Kvenfrelsi á aðventu: Sjást en ekki heyrast

Höfundur: Drífa Snædal
Stór hluti jólahaldsins í sænskum skólum á níunda áratugnum snérist um Lúsíudaginn þann 13. desember. Sænski skólinn minn hélt í hefðirnar og kaus sér Lúsíu til að fara fyrir þernunum og stjörnugosunum þennan hátíðardag. Kaldhæðnislega var það yfirleitt stelpa með sítt ljóst hár sem hlaut heiðurinn en hin upprunalega Lúsía var dökk yfirlitum og á fátt skylt við fegurðarstaðla okkar daga.
Að hlotnast sá heiður að vera Lúsía skólans var ekkert smáræði. Stelpan sem hlaut heiðurinn mætti með nýstrauaðan kjólinn eldsnemma morguns, með kórónuna og rauðan silkilinda (sennilega nælon samt) til að tákna blóð hinnar upprunalegu Lúsíu. Ilmur af piparkökum og Lúsíubollum fyllti skólasvæðið og Lúsíulestin undirbjó sig undir að liðast um í myrkrinu með ljósin tendruð og syngja hin hefðbundnu Lúsíulög fyrir nemendur og starfsfólk.
Rétt áður en lestin átti að leggja af stað var hin stolta Lúsía tekin til hliðar af kórstjóranum og beðin um að vinsamlegast hreyfa bara varirnar en ekki syngja upphátt – hún hefði ekki nægilega góða söngrödd. Semsagt sjást en ekki heyrast.
Þrjátíu árum síðar hefur baráttan skilað því að Lúsíur mega vera af öllum kynþáttum, meira að segja margar í hverri Lúsíulest, laglausar og allt. Enn á ég þó eftir að sjá karlkyns Lúsíu en ég á bágt með að trúa öðru en að einhvern laglausan strák dreymi um að klæðast hvítum kjól með silkilinda og lýsa upp myrkrið með ljósakórónu á höfðinu.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.