Sögur úr reynsluheimi kvenna: „Hvað er að þér? Ertu á túr?“

Höfundur: Helga Þórey Jónsdóttir
Ég hef aldrei skilið hvað er svona merkilegt við það að vera á túr. Fyrirbærið hefur slíkt orðspor á sér í sumum kreðsum að ef einhvern á verulega að spæla þá þykir í fullkomlega eðlilegt að segja: „Hvað er að þér? Ertu á túr?“
Í fyrsta lagi er ekkert að þeim sem eru á túr. Um það bil helmingur mannkyns fer einhverntímann á túr svo það getur varla verið mein. Ég myndi frekar kalla það eðlilega líkamsstarfsemi, svipað og að kúka eða að pissa sæði á morgnana. Annað sem ég hef aldrei skilið við þessa upphrópun er að það er talað um túr eins og eitthvað frávik, eitthvað sem gerir þá sem er á túr óáreiðanlega. Í öðru lagi þá er ekkert óáreiðanlegt við konur sem eru á túr, þær eru ekki fúlli en aðrar konur og þær eru ekki á valdi hormónanna. Þótt hormón láti konur fara á túr á sirka 28 daga fresti þýðir það ekki að konur séu á valdi þessara hormóna meira en karlar eru í sínu lífi. Það þýðir einfaldlega að kvenlíkaminn sé með þekkta rútínu í sínum frjósemismálum. Annað ekki.
Ég get heldur ekki skilið hvað er svona mikið feimnismál við þessa líkamsstarfsemi. Því þetta er líkamsstarfsemi. Hvernig getur verið fyndið að prumpa en ógeðslegt að vera á túr? Lyktin sem ég finn þegar fólk prumpar minnir mig á að þessi gös voru nýlega uppi í rassinum á viðkomandi. Mér finnst það mun ógeðfelldari tilhugsun en túr. Ég viðurkenni samt að mér finnst ekki skemmtilegt að hafa blæðingar og sá tími sem ég slapp við að vera á túr vegna meðgöngu og barnsburðar var voðalega fínn. Það getur líka verið vont að vera á túr og að skipta um túrtappa á almenningsklósettum er sérlega leiðinlegt og er ekki fyrir fólk í vetrarfötum.
Leiðindin stafa af ýmsu öðru. Græjur eru eitt. Í fyrsta lagi eru túrtappar og dömubindi dýr. Einn kassi af Natracare með fjórtán bindum kostar meira en 500 kall. Fyrir þá sem ekki vita hvernig blæðingar virka þá er ágætt að taka það fram að fimm daga túr útheimtir að minnsta kosti öll þessi fjórtán bindi, ef ekki meir. Svo þarf að kaupa næturbindi, sumar konur nota frekar túrtappa og enn aðrar nota silikonbikara sem þær einfaldlega leggja saman og smeygja upp í leggöngin og losa svo reglulega og skola þá bara í næsta vaski.
Viðhorf fólks til kvenna vegna þess að þær hafa blæðingar veldur mér mun meira hugarangri en það að þurfa að vera á þessum leiðindatúr mánaðarlega. Þá á ég ekki við að sé slæmt að þykja blæðingar óþæglegar eða leiðinlegar heldur hið alltof kunnuglega viðhorf að blæðingar séu ógeðslegar og óeðlilegar. Það er ekkert ógeðslegt við blæðingar. Þær eru venjulegar. Það er heldur ekkert sóðalegt við þær og þær eru heldur ekkert til að skammast sín fyrir. Blæðingar eru oftar en ekki merki um að konur séu færar um að ala börn, eitthvað sem ég hélt að væri alla jafna frekar eftirsóknarvert.
Að blæðingar teljist til eðlilegrar líkamsstarfsemi hlýtur að vera mikilvægur þáttur í baráttunni fyrir jöfnum rétti kvenna. Með því að tala um blæðingar á opinskáan og hispurslausan hátt geta bæði karlar og konur tekið virkan þátt í að normalísera þennan ósköp eðlilega þátt í lífi okkar allra.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.