Höfundur: Halla Gunnarsdóttir
4. desember 2011
- Á Íslandi leita 230 manneskjur, að langmestu leyti konur, sér aðstoðar á hverju ári vegna nauðgunar, ýmist hjá Neyðarmóttöku eða hjá Stígamótum. Um 70 mál eru kærð til lögreglu. 50 mál rata til Ríkissaksóknara. Þar er stærstur hlutinn felldur niður. Ákært er í um 15 málum og sakfellt í um það bil átta málum. Með öðrum orðum: Um 3-4% nauðgunarmála sem upp koma á ári hverju enda með sakfellingu. Athugið að hér eru ekki teknar inn nauðganir eða kynferðisleg misnotkun þar sem þolendur eru börn, þá tvöfaldast ofbeldið. Rangar sakargiftir eru til í þessum brotaflokki eins og öðrum og að því er næst verður komist koma um 1-2 slík mál upp hérlendis á ári hverju. Hins vegar er ótalinn sá fjöldi þolenda nauðgana sem aldrei leitar sér aðstoðar.
- Nauðganir eiga sér ekki stað í lausu lofti. Þær eru ekki óumflýjanlegar eins og náttúruhamfarir. Það eru ofbeldismenn að baki hverju einasta máli. Þetta eru ekki örfáir sjúkir einstaklingar sem nauðga, þetta er fjöldi „venjulegra“ karla og þeir eru í okkar nærumhverfi – á vinnustað, í fjölskyldu, í vinahópi. Og já, það eru líka til konur sem nauðga og það er rétt að geta þess. En þær eru margfalt færri og veruleiki nauðgana er því kynjaður. Nauðgun er raunveruleg og nálæg ógn við líf og heilsu allra kvenna á Íslandi.
- Af hverju er þetta svona? Hvað er það í menningu okkar og samfélagi sem skapar rými fyrir allt þetta ofbeldi? Meðal annars er það upphafning á staðalímyndum kynjanna, en þeim er viðhaldið með kynmótun. Þannig verða til „sterkir“ karlar sem skeyta engu um tilfinningar en fara sínu fram, óháð því hvað aðrir segja. Og þannig verða til óttaslegnar konur, sem er kennt að segja ekki frá ef á þeim er brotið og ef þær segja frá þá geta þær átt yfir höfði sér dóma heimsins, útskúfun og endalausar umræður um kynhnegðun sína. Sem betur fer brýst stór hluti fólks út úr þessum staðalímyndarformum, en engu að síður viðhöldum við hugmyndinni um hinn sterka karl og hina þjónkandi konu með ýmsum leiðum í samfélagi okkar, t.d. í uppeldi barna, í samskiptum og í gegnum fjölmiðla eða aðra menningarstarfsemi. Þannig búum við til valdamisræmi og skilyrði fyrir nauðgara til að fremja sína glæpi.
- Hið samfélagslega samþykki á sér ýmsar birtingarmyndir. Ein af þeim er í gegnum „grín“, þar sem kynferðislegt ofbeldi og hótanir um það eru gerðar að aðhlátursefni. Ef samfélagið samþykkir slíkt „grín“ eru minni líkur en annars á því að nauðgari átti sig á að hann hafi gert eitthvað rangt. Önnur lýsir sér þannig að ofbeldi og kynlífi er þvælt saman og því haldið fram að þar á milli sé stórt grátt svæði. Nauðgun sé kynlíf sem „gangi of langt“. En línan þar á milli er skýr og það nauðgar enginn óvart í hita leiksins. Ekki frekar en gamnislagur þróast „óvart“ út í líkamsárás.
- Við höfum val um afneita veruleikanum. En við höfum líka val um að bregðast öðruvísi við – um að standa upp og hafna ofbeldi í öllum sínum birtingarmyndum:
- Við getum hlustað á fólk sem leitar sér hjálpar og segir frá.
- Við getum stigið varlega til jarðar í umfjöllun um nauðgunarmál, af tillitsemi við þann fjölda fólks sem hefur verið nauðgað. Höfum tölfræðina í huga.
- Við getum hætt að hlæja að bröndurum sem fjalla um ofbeldi gegn konum og neitað að taka þátt í þeirri firringu að það sé eðilegt að setja fram nauðgunarhótanir „í gríni“.
- Við getum mótmælt slíku gríni eða staðið með þeim sem hafa kjark til þess.
- Við getum sagt skilið við afstöðuleysið, sem við eigum til að detta í. Þess í stað tökum við afstöðu gegn ofbeldi, því afstöðuleysið getur verið ofbeldi í sjálfu sér.
- Til að uppræta nauðgunarmenningu þarf að taka einarða afstöðu gegn kynferðisofbeldi, kvenfyrirlitningu og kynjamisrétti. Drepum ekki sendiboðann. Styðjum heldur hvert annað í að útrýma ofbeldi.
Bakvísun: Í þágu vændiskaupanda? | Ingimar Karl Helgason