Brjálaðir menn og flugfreyjur

Höfundur: Drífa Snædal

Brot úr samræðum mínum við illkvittinn fjölskyldumeðlim í upphafi níunda áratugarins: Hvort lít ég frekar út eins og Lucy eða Donna í Dallas?  — ætli þú sért ekki líkust Miss Ellie.

Þar fór draumurinn fyrir lítið en við tóku pælingar um hver væri flottastur í Fame og hvort það væri ekki til einhver svona listaskóli í nágrenninu. Ég er sem sagt af fyrstu kynslóð sápuóperuneytenda og kassinn í stofunni hefur haldið áfram að gefa og gefa ógrynni af bandarískri dægurstyttingu og ég horfi og horfi. Mér finnst Chandler hrikalega fyndinn og hef staðið mig að því að öfunda Phoebe af hispursleysinu. Barney Stinson er hlægilega aumkunarverður en ég held það gæti verið gaman að búa í New York með bar í kjallaranum og geta drukkið með vinunum á hverju kvöldi án þess að verða timbruð (eða rekin úr vinnu).

Sápur eru dægrastytting en enginn skal trúa öðru en að þær hafi áhrif. Ég heyrði því fleygt um daginn að þegar sýningar á Downton Abbey hófust í Bretlandi hafi sala á náttfötum og silkisloppum tvöfaldast. Friends þættirnir reyndust hárgreiðslufólki martröð þegar strýhærðar konur streymdu á stofurnar til að fá klippingu eins og Rachel og svo mætti lengi telja. Sápur hafa áhrif!

Það er hressandi þegar nýir þættir líta dagsins ljós og ég var meðal þeirra fjölmörgu sem fagnaði Mad Men. Ekki nóg með að þættirnir væru vel leiknir, vel gerðir og veittu innsýn í löngu liðna tíð, heldur fannst mér þeir góð áminning um hversu langt við værum þrátt fyrir allt komin í jafnréttisátt. Konur þurfa ekki lengur að fara í ólöglegar fóstureyðingar (ja, allavega ekki á Íslandi), tækifærin á vinnumarkaði hafa aukist til muna og stigveldið er ekki jafn stíft. Konur ganga ekki lengur í stífum drögtum úr gerfiefni og háhæluðum skóm á daginn og liggja ekki í stingandi blúndunáttkjólum með rúllur í hárinu í rúminu á kvöldin. Guði sé lof!

Fimm seríum síðar eru þættirnir ekki jafn hressandi lengur og meira orðnir eins og hver önnur sápa. Konurnar trítla enn um í þessum drögtum og dreymir um karlmann sem getur séð fyrir þeim svo þær geti nú hætt að vinna sem ritarar drykkfelldra karlremba. Frekar þreytt. Eins og alltaf þegar þættir verða vinsælir fylgja fleiri álíka í kjölfarið og voilà: Pan Am er mætt á skjáinn! Eins og titillinn gefur til kynna fjalla þættirnir um háloftin, ástir og örlög flugfreyja (kvenkyns) og flugmanna (karlkyns). Konurnar tipla um á tíu sentimetra hælum í magabelti og stífmálaðar. Ýmist ástfangnar upp fyrir haus eða örvilnaðar vegna þess að stóra ástin í lífinu reyndist kvæntur annarri. Þessi lífsstíll er svo eftirsóknarverður að konur fórna jafnvel hjónabandi til að komast í háloftin, á háu hælana og í magabeltið. Geisp!

Frá góðri áminningu um árangur jafnréttisbaráttunnar eru Mad Men og núna Pan Am orðin fastir liðir eins og venjulega. Fólk situr í sófanum eins og venjulega og horfir á ástir og örlög kvenna sem eins og venjulega ganga um í pinnahælum og magabelti og karla sem eins og venjulega drekka viskí á skrifstofunni og koma fram við konur sem viðföng. Og vitiði hvað! Fjölmargar vintage búðir spretta upp eins og gorkúlur og bjóða dragtir úr gerviefnum, magabelti eru komin í fremstu hillu nærfataverslana og meira að segja fóðruðu kuldaskórnir eru komnir með háa hæla. Breyting síðustu ára sést hins vegar hvað best í handtöskutískunni. Það var bylting á sjöunda og áttunda áratugnum þegar handtöskur voru útbúnar með axlareimum þannig að konur gátu verið með báðar hendur frjálsar til athafna. Þetta var talið merki um breyttan tíðaranda og kvenfrelsi. Hvað getum við þá sagt um innreið handtaska án axlareima í tísku síðustu ára? Við getum til dæmis sagt: Takk, Mad Men, takk, draumaverksmiðja og fyrst og fremst takk, gagnrýnislausu áhorfendur og gagnrýnislausa umræða fyrir að færa okkur þessa afturför.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.