Höfundur: Mona Chollet, Kristín Jónsdóttir þýddi úr frönsku. Greinin birtist upphaflega 5. nóvember 2006 undir heitinu «Culte du corps», ou haine du corps? á vefritinu Périphéries. Hún birtist hér á Knúzinu í þremur hlutum.
„Á Vesturlöndum þarf ekki að greiða lögreglumönnum laun fyrir að neyða konur til hlýðni, það er nóg að dreifa myndum, og konur gera allt sem þær geta til að líkjast þeim.“ Fjölmiðlafárið í kringum megrunaræðið – sem fylgdi í kjölfarið á ákvörðun sýslumannsins í Madrid að banna of grönnum sýningarstúlkum að taka þátt í tískusýningum, minnti mig á þessa ögrandi staðhæfingu Fatema Mernissi, í bók hennar Kvennabúr Vesturlanda, sem ég skrifaði um á síðasta ári (Sortir du harem de la taille 38 [Að komast út úr kvennabúrinu „stærð 38“]). Þessi marokkóska fræðikona vitnar síðan í Beauty Myth eftir Naomi Wolf: „Þessi menningarbundna þrá eftir mjóum kvenlíkama tjáir ekki þrá eftir fegurð, heldur eftir hlýðni konunnar.“ Ákvörðun yfirvalda í Madrid var tekin eftir að Luisel Ramos, 22ja ára sýningarstúlka frá Úrúgvæ, lést baksviðs eftir tískusýningu. Faðir hennar bar að hún hefði ekki nærst á neinu nema salati og coke light mánuðum saman, og að tveimur vikum fyrir tískusýninguna hefði hún algerlega hætt að borða.

Karlmenn eru með tuttugu milljarða fitufruma, konur eru með tvisvar sinnum meira. Hvar eiga þær að fela þær?
Tímaritið Closer (25. september 2006) birti einnig stóra umfjöllun um málið (tjah, í Closer er stór umfjöllun alveg heil 5000 slög!). Yfirskriftin var „Að grennast til dauða“. En á forsíðunni mátti lesa, beint undir hinni: „Heilsa: flatur magi og stinnur bossi á 15 dögum“. Einhver á ritstjórninni hefur væntanlega tekið eftir því hvað þessar tvær fyrirsagnir stönguðust óþægilega á, og skipt orðinu „Megrun“ út fyrir „Heilsa“. Því innan í blaðinu var nánari kynning á efninu: „Æfingar, mataræði, ráð: öll bestu ráðin til að grennast fyrir neðan mitti“. „Það er ekki það sama, megrun og megrun,“ staðhæfði ristjórnargreinin. „Það er hægt að grennast með hollu mataræði. En svo er líka hægt að grenna sig með því að svelta sig, stofna heilsu sinni í hættu og gjalda jafnvel fyrir það með lífi sínu“. Málið er bara, að þegar hamrað er stöðugt á því að eina gilda takmark konunnar í lífinu sé að vera grönn, getur ekkert stöðvað hana í að beita allra ráða til að ná því. Ef það að vera stöðugt að hugsa um hvað maður setur ofan í sig dugar ekki til er ekki furða að konur hætti þá bara að borða, en í sérstöku megrunarblaði nú í vor mælti Elle með því að skrifa allt hjá sér í litla bók. (Athugið að ég ætla ekki að fjalla um anorexíu hér, því þó að sá sjúkdómur og megrunarþráhyggja eigi það til að skarast, er víst um tvennt ólíkt að ræða.)
Í Libération (29. september 2006) var fjallað um málið frá öðru sjónarhorni: Françoise-Marie Santucci sakar þá um hommahatur sem ýjað hafa að því að þessi magri, tvíkynja strákastelpulíkami sem haldið er á lofti í tískuheiminum komi frá samkynhneigðum fatahönnuðum: „Þarf kvenleiki endilega að felast í því að líta út eins og „kona“ með mjúkar línur og þrýstinn líkama?“ Algengt bragð, sem felst í að setja þann dómínerandi í fórnarlambsstöðu, sem sá sem er ógnað og er kúgaður. Vandamálið er, án þess að vilja eyðileggja alveg tálsýn blaðamanns Libération, að mikill meirihluti kvenna líta einmitt út eins og „konur“. Með því eru þær efalítið sekar um viðbjóðslegan tískuglæp, en þannig er það nú samt. Það má alveg – já, ég sekk enn dýpra í vúlgar líffræðitilvísun – minna á að karlar eru með tuttugu milljarða fitufruma, en konur eru með tvöfalt fleiri (sjá: Jean-Luc Hennig, Brève histoire des fesses [Stutt yfirlit yfir sögu rassa], Zulma). Og meðan fitufrumurnar safnast einkum utan um líffæri hjá karlmönnum, safnast þær aðallega undir húð kvenna, og jafnframt helst á mjaðmir og læri. Og hvar eiga þær að fela þær?
Eliette Abécassis: „Ég var annað hvort að breytast í hund, eða ég var ólétt.“
Françoise-Marie Santucci lýkur grein sinni á því að fagna nýju útspili tískuhönnuðarins Nicolas Ghesquière, hjá Balenciaga, sem „kemur með línu fyrir ofurmjóar konur í stærð 34, eins og Charlotte Gainsbourg og Maggie Cheung“. Hún fagnar einnig framtaki Hedi Slimane sem gerði það sama hjá Dior, nema fyrir karlmenn, sem „eru svo fínlegir að það væri hægt að rugla þeim saman við stelpur. Burt með fyrirframgefnar hugmyndir. Þessu ber að gleðjast yfir.“ Beinaberir slánar sem hið eina fagra mannlega form: afskaplega gleðilegt, já. Ég held í mér að hoppa ekki í sófanum, æpandi af hamingju einmitt núna. Málið er einfaldlega að hvort sem það eru áhrif frá kynhneigð hátískuhönnuða eða ekki, hvílir tískuheimurinn á ímynd kvenlíkama, sem er ekki í samræmi við raunveruleikann. Konur mega því ekki, ef þær vilja vera konur, vera eins og þær eru. Og það er einmitt þetta sem veldur því að fjölmargar konur efast stöðugt um sjálfar sig, þeim líður alltaf eins og þær fullnægi ekki skilyrðum og þetta tekur ómælda orku frá þeim. Jafnvel konur sem maður hefði haldið að létu ekki jafn hégómlegan heim ná tökum á sér, eins og til dæmis Eve Ensler, leikritaskáld og virkur femínisti til langs tíma, sem játar að vera upptekin af maga sínum sem er ekki nógu sléttur. Þessi svokallaða „tilbeiðsla líkamans“ er í raun ekkert annað en grimmilegt hatur á líkama sínum. Ég minni á hina fallegu greiningu Vincent Cespedes í Mélangeons-nous [Blöndumst] á upphafningu vöðvans á kostnað holdsins: „Að vera massaður, að vera stinnur, vöðvinn er ekki holdið sem maður býr við, heldur holdið sem maður á. Vöðvinn er hold sem flaksast ekki til, sem dempar ekki atlotin, snertinguna við annað hold. Vöðvinn er hold sem titrar ekki heldur spennist og slaknar, þenst eða dregst saman, verndar eða heggur frá sér. Vöðvinn er hið forboðna hold.“
Sú staðreynd að þessari svakalegu upphafningu granns líkama fylgi síðan upphafning móðurhlutverksins þvingar konur út í alls konar loftfimleika til að skjóta sér undan því að horfast í augu við dýrslegan og ó-glæsilegan raunveruleikann sem fylgir hinu síðarnefnda. Haustið 2005 kom út bókin Un heureux événement [Fjölgun í fjölskyldunni] hjá Albin Michel, eftir Eliette Abécassis, sem gekk fram af fólki með því að segja á (óvart) bráðfyndinn hátt frá tilfinningum sínum til þess að verða móðir. Hún hafði alltaf verið hugsandi Parísardama, sem, í gegnum beauvoir-ískan femínisma sinn hafði fremur lært að þrá að vera karl, en að vera ánægð með að vera kona. Bókina er hægt að súmmera upp í eina setningu: „Hvílíkur hryllingur. Þetta er ekki neitt í líkingu við það sem stendur í tímaritunum!“ Hún dregur upp skoplega mynd af sér, morgun einn við lok meðgöngunnar, með Le Deuxième sexe [Hitt kynið] á náttborðinu, að rembast við að rísa upp úr rúminu og detta síðan í gólfið með skelli: „Það var þá, sem ég sá sjálfa mig í speglinum: á fjórum fótum, með lafandi kinnar, dauflegt augnaráð, nasirnar þandar. Annað hvort var ég að breytast í hund, eða ég var ólétt.“
Bakvísun: Furðulegar paradísir – 3. hluti | *knùz*
Bakvísun: Furðulegar paradísir – 2. hluti | *knùz*