Kvenlíkaminn: tilbeiðsla eða hatur? (3. hluti)

Höfundur: Mona Chollet. Kristín Jónsdóttir þýddi úr frönsku. Greinin birtist upphaflega 5. nóvember 2006 undir heitinu «Culte du corps», ou haine du corps? á vefritinu Périphéries. Hún birtist hér á Knúzinu í þremur hlutum og hér birtist þriðji og síðasti hluti.



„Rétturinn til að horfa á kvenlíkamann er órjúfanlega tengdur lægri stöðu kvenna“ Ilana Löwy

Alla jafna er megrunaræðið kynnt sem heilbrigðisvandamál. Sem það er, vissulega. En því er alltaf sleppt að minnast á að þetta er einnig grunnspurning um jafnrétti kynjanna. Konum er nefnilega, eins og Hilde Bruch bendir á í bók sinni um átröskun (Conversation avec des anorexiques, Paris, Payot, coll. „Petite Bibliothèque Payot“, 2005), neitað um „réttinn til að uppfylla mannlegar grunnþarfir: að borða sig saddar og að njóta þess“. Ilana Löwy vitnar í sálfræðinginn Susie Orbach, sem er sérfræðingur í næringarvandamálum. Susie Orbach segir að aukinni virkni kvenna á opinberum vettvangi (sem mætti þó vera meiri) á síðustu áratugum hafi ekki fylgt minnkandi þrýstingur á líkamlegt útlit þeirra, heldur hið gagnstæða: þrýstingurinn hafi aukist, líkt og hann sé tilraun til að særa burt hræðsluna við raskið sem hefur orðið á stöðu kynjanna.

Þrýstingurinn er þó afleiðing af kerfi sem er ekki nýtt af nálinni: „Rétturinn til að horfa á kvenlíkamann er órjúfanlegur hluti af lægri stöðu kvenna,“ skrifar Ilana Löwy, og hún heldur áfram: „Þær eiga stöðugt að vera meðvitaðar um kvenleika sinn, og það hvernig þær líta út. Karlmenn, aftur á móti, þurfa ekki endilega að hugsa um karlmennskuna. Þessi munur afhjúpar valdaójafnvægið milli kynjanna, segir þýski félagsfræðingurinn Georg Simmel. Karlmennskan er ekki eins sýnileg, því hún er ríkjandi: „Húsbóndinn nýtur þeirra forréttinda, að geta gleymt því að hann sé húsbóndinn. Þrællinn, aftur á móti, má aldrei gleyma stöðu sinni sem þræll.“ Konur vita að þær sem brjóta gegn þeirri skyldu sinni að líta vel út, og hætta að hugsa vel um sig, eiga á hættu að vera niðurlægðar, fyrirlitnar eða gerðar ósýnilegar.“

Þetta afhjúpar hræsnina sem felst í orðum ljósmyndarans sem tjáir sig nafnlaust í Elle (2. október 2006), um nýju reglurnar í Madrid, sem útiloka ákveðnar sýningarstúlkur: „Þessi reglugerð er árás á konur. Það eru settar reglur um búfénað […] Enn og aftur er talað um sýningarstúlkur eins og vöru, eins og fávita án sjálfstæðs vilja. Þetta særir gamla femínistann í mér!“ Maður spyr sig hvort kvennabaráttan muni nokkurn tímann ná sér aftur. Portia de Rossi segir frá því hvað vakti hana upp, hvað fékk hana til að byrja aftur að borða, þegar læknirinn hennar hlóð á hana öllum þeim femínistaritum sem hann komst yfir: „Ég gerði mér grein fyrir því að samfélagið hvetur karla til að taka æ meira pláss meðan konur verða að vera fíngerðar til að ná árangri.“ Hún hefði haft gaman af skilgreiningu Karls Lagerfeld, í Liberation (28. janúar 2005) á „tísku“líkamanum: „Það má ekki vera of beinastór. Sumt er ekki hægt að hefla niður.“

„Mér finnst ég ljót þegar ég er þreytt eða veik og mér finnst ég falleg þegar veðrið er gott eða þegar ég hef skrifað sérlega vel lukkaða blaðsíðu“ Fatema Mernissi

Fatema Mernissi

Sumar konur ná þó að frelsa sig undan þessum „rétti karla til að horfa“ á líkama þeirra. Því hefur til dæmis Fatema Mernissi náð. Hún er með breiðar mjaðmir sem heilla karlkyns landa hennar upp úr skónum, en andlit og háls eru talin of mjó og hafa verið gagnrýnd. Á námsárunum kölluðu skólafélagarnir hana „gíraffann“ og þoldu ekki að hún brást aldrei við því. Að lokum svaraði hún einum þeirra: „Veistu, kæri Karim, það sem ég þarf til að lifa er brauð, ólífur og sardínur. Ef þér finnst háls minn of langur er það þitt vandamál, ekki mitt.“ Hún bætir síðan við: „Mér finnst ég ljót þegar ég er þreytt eða veik og mér finnst ég falleg þegar veðrið er gott eða þegar ég hef skrifað sérlega vel lukkaða blaðsíðu.“ Þetta er nú eitthvað annað en hömlulaus bjánagangurinn, blinda á umhverfi sitt og andleg auðn þeirra kvenna sem hugsa ekki um annað en línurnar, er það ekki? Það er ömurlegt hve fáar raddir eins og þessi heyrast. Raddir sem bjóða stúlkum og ungum konum sem smitaðar eru af ímyndum fjölmiðlanna og skilaboðunum sem þeir senda upp á að endurskoða val sitt, sem kveikja með þeim hugmyndir um að kannski ætti að nýta fullkomnunaráráttuna og þessa þörf til að slá sjálfum sér við á öðrum sviðum, í verkefni sem væru aðeins áhugaverðari, merkingarríkari en þetta. Portia de Rossi segir frá því að þegar hún gerði sér grein fyrir því hvað það sem hún var að gera sjálfri sér var fáránlegt, sagði hún við sjálfa sig: „Hvernig gat ég orðið svona? Ég sem er svo metnaðarfull og sem dreymdi um að verða frægur lögfræðingur!“

Það er einmitt vegna þessa „ójafnræðis í fegurðarhlutverkum“ sem ekki er hægt að saka þær og þá sem mótmæla ofríki fullkomna líkamans um að vilja banna einfalda og saklausa þrá eftir fegurð. Ilana Löwy tekur skýrt fram að hún hefur ekkert á móti fegrunarmeðferðum sem slíkum, sem „geta veitt konum, jafnvel femínistum, mikla ánægju“ og geta haft jákvæð áhrif á þær: „Það er dásamlegt að geta glaðst yfir margslunginni fegurð mannslíkamans. En þegar það er gert undir valkvæmum þrýstingi og notað til að þvinga konur til að einbeita sér að útliti sínu, er um aðra og dekkri hlið að ræða.“ Og það má alls ekki halda að með því að þvinga karla til hins sama séu málin leyst: það þarf frekar að gera tilkall til réttar kvenna til þess að mega, líkt og karlar hafa mátt hingað til, heilla með sjarma sínum, húmor og gáfum, í stað þess að gera það með því að vera steyptar í fyrirfram staðlað fegurðarmót.


Mannleg samskipti í formi áheyrnarprufu

Það er grimmd að láta fólk, karla og konur, trúa því að í fullkomnum líkama felist ást og hamingja, en ekki í persónuleika þeirra, frjálslegu fasi, hæfileika til að njóta lífsins og að sýna fólkinu í kringum sig áhuga og ná að mynda sterk félagsleg tengsl. „Sem fagmaður á geðheilbrigðissviði þarf ég að takast á við þessar kreddur og afleiðingar þeirra. Að tilbiðja líkamann, trúa á megrun, fegurð, æsku og heilsu í stað verðleika, er firring. Að halda að hamingjan sé einhvers konar útreiknuð laun fyrir afrek, hvort sem það er á fræða- eða viðskiptasviðinu, leiðir á endanum til vonleysis. Að halda að Ástin í lífinu banki upp á einn daginn, að sú manneskja muni falla að ákveðinni ímynd af því að við eigum það einmitt skilið, færir mannleg samskipti yfir á svið sem minnir á kvikmynda- eða auglýsingaáheyrnarpróf.“

Einhvern tímann sá ég brot úr sjónvarpsþætti þar sem kona hélt því fram að þegar maður sæi mjög fallega menn eða konur úti á götu, gæti maður orðið hálfdapur „yfir því sem maður þarf að sætta sig við heima“. Það er eitthvað hrikalegt við þessa aðferð að byggja upp í fólki fyrirlitningu og hatur á sjálfum sér og sínum nánustu og það er hrikalegt hve lítið við mótmælum þessu. Allt er þetta í nafni hugmyndar um barnslega og einfalda fegurð, sem hunsar hinn þáttinn í yfirbragði manneskju: áhrif manneskju á mann eru að stórum hluta virkjuð með því hvernig hún hegðar sér, hvernig nærveru hún hefur, hvernig hún talar, hvað hún gerir, hver persónuleg einkenni hennar eru, saga hennar, hugmyndir hennar um lífið. Þessi margbreytilegi þáttur, sem ekki er hægt að festa hendur á, sem tengist útliti svo náið að mjög erfitt er að átta sig á því hvað leiðir af hverju, getur annað hvort undirstrikað líkamlega fegurð eða ljótleika með siðferðislegri fegurð eða ljótleika, annað hvort vakið áhuga sem líkaminn náði ekki að vekja eða, þvert á móti, máð skyndilega út þá virðingu sem fyrstu áhrif fegðurðar líkamans höfðu á mann. Og það er þetta sem ræður að lokum.

David og Victoria Beckham

Það geta allir sannreynt þetta: líkaminn er á engan hátt trygging. Það er til fullt af körlum og konum sem líta rosalega vel út en sem eru grunn, heimsk, viljalaus, óáhugaverð og fyrirlitleg, og sem eingöngu karlar eða konur sem eru jafn grunn, heimsk, viljalaus, óáhugaverð og fyrirlitleg geta hugsanlega óskað sér að hafa heima hjá sér. Hjá frægum konum og körlum sem hvað stífast hafa aðhyllst þessa trú á líkamlega fegurð – til dæmis David og Victoria Beckham eða fræga fólkið sem hefur misnotað fegrunaraðgerðir – getum við séð áhugavert fyrirbrigði: vegna öfgatrúar sinnar á útlitið skilja þau marga þætti fegurðar mannsins útundan og verða ljót án þess að gera sér grein fyrir því, þau vekja óhug hjá hverjum þeim sem hefur haldið í brot af skarpskyggni. Það sem gerir manneskju heillandi eða ekki heillandi er nefnilega svo miklu flóknara en það sem auglýsinga-, tísku- og fegurðariðnaðurinn vilja láta okkur halda. Að benda á þetta kemur hvorki skinhelgi né kristnum gildum við (allir af minni kynslóð muna eftir setningunni úr költmyndinni Père Noël est une ordure [Jólasveinninn er skíthæll], sem sneri þessari hugmynd upp í grín: „Sko, hún Theresa er ekki ljót! Hún er bara svolítið flókin í útliti, það er ekki það sama!“) heldur er þetta einfaldlega raunveruleiki mannlegra samskipta – að minnsta kosti þeirra sem ekki eru smitaðir af kýník og neysluheimsku.

2 athugasemdir við “Kvenlíkaminn: tilbeiðsla eða hatur? (3. hluti)

  1. Bakvísun: Furðulegar paradísir – 1. hluti | *knùz*

  2. Bakvísun: Furðulegar paradísir – 3. hluti | *knùz*

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.