferðafélagar mínir liðu líkamlegar kvalir yfir að vita þennan fróðleiksmola og kvörtuðu sáran yfir þessum óþarfa sem hafði verið troðið í þá. En þeir voru álíka mikil fórnarlömb árása á undirvitundina og flestir sem hafa auglýsingar fyrir augunum nær alla daga ársins í einhverjum myndum. Heilkennið er ólæknandi en hægt að halda því niðri með heilbrigðri skynsemi.

Konur og auglýsingar

Víkur þá sögunni að Jean Kilbourne, rithöfundi og fræðikonu sem hefur hlotið alþjóðlegar viðurkenningar fyrir rannsóknir sínar á ímynd kvenna í auglýsingum. Frá byrjun sjöunda áratugarins hefur hún rýnt í auglýsingar og sýnt fram á ótal dæmi úr sjónvarpi og prentmiðlum um hvernig konur og líkami kvenna eða ýmsir hlutar kvenlíkamans eru notaðir til að selja alls kyns vörur. Hún er sérfræðingur í auglýsingalæsi og hefur bent á ótal dæmi um hlutgervingu kvenna í auglýsingum, hvernig hlutgervingin viðheldur kynjamisrétti og getur stuðlað að ofbeldi gegn konum. Nefna má sem dæmi að: „ … karlar sem höfðu horft á auglýsingu með kynýktri konu [voru] karlrembulegri og kynferðislegri í framkomu við raunverulega konu sem þeir tóku viðtal við eftir á en þeir sem höfðu séð venjulega konu í auglýsingu (Rudman & Borgida, 1995).“ (Heimild: http://kaffikerla.blogspot.com/)

Árið 1979 var fyrirlestur Jean Kilbourne festur á filmu undir heitinu Killing Us Softly. Þetta myndband og síðari og lengri útgáfur þess er að finna á Youtube og nýjasta útgáfan, Killing Us Softly 4, er sú lengsta og ítarlegasta. Hún er í tveimur hlutum:

Killing Us Softly Fyrri hluti 23 mínútur.


Killing Us Softly Seinni hluti: 22 mínútur.


Það er vel þess virði að gefa sér 45 mínútur til að horfa á þessi myndbönd. Þau eru með skjátexta og því ætti ekkert orð að fara í súginn. Í fyrri hlutanum segir Jean Kilbourne meðal annars þetta:

„Auglýsingar selja ekki bara vörur. Þær selja lífsgildi, ímyndir, hugmyndir um ást og kynþokka, velgengni og kannski það sem skiptir mestu máli – eðlilegt ástand. Að miklu leyti segja auglýsingar okkur hver við erum og hvernig við ættum að vera.

Hvað segja auglýsingar okkur um konur? Eins og ævinlega að útlitið skiptir mestu máli. Auglýsendur kappkosta því að sýna okkur hina fullkomnu kvenlegu fegurð. Konur læra mjög snemma að við verðum að eyða gífurlegum tíma, orku og umfram allt peningum í að reyna að ná þessu útliti og finna til skammar og sektarkenndar þegar það tekst ekki. Það er óumflýjanlegt því hugmyndin byggist á algeru gallaleysi. Konan er aldrei með línur eða hrukkur, alls engin ör eða bletti og hún hefur engar svitaholur. Og það mikilvægasta við þetta gallaleysi er að því verður aldrei náð, engin lítur svona út, ekki einu sinni konan í auglýsingunni; og þetta er sannleikurinn. Engin lítur svona út …“

Öllu gamni fylgir nokkur alvara. Hrekkurinn sem nefndur var í upphafi er ágætis skemmtun á aðventunni og vel þess virði að athuga hve langt er hægt að ganga án þess að angra beinlínis samferðafólk sitt.

Hvað heitir annars fyrsti eiginmaður Nancy Sinatra?

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.