Aðventuhugvekja um hrúta

Höfundur: Herbert Stefánsson

Við heimaslátrun í liðinni viku og tilheyrandi verkun á keti, þar sem ég er að reykja lærin og bógana í bílskúr nágranna míns, reikaði hugurinn að æskustöðvum mínum í Hnausadal. Þar sem ég horfði á sviðinn hrútshausinn fannst mér svipurinn kunnuglegur og taldi einboðið að leggjast í samanburðarrannsóknir, því meira er líkt með mönnum og hrútum en marga grunar.

Hrúturinn er það húsdýr sem líkist mest ákveðnum hópi karlmanna. Hrúturinn er ánægður ef hann fær nóg að jeta og hvíla sig og þess á milli stendur hann oft íhugull meðal annarra hrúta og þykir spekingslegur.

Hrútar bera saman klaufir sínar og vilja að allir séu sammála um grundvallarforsendur tilverunnar. Oft jarma þeir lengi dags en rjúka síðan saman og stangast þar til allir eru á sama máli. Þá er jórtrað tímunum saman.

Hrúturinn hefur einfalt tímaskyn. Árið skiptist í tvö tímabil. Fengitími og biðtími eftir fengitíma. Hrútar hafa löngum barist fyrir lengri fengitíma en fyrir daufum eyrum. Komist hrútur í ær utan fengitíma telur hann sér bæði ljúft og skylt að tittlinga þær.

Hrútar og ær deila saman fjárhúsi en hrútar eru alltaf sér í stíu. Það telja hrútar til marks um sérstöðu sína og yfirburði. Þetta viðhorf einkennir einnig mannhrúta sem líta á konur eins og ær.

Hrúturinn gengur út frá því að hann sé yfir ærnar hafinn og viti allt betur en þær, þar sem hann hafi nægan tíma til að hugsa, álykta, rökræða og komast að niðurstöðu. Að mati hrútsins er ærin svo önnum kafin við að ganga með lömb, bíða eftir burði, bera, gæta lambanna og búa sig undir fengitímann að annað kemst ekki að hjá henni. Þess vegna er sú ær heppin sem hefur hrút sér við hlið til að útskýra gang himintunglanna og allt þar á milli. Hrúturinn verður þess líka oft var að ærnar skortir skilning og kappkostar hann þá að útskýra fyrir þeim réttar forsendur, rétta túlkun og sýn á tilveruna og umfram allt hinn réttan skilning. Þessi greiðvikni hrúta nefnist hrútskýring. Af henni er meira framboð en eftirspurn.

Hrútskýringar eru ámóta nauðsynlegar og leiðbeiningar um opnun mjólkurferna og niðursuðudósa, uppskrift að soðnu vatni, kennsla í gerð ísmola og tangónám í bréfaskóla.

Hrútum þykir miður að hrútskýringar hafa ekki þá stöðu í samfélagsumræðunni sem skyldi og kvarta oft á tíðum sín á milli um skilningsleysi, þröngsýni og öfgahyggju, sem þurfi að uppræta eins og hvert annað mein eða flatlýs í túnfæti máttarstólpa hrútverunnar.

Hrútum sárnar oft hvað fordómar og þröngsýni byrgja ánum sýn og hindra virka þátttöku þeirra í samfélagsumræðunni. Í mörgum hrútnum leynist uppfræðari sem þráir að láta að sér kveða og koma vitinu fyrir heimskar ær sem kunna ekki að jarma eins og hrútar vilja að þær jarmi.

Hrútskýringar þykja fyndnar og hef ég stundum farið með valda kafla fyrir gesti mína sem eru bókmenntasinnaðir. Með slíku skemmtiefni er borið fram hreppstjórakaffi. Hér eru nokkur dæmi:

Vertu ekki með þessa vitleysu, elskan mín. Þú hlýtur að sjá að þú hefðir átt að skrifa þessa grein þína út frá mínum forsendum. En það er náttúrulega ekki við öðru að búast hjá svona öfgasinnum sem hugsa of mikið innan rammans.

Innlegg mitt var einföld og hófleg ádeila á alhæfingu í greininni sem allt fólk í sæmilegu jafnvægi væri fært um að svara í rólegheitum, án þess að leggjast í persónuárásir og bjánaskap. Þetta hef ég reynt að útskýra fyrir fleirum en þér en með litlum árangri. Annars er fljótlegra að vísa í grein mína um þetta á bloggsíðunni minni þar sem ég hef skrifað ófáa pistla um forréttindi og öfgar.

Það að þú skiljir það ekki og skiljir heldur ekki að þessi vettvangur þurfi gagnrýni við er vitaskuld óheppilegt fyrir mig, en ég erfi það ekkert við þig. Ég vona samt að þú hafir lært eitthvað af þessum skýringum mínum.

Ein athugasemd við “Aðventuhugvekja um hrúta

  1. Bakvísun: Hrútskýringin verður til | Knúz - femínískt vefrit

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.