Við erum ekki vélar, við erum ekki náttúruauðlindir

Höfundur greinarinnar er Kajsa Ekis Ekman, blaðakona og femínisti. Kajsa gaf út bókina Varat och varan – prostitution, surrogatmödraskap och den delade människan sumarið 2010 þegar umræða um lögleiðingu staðgöngumæðrunar stóð sem hæst í Svíþjóð. Í bókinni fjallar hún um vændi og staðgöngumæðrum. Greinin sem hér fer á eftir birtist í feminíska tímaritinu BANG í september 2010. Drífa Snædal þýddi.

Jenny Westerstrand, fræðikona á sviði kvenfrelsis, lét eitt sinn hafa eftir sér: Þegar hin nýja, fullkoma manneskja verður sköpuð í Svíþjóð, hafðu varann á þér gagnvart læknum með skurðarhnífa. Við reynum ítrekað að leiðrétta samfélagsleg vandamál á tilraunastofum, allt frá ófrjósemisaðgerðum til fegrunaraðgerða. Í hvert sinn er aðgerðin réttlætt með því að verið sé að leysa vandamál sem á sér samfélagslegar rætur: fátækt, fegrunarímyndir eða aldursmismunun.

Nú er komin ný rannsóknarstofulausn – staðgöngumæðrun. Hugmyndin er að lausnin á barnleysi, bæði hjá gagnkynhneigðum og samkynhneigðum, sé sú að konur bjóði fram krafta sina, gangi í gegnum tæknifrjóvgun, ali barn og afhendi það svo öðrum. Þá geta allir fengið afkvæmi án þess að þurfa að deila forsjánni með móðurinni. Hvernig getur það verið annað en jákvætt að aðstoða barnlaust fólk að láta draumana rætast? 



Ég hef rannsakað staðgöngumæðrun síðustu fjögur árin og ætla að segja frá því hvað raunverulega gerist og útskýra af hverju ég er andvíg því að leyfa staðgöngumæðrun. 



Söluvara


Óléttuviðskipti eiga rætur að rekja til Bandaríkjanna á áttunda áratug síðustu aldar. Karlar sem áttu ófrjóar konur fóru að auglýsa eftir konum sem væru til í að ala þeim barn gegn greiðslu. Þessar konur voru frjóvgaðar með sæði mannsins og karlarnir ættleiddu síðan eigið barn. Fljótlega fóru umboðsmenn að koma á samböndum milli barnlausra hjóna og ungra frjórra kvenna og upp úr þessu spratt blómlegur markaður. Vel stæð pör voru tilbúin til að borga háar fjárhæðir fyrir barn sem bar erfðaefni föðurins. Með tíð og tíma fóru aðrir hópar að nýta sér þennan möguleika: Einhleypir karlar, samkynhneigðir karlar og konur sem voru komnar af barneignaraldri eða kusu að ganga ekki sjálfar með barn. Í dag er staðgöngumæðrun alþjóðlegur iðnaður, þar sem fátækar konur í þróunarlöndum og lágstéttarkonur á Vesturlöndum eru notaðar til undaneldis fyrir þá ríkari.

Þegar staðgöngumæðrun ruddi sér til rúms í Bandaríkjunum og Englandi fóru Bretar og Bandaríkjamenn að leita til Indlands og Úkraínu. Tilgangur þess að flytja iðnaðinn til þróunarlanda var, fyrir utan lægra verð, að komast hjá forræðisdeilum. Hið fræga mál Baby M, þar sem amerískri konu snérist hugur og hún vildi halda barninu, varð til þess að kröfur jukust um að konur fengju ekki langan umþóttunartíma til að halda barninu.

Á Indlandi var þessum kröfum mætt með lagabreytingu.

Óléttuiðnaðurinn


Á Indlandi eru samskipti fólks við staðgöngumóðurina varla meiri en milli þess sem kaupir gemsa og verkamannsins sem framleiðir hann. Fólkið hittist oft bara í eitt skipti í upphafi ferlisins og jafnvel ekki einu sinni þá. Öll umsvif fara í gegnum heilsugæsluna. Staðgöngumóðirin veit jafnvel ekki í hvaða landi barnið sem hún ber undir belti mun alast upp og upplýsingum er ekki alltaf haldið til haga, sem gerir barninu erfiðar fyrir við að leita uppruna síns síðar meir ef svo ber undir.

Amrita Pande frá Háskólanum í Massachusetts hefur rannsakað iðnaðinn í kringum staðgöngumæðrun í Indlandi mest allra. Pande á ættir að rekja til Indlands og dvaldi á heilsugæslu í Gujarat í níu mánuði þar sem hún tók 42 djúpviðtöl við staðgöngumæður. Hún segir frá konum sem töluðu ekki ensku og skildu ekki smáatriðin í samningunum, sem allir voru á ensku. Þessar konur höfðu jafnvel verið kúgaðar af mönnum sínum til að verða staðgöngumæður og voru fullkomlega réttlausar, án peninga og lögfræðiaðstoðar. Þar sem Indland leyfir aðeins staðgöngumæðrun þar sem egg annarrar konu en staðgöngumóðurinnar er notað þarf hún að þola stífa hormónameðferð til að undirbúa líkamann fyrir utanaðkomandi egg.

Staðgöngumóðirin Gauri segir að enginn hafi varað hana við þessu:

Það eina sem mér var sagt þegar ég kom var að þetta væri ekki siðferðislega rangt, ég þyrfti ekki að sofa hjá neinum og sæðinu yrði sprautað inn í mig. Þau sögðu líka að ég þyrfti að halda fóstrinu alla meðgönguna, taka lyf á tilsettum tíma og láta barnið frá mér við fæðingu. Við fáum lítið að vita um lyfin og sprauturnar sem við fáum. Í upphafi fékk ég tugi sprauta sem var verulega vont, auk þess tók ég lyf til að styrkja mig fyrir meðgönguna. Við [hún og maðurinn hennar] erum ekki jafn menntuð og þið. Ég veit eiginlega ekki mikið meir og ég treysti lækninum svo ég spyr lítils.

Konurnar búa á íbúðahóteli alla meðgönguna. Samkvæmt samningnum geta kaupendurnir krafist þess að þær fari í læknisskoðun – og í kjölfarið í fóstureyðingu ef það kemur í ljós að viðkomandi gengur með tvíbura. Þetta var nýlega staðfest í indverskum lögum þar sem læknirinn, en ekki konan, fer með ákvörðunarvaldið um fóstureyðingu við staðgöngumæðrun.

Lífi hinna óléttu kvenna er stjórnað algerlega. Í landi þar sem mæðravernd er varla til fyrir fátækar konur er farið með staðgöngumæðurnar eins og væru þær gerðar úr gleri. Arlie Hochschild greinir frá því að konurnar sofa níu saman í einu herbergi, fá ekki að nota stiga og þurfa leyfi heilsugæslunnar til að yfirgefa hótelið.



Meðganga í velgjörðarskyni


Þegar greint er frá aðstæðum staðgöngumæðra sem eru verslunarvara og nánast hnepptar í þrældóm vilja margir meina að í Svíþjóð muni staðgöngumæðrun einungis vera leyfð í velgjörðarskyni og það sé allt annað mál. Engir peningar skipta um hendur heldur geri konur þetta af gæsku sinni. Slík staðgöngumæðrun er miklu manneskjulegri en sú sem er keypt. Konan þekkir viðkomandi par og fær jafnvel að hitta barnið við og við. Með því að draga upp andstæðurnar sem felast í hinni hamingjusömu staðgöngumæðrun annars vegar og þeirri sem viðgengst á Indlandi hins vegar á fólk að sannfærast um að staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni sé frábær lausn. Hættan við að stilla málum svona upp er sú sama og þegar vændi er stillt upp gagnvart mansali, kjarni málsins verður útundan í deilum um mismunandi blæbrigði.

Þess vegna er mikilvægt að ræða hugmyndafræðina sem að mínu mati fjallar einkum um tvennt:


1. Hverjum tilheyrir líkami konunnar? Henni eða öðrum?

2. Er hægt að skrifa undir afsal á börnum? (Þriðji punkturinn, sem ekki er hér til umræðu, er vandi þeirra barnlausu og hvort skynsamara sé að leysa slíkt með samfélagslegum aðgerðum í stað þess að láta markaðinn um lausnina.)


Fyrsta spurningin fjallar um líkama kvenna og yfirráð yfir honum og er náskyld umræðunni um vændi. Algeng rök fyrir vændi eru að það auðveldi fötluðum að stunda kynlíf – sem sagt fötluðum gagnkynhneigðum körlum. Það er litið svo á að kynlíf séu réttindi og konur eigi að tryggja mönnum slík réttindi. Hvort konurnar vilja sofa hjá mönnunum skiptir engu máli – þær eiga að mæta þeirra þörfum. Það er þversögn að fatlaðir karlar eru ekki helstu kaupendur vændis en fatlaðar konur eru hins vegar hlutfallslega margar í vændi. Þessi umræða um fötluðu mennina varpar ljósi á þá hugmynd að konur eigi að mæta kynhvötum annarra, en ekki eigin hvötum.

Sama er uppi á teningnum varðandi staðgöngumæðrun. Hér er hins vegar talað um einhleypa karla sem geta ekki eignast börn og stundum homma sem ekki fá að ættleiða. Þess vegna eiga konur að vera til taks og veita þeim börn án þess að mæta eigin kröfum. Mæðurnar fá ekki forræðið, þær eru ekki uppalendurnir og eru háðar því að mennirnir leyfi þeim að hitta barnið. Þessi rök standast varla því einhleypir karlar eru ekki þeir sem helst nýta staðgöngumæðrun og hommar eru í miklum minnihluta. Flestir sem nýta staðgöngumæðrun eru barnlaus gagnkynhneigð pör. Þá er varla hægt að halda því fram að það sé hlutverk kvenna að lána þeim líkama sinn sem ekki geta átt börn. Yxu börn á trjám væri mögulega hægt að tala um þau mannréttindi að eiga börn. Því er hins vegar ekki að heilsa. Börn eru alin af konum. Við göngum með þau í níu mánuði, við finnum fóstrin vaxa, við eigum það á hættu að fá meðgöngueitrun og aðra kvilla, líkamar okkar og sál breytast í ferlinu – svo ekki sé talað um sjálfa fæðinguna.

Rétturinn til barna er nátengdur réttinum til að nýta líkama kvenna til eigin þarfa. Svo einfalt er það. Slík réttindi mega aldrei festast í sessi því þá erum við að breyta líkama kvenna í verkfæri karla. Með staðgöngumæðrun smættum við konur í geymslurými, kynfæri, námu fyrir aðra til að grafa í og greiða fyrir með smáaurum. Í þessu skyni skiptir engu máli hvaða tilfinningarök eru notuð, eða hvaða fyrirmyndir eru kynntar til sögunnar. Þetta fjallar þegar allt kemur til alls um hvort nýta megi líkama kvenna til að fullnægja þörfum annarra. Eins og konur séu ekki manneskjur heldur náttúruauðlindir.

Önnur spurningin fjallar um barnið sjálft og er að því leyti annars eðlis en vændisumræðan. Hér fjallar þetta ekki bara um kaupendur og seljendur heldur um þriðja aðila, barnið. Þegar meðganga er viðskipti verður barnið að varningi. Nokkur þúsund dalir skipta um hendur þegar móðirin lætur barnið frá sér en jafnvel þótt peningar séu ekki í spilinu er þetta viðhorf til barna óeðlilegt. Það verður í lagi að undirrita samning um eignaskipti á barni. Þess ber að geta að það er óheimilt samkvæmt lögum að gefa börn. (Hér ber að hafa í huga að ekki er um að ræða sæði eða egg heldur lifandi börn.) Ef foreldrar eru ófærir um að ala upp barn þá fer það til fósturfjölskyldu og er stundum ættleitt, en það er óheimilt að afsala sér barni án ástæðu. Ef staðgöngumæðrun er gerð lögleg verður breyting þarna á, það verður gert leyfilegt að gefa barn, jafnvel þótt konan sem elur það sé fullfær um að sjá um barnið. Án þess að barnið hafi nokkuð um það að segja er farið með það eins og eign þótt peningar skipti ekki um hendur.



Það sem veldur mér áhyggjum er hlutgerving manneskjunnar, bæði konunnar og barnsins. Að farið sé með bæði sem nytjahluti fyrir aðra en ekki sem manneskjur með sjálfstæðan rétt.

Hin fullkomna hlutgerving


Innan marxismans er þetta kallað hlutgerving (reification), þ.e. þegar manneskja lítur ekki á sjálfa sig sem eina heild heldur gengst inn í ákveðið hlutverk sem einstaklingur sem býr yfir einhverri ákveðinni virkni. Samkvæmt ungverska marxistanum Georg Lukács, sem þróaði hugtakið 1928, er hlutgerving eitthvað sem gerist í síðkapítalísku samfélagi þegar hinn frjálsi verkamaður verður til á hinum frjálsa markaði. Annars vegar er hinn frjálsi einstaklingur en hins vegar hinn frjálsi verkamaður sem á vinnuaflið sitt eins og hverja aðra eign. Hann byrjar að líta á hæfileika sína – styrk, greind og þekkingu – sem virkni sem má selja. Með því að hugsa um sjálfan sig sem hlut sem býr yfir hæfileikum sem eru söluvara, fjarlægist viðkomandi ekki aðeins samfélagið heldur sjálfan sig líka sem manneskju.

Samkvæmt marxískum fræðum hlutgerir vinnan manneskjuna. Það er hins vegar eitt að selja starfskrafta sína og allt annað að selja það sem beinlínis gerir þig að manneskju, líkama þinn og frjóvgunarmöguleika. Þetta verður greinilegt í vændi þar sem manneskjur þurfa að aftengja sjálfar sig til halda það út. Til að lifa af vændi þarf að líta á kynlíf sem virkni sem er aðskilin frá sjálfinu. Koma sér upp tvöföldum persónuleika, taka dóp til að loka á sjálfa sig og líta á líkamann sem hlut og söluvöru.


Hið sama er uppi á teningnum í staðgöngumæðrun. Þar verður konan að hlutgera fóstrið sem hún ber undir belti og er samt hluti af henni sjálfri. Hún verður að aftengjast því tifinningalega því annars veldur það henni þjáningum. Hún verður að aftengja legið sjálfri sér, eða eins og þrítug staðgöngumóðir segir frá:

Að vera staðgöngumóðir felur í sér að taka ákveðna afstöðu. Börnin eru ekki þín og hafa aldrei verið. Þú getur ekki gert tilkall til þeirra og ég er meðvituð um hlutverk mitt. Ég er bara barnapía fyrir hina frábæru vinkonu mína T. Þetta er hennar barn og ég bara gæti þess þangað til það fæðist.


Það er sennilega vandfundin betri lýsing á hlutgervingu: móðir sem ber barn undir belti er orðin að barnapíu. Þessari afstöðu er hampað af þeim sem berjast fyrir lögleiðingu staðgöngumæðrunar. Formaður RFSL (Sambærilegt við samtökin 78) í Svíþjóð, Ulrika Westerlund, vill meina að staðgöngumæður eiga ekki í nokkrum vandræðum með að láta börnin af hendi. Að hennar mati er það mælikvarði á velgengni staðgöngumæðrunar. Fyrir mér er það mælikvarði hins gagnstæða. Að koma sér upp aðferðum til að aftengja líkaman frá sjálfinu getur ekki verið heilbrigt. Það að auki gleymir Westerlund að segja frá því að þessi aftenging er ekki eðlileg eða náttúruleg – aftengingin er lærð hegðun. Á Indlandi, til dæmis, er konunum kennt að aftengja sig frá líkamanum, eins og mannfræðingurinn Kalindi Vora segir frá:

Markmiðið er að koma konunum í skilning um að staðgöngumæðrun hefur ekki áhrif á þær sem kynverur og hvetja þær til að mynda fjarlægð frá fóstrinu og loks barninu. Með ráðgjöf og samtalsmeðferð eru þær hvattar til að líta á sig sem birgja og tenging þeirra við fóstrið er einungis að leigja út legið sitt.

Þær eru sem sagt ekki mæður heldur birgjar. Hversu heilbrigt er slíkt viðhorf? Til að þola slíkar aðstæður þarf kona að fjarlægja sjálfa sig frá aðstæðum og hlutgera líkama sinn og það barn sem hún ber undir belti. Annars verður staðan óbærileg. Að leyfa staðgöngumæðrun er að líta á konur sem vélar og geymslur.



Sjálf hef ég annað viðhorf. Ég tel bæði kynverund og meðgöngu vera persónubundna og að hún eigi að þjóna okkar eigin tilgangi. Kynlíf og meðganga á ekki að vera háð því að einhver annar óski þess, múti okkur til þess eða reyni að sannfæra okkur um að við betum gert heiminn betri með því að fórna líkömum okkar. Við eigum að stunda kynlíf af því okkur langar til þess og við eigum að verða óléttar af því okkur langar í barn. Annars skulum við sleppa því.

Er þetta einfalt mál? Nei. Látum við undan þrýstingi? Já, statt og stöðugt. Markmiðið á samt alltaf að vera hið sama, annars getum við jarðað jafnréttisbaráttuna strax. Er það ekki annars grunnurinn að jafnréttisbaráttunni – að konur eigi ekki að vera verkfæri í höndum annarra, hvort sem það eru feður, makar, Vatíkanið, einmana karlar, karlar með völd, valdalausir karlar eða ófrjóar konur? Við eigum að lifa kynlífi þegar við viljum sjálfar og eignast börn þegar við þess óskum. Við erum ekki vélar, við erum ekki náttúruauðlindir. Andstaðan við staðgöngumæðrun snýst einfaldlega um rétt okkar til að vera heilar manneskjur.

2 athugasemdir við “Við erum ekki vélar, við erum ekki náttúruauðlindir

  1. Bakvísun: Af kapítalisma, staðgöngumæðrun og vændi | Tuðið mitt

  2. Bakvísun: Femínískur áramótaannáll | *knúz*

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.