Kvenlíkaminn: tilbeiðsla eða hatur? (2. hluti)

Höfundur: Mona Chollet. Kristín Jónsdóttir þýddi úr frönsku. Greinin birtist upphaflega 5. nóvember 2006 undir heitinu «Culte du corps», ou haine du corps? á vefritinu Périphéries. Hún birtist hér á Knúzinu í þremur hlutum.

„Þessi hugmynd um líkamann sem mótanlegan, undir góðum vilja eiganda síns kominn, en um leið hlutgerðan, minnir á trúarbrögð.“ Gérard Apfeldorfer

Þessar breytingar á líkamanum, sem konan ræður ekki við, sem hún upplifir eins og að hún hafi misst stjórnina, vísa til hugmyndar um algert vald yfir líkamanum, sem einkennir vestræna nútímamenningu og sem geðlæknirinn Gérard Apfeldorfer segir vera tálsýn í greininni „La minceur ne fait pas le bonheur“ [Að vera grannur er ekki að vera hamingjusamur]: „Þessi hugmynd um líkamann sem mótanlegan, undir góðum vilja eiganda síns kominn, en um leið hlutgerðan, minnir á trúarbrögð, minnir á hugmyndina um djöfullegan og falskan líkama, sem er arfur frá áhangendum maníkeisma.“ Eliette Abécassis dásamar útlit sýningarstúlkunnar Audrey Marnay sem sat fyrir ólétt á forsíðu Elle: „Það var bara maginn sem stóð út í loftið, annars staðar var hún grönn.“ Eftir fæðinguna, þegar henni er sýnd dóttirin, bregður henni þegar þessi vera „svo langt frá bleika brosandi barninu sem ég bjóst við, hefur öll einkenni apa: loðin, skítug, fita og slím lak af henni, rauð og fjólublá, ekkert aðdráttarafl“. Hún lætur fylgja með að leikkonan Demi Moore hafi, með því að sitja nakin fyrir utan á Vanity Fair, gert jafnmikið fyrir frelsisbaráttu kvenna og Simone de Beauvoir, því hún hafi breytt þessum stóra maga sem fram að því var falinn, í „tískufylgihlut“. Vá! Furðuleg þessi þrjóska blinda í þessari konu sem rétt í þessu hafði einmitt uppgötvað að maginn hennar, og barnið sem var í honum, voru einmitt ekki tískufylgihlutir … Já, já, enn ein sem ekki hefur lesið Journal de la création (Nancy Huston, Actes Sud, París 1990), vesalings konan.

Portia de Rossi

En snúum okkur aftur að málinu sem er til umræðu nú. Eitt meginþema almennrar afneitunar birtist í þeirri skýringu að tískuheimurinn sé alveg sér á parti, láti fólk dreyma en hafi engin áhrif – eins og draumar séu bara eitthvað óraunverulegt fyrirbrigði og hafi engin áhrif. Í Elle þvertók forseti Félags franskra tískuhönnuða fyrir að toppmódel hefðu áhrif á ungt fólk: „Í dag hefur þetta vald færst yfir til leikkvenna.“ Líkt og sú aðgreining hafi einhverja merkingu nú til dags. En, allt í fína, tölum þá um leikkonur! Margar þeirra, Keira Knightley úr Pirates of the Caribean, Kate Bosworth, Teri Hatcher, Julianna Margulies o.s.frv. hafa nýlega komist í fréttir fyrir það að hafa grennst umtalsvert eftir að þær urðu frægar og fóru að vera meira í sviðsljósinu. Þegar þættirnir Ally Mc Beal voru hvað vinsælastir vóg leikkonan Portia de Rossi minna en 40 kíló, en hún er 1,73 m á hæð: „Ég leyfði mér ekki að innbyrða meira en 300 kaloríur á dag. Ég skrifaði allt sem ég borðaði í sérstaka dagbók. Allt var reiknað, hver möguleg aukahitaeining, til dæmis taldist með að hafa óvart gleypt smá tannkrem …“ (Úr viðtali við hana í Glamour). Áður en hún varð leikkona var hún fyrirsæta: „Ég var vön því að ókunnugir skoðuðu hvern sentimetra líkama míns og töluðu um hann eins og ég væri ekki á staðnum.“ Hún byrjaði þar með að halda í við sig, því hún vildi ekki að „viðskiptavinur gæti fundið eitthvað að líkama hennar“.

Ímyndin um fullkominn líkama treður sér inn í heilann án þess að við gerum okkur grein fyrir því og hefur áhrif á alla okkar skynjun, alla gagnrýna hugsun …

Hún komst út úr þessu og hefur svo til tvöfaldað þyngd sína á fjórum mánuðum: „Eftir að hafa verið svangur svona lengi nýtur líkami minn hvers munnbita. Ég ákvað að borða það sem ég vildi, þegar ég vildi. Það var ekki auðvelt! En ég hætti í það minnsta að hugsa um mat daginn út og daginn inn.“ Já, því þó að það sé þversagnarkennt gerir afneitun á líkamanum það að verkum að hann tekur mun meira pláss í lífinu en ef sæst er við hann. Á furðulega masókískan hátt, spegla áhangendur þessarar ömurlegu tilbeiðslu sig endalaust í því sem þeir hata svona mikið. Konur sem gera fæðuna að sínum versta óvini í leit sinni að blessun þess að vera grannar gera fæðuna um leið að miðpunkti lífsins. Þær eyða ómældum tíma í að telja hitaeiningar og banna sjálfum sér að hugsa um annað. Fyrirsætur sem vilja uppfylla drauminn um hinn himneska líkama neyðast til að einbeita sér að úrgangslosun hans, sem er einmitt eitt af því jarðbundnasta við líkamann og einmitt það sem þær eiga að þurrka út. Fyrir nokkru síðan sýndi grínþátturinn Groland á sjónvarpsstöðinni Canal+ atriði þar sem áhorfendum var boðið að fylgja toppmódeli eftir í einn dag í draumalífinu. Fyrst sjáum við hana heima hjá sér þar sem hún er að kasta upp. Hún tekur síðan inn laxerolíu og sést tæma sig á klósettinu. Svo fer hún út, aum í maganum og þar flykkjast aðdáendur að henni: „Ó, ég dýrka þig, þú ert draumadísin mín!“ Hún gefur nokkrar eiginhandaráritanir en kemur sé svo í burtu ropandi og prumpandi.

Susan Bordo

Áhrifalausir draumar? Það þarf að vera illa haldinn af hræsni til að halda slíku fram. Tísku-, skemmtana- og auglýsingaiðnaðurinn framleiða myndir á hverjum degi sem dreift er svo skipulega og svo vítt og breitt að það er nánast vonlaust að komast hjá því að verða fyrir þeim. Þessar myndir eru fyrirmyndir að sjálfsmynd milljóna kvenna um allan heim. Það er erfitt að berjast gegn þessum áhrifum: alltumlykjandi treður ímyndin um fullkominn líkama sér inn í heilann án þess að við gerum okkur grein fyrir því og hefur áhrif á alla okkar skynjun, alla gagnrýna hugsun. Þessar myndir hafa lymskuleg áhrif, stjórna viðbrögðum okkar, breyta sýn okkar, tilfinningu fyrir okkar eigin líkama og fólks í kringum okkur, við verðum sífellt harðari, sífellt næmari á smáatriði sem áður hefðu ekki snert okkur, þolstuðull okkar breytist, fegurðarskyn okkar, hvað telst heilbrigt, hvað telst eðlilegt, hvað okkur þykir ásættanlegt og hvað ekki. Þó að við séum meðvituð um þetta ferli og reynum að vinna gegn því komumst við ekki þar með sjálfkrafa undan því og þess vegna er stundum munur á því sem við segjum og því sem við gerum. Í L’emprise du genre (La Dispute, París, 2006) minnist Ilana Löwy á femíníska heimspekinginn Susan Bordo, sem skrifaði mikilvægt rit um þyngd kvenna (Unbearable Weight. Feminism, Western Culture and the Body, University of California Press, Berkeley, 1993). Susan Bordo tapaði stórum hluta trúverðugleika síns eftir að hún fór í megrun: „Bordo viðurkennir að ákvörðun hennar um að fara í megrun hafi getað styrkt kerfi kúgunar, en að, hins vegar, hafi þessi ákvörðun auðveldað henni að fóta sig í (vestrænum) nútíma […] Femínísk sannfæring, hversu sterk sem hún er, verndar því miður ekki gegn fyrirlitningu og höfnun.“

Hvers konar samfélag er það sem gerir það að verkum að konur meta sjálfar sig að verðleikum eftir því hvaða tala stendur á miðanum í fötunum þeirra?

Með vísun í örmjóar fyrirsætur eins og Twiggy eða Inès de la Fressange neita margir því að megrunarpressan sé meiri í dag. Það þyrfti að spyrja þær sem eiga tíu ára gömul föt í skápnum í stærð 40, sem þær komast enn í, en að ný föt sem þær kaupa sér séu í stærð 46 og það þó að síðustu mælingar í Frakklandi sýni að franskar konur hafi bæði stækkað og fitnað! Það láta ekki allar konur gabba sig með svona ómerkilegum brögðum. Síðasta vor mátti lesa í Elle (13. mars 2006) grein undir fyrirsögninni „Prête à tout pour une taille de moins“ [Hvað sem er til að komast í næsta númer fyrir neðan], sem fjallar um konur sem kaupa sér alltaf of lítil föt. Annað hvort fara þær aldrei í þau, eða þá að þær þjást: „Ég leggst niður til að geta lokað rennilásnum og svo á ég erfitt með að anda allan daginn og er endalaust mál að pissa. Á kvöldin, þegar ég kem heim, er ég með rautt far í mittinu.“ Og svo er því haldið fram að brotthvarf korselettsins hafi verið stórt skref í kvenfrelsisbaráttunni …

Eiginkonurnar aðþrengdu

Munurinn á sýningarstúlkum og venjulegum konum er að þær fyrrnefndu líða þjáningar til að halda sér í stærð 32 en þær síðarnefndu líða þjáningar til að koma sér í stærð 38 (svo virðist sem stærð 40 sé þröskuldurinn ógurlegi að óafturkræfri hnignun). Leikkonan Felicity Huffman sem leikur Lynette, ofuruppteknu móðurina í Desperate Housewives, segir svo frá: „Ég tók eftir því þegar við vorum að máta búninga fyrir tökurnar að ég var sú eina sem notaði 38 – Marcia Cross (Bree) er í 36, Teri Hatcher (Susan) og Eva Longoria (Gabrielle) eru í 34 – ég hélt mér í slárnar til að líða ekki út af, mér fannst ég svo feit og ljót.“ (Elle, 24. apríl 2006) Hvers konar samfélag er það sem gerir það að verkum að konur meta sjálfar sig að verðleikum eftir því hvaða tala, og ekki gleyma því að þessi tala fer eftir ákvörðunum hvers framleiðanda, stendur á miðanum í fötunum þeirra? Ef maður er svo heppinn að vera hvorki leikkona né fyrirsæta, getur manni ekki bara einfaldlega staðið á sama?

Framhald síðar.

3 athugasemdir við “Kvenlíkaminn: tilbeiðsla eða hatur? (2. hluti)

  1. Bakvísun: Furðulegar paradísir – 3. hluti | *knùz*

  2. Bakvísun: Furðulegar paradísir – 1. hluti | *knùz*

  3. Bakvísun: Furðulegar paradísir – 2. hluti | *knùz*

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.