Af pólitískum samsæriskenningum, hunangsgildrum og öðrum sagnaminnum í orðræðu um nauðganir

Julian Assange

Höfundur: Erna Magnúsdóttir
Undanfarin misseri hafa tvö nauðgunarmál  verið áberandi í  alþjóðafjölmiðlum. Um er að ræða ásakanir kvenna á hendur nafntoguðum einstaklingum á alþjóðavettvangi. Nauðganir eru vissulega ætíð ömurlegar en þessi mál gegn áberandi einstaklingum og orðræðan sem þeim fylgir í fjölmiðlum og á netinu endurspegla afstöðu samfélagsins gagnvart þeim og afhjúpar jafnframt ríkjandi valdaójafnvægi milli kynjanna.

Í lok sumars 2010 ásökuðu tvær sænskar konur Julien Assange, stofnanda og forsprakka Wikileaks, um kynferðislega misnotkun. Wikileaks samtökin eru þekkt fyrir að birta trúnaðarupplýsingar sem varða milliríkjamál í stórum stíl og hafa uppljóstranir samtakanna verið vandræðalegar fyrir margan vestrænan stjórnmálaleiðtogann. Assange hefur því verið álitinn hetja, nokkurskonar varðhundur tjáningarfrelsis og gagnsæis í þágu almennings. Ásakanirnar á hendur Assange hafa ekki verið gerðar opinberar formlega því ekki hefur enn verið lögð fram ákæra í málinu. Til þess þurfa sænsk yfirvöld fyrst að yfirheyra hann og þar stendur hnífurinn í kúnni. Assange er flúinn til Bretlands, situr þar í stofufangelsi og  hefur áfrýjað úrskurði um framsal til Svíþjóðar. Meginatriðum ásakananna var þó lekið í sænska fjölmiðla. Assange er gefið að sök að hafa nauðgað konunum þegar hann var gestur á heimilum þeirra í Stokkhólmi. Báðar konurnar samþykktu upphaflega að sofa hjá honum en honum er gefið að sök að hafa neytt þær til samræðis án þess að nota smokk og er málið að því leyti óvenjulegt að ásakanir um nauðgun þar sem kynlíf hófst með samþykki en endaði í aðstæðum þar sem farið var yfir mörk annars aðilans er nú orðið að alþjóðlegu fjölmiðla- og dómsmáli.

Það er athyglisvert að skoða viðbrögð umheimsins við málinu. Frá upphafi hljómuðu raddir um samsæriskenningar hátt. Assange var „góði karlinn“, baráttumaður gegn spillingu á alþjóðavísu. Vestrænt samfélag hefur jú verið duglegt við að sjá í gegnum fingur sér þegar „góðu gaurarnir“ verða uppvísir að kynferðisofbeldi. Öfgafyllstu viðbrögðin voru samsæriskenningar um að Bandaríkjastjórn væri að reyna að knésetja Wikileaks með hjálp kvennanna tveggja. Þessar samsæriskenningar eru líklega runnar undan rifjum sjálfs Assange sem er sannfærður um að hann verði framseldur til Bandaríkjanna snúi hann aftur til Svíþjóðar til yfirheyrslu. Konurnar eru sagðar útsendarar CIA og eiga að hafa þóst vera stuðningsmenn samtaka Assange og lokkað hann í „hunangsgildru“. Hvernig CIA á að hafa fengið tvær sænskar konur á sitt band er sjaldan útskýrt, hvað þá af hverju þær lögðu ekki fram sterkara mál gegn honum fyrst þær lygju á annað borð. Í ofanálag hefur umræðan einkennst af því að óeðlilegt sé að millilandaframsals sé krafist á manni fyrir svo „léttvægar“ ásakanir eins og að nota ekki smokk við samfarir.


Mjög lítið hefur verið gert út árásunum í almennri umræðu á vefnum og ekki virðist ríkja mikill skilningur á því að árásirnar séu í raun og veru alvörumál og að það teljist kynferðisleg misnotkun að koma fram vilja sínum á þennan hátt. Einnig heyrast sænskir lögfræðingar sem eru andvígir hinni róttæku sænsku kynferðisafbrotalöggjöf lýsa því yfir að löggjöfin gangi of langt, að karlmenn þurfi næstum því skriflegt leyfi kvenna áður en þeir sofi hjá þeim til þess að tryggja að þeir verði ekki kærðir fyrir nauðgun. Ennfremur sé það ótækt að sönnunarbyrðin hvíli mun sterkar en áður á hinum ásakaða en fórnarlambinu og að það muni leiða til þess að fjöldi karlmanna sitji í fangelsi í Svíþjóð að ósekju fyrir nauðgun. Á hinn bóginn reyna talsmenn kvenréttinda í Svíþjóð að upplýsa umheiminn um að kynferðisafbrotalöggjöfin sé í raun eins róttæk og málið gegn Assange gefur til kynna og að ásakanirnar fallist þar í landi undir „fyrsta stigs nauðgun“. Slíkur glæpur sé litinn alvarlegum augum þar í landi.

Í þokkabót hafa femínistar verið mjög klofnir í afstöðu sinni til þessa máls. Þekktir  femínistar vestanhafs, meðal annars Jaclyn Friedman, hafa komið fram og samþykkt að vissulega lykti það af pólitík að málið hafi náð að ganga svo langt á alþjóðavísu að óska eftir framsali Assanges án þess að ákærur hafi verið gefnar út á hendur honum en að það þýði ekki að fást um það, málið snúist fyrst og fremst um alvarlegar nauðgunarásakanir og þeim verði að fylgja eftir. Á hinn bóginn hafa aðrir heimsþekktir femínistar með Naomi Wolf í fararbroddi komið fram og lýst yfir stuðningi við Assange og harmað málavöxtu. Þeir hafa talið það móðgun við þolendur nauðgana í heiminum, sem allt of oft sé ekki hlustað á, að nauðgunarásakanir sem þessar skuli notaðar í pólitískum tilgangi. Wolf taldi ásakanirnar léttvægar og vísaði til Interpol sem stefnumótalögreglu.

Orðræðan sem hefur fylgt í kjölfarið á netinu er lýsandi fyrir umræðu um kvenkyns fórnarlömb nauðgana. Það hefur ekki skort fólk sem hefur tekið að sér að kenna fórnarlambinu um glæpinn. Þær buðu honum heim til sín. Þær sögðu ekki nógu skýrt nei. Þær klæddu sig of kynæsandi. Þær báðu um þetta þar sem kynlífsathafnir byrjuðu með þeirra samþykki. Hvernig getur þetta hafa verið nauðgun ef Assange dvaldi áfram á heimili annarrar þeirra eftir að atburðurinn átti sér stað? Og svo þetta klassíska: þegar þær hittust og fóru að bera saman bækur sínar og uppgötvuðu að hann hafði sofið hjá þeim báðum með stuttu millibili urðu þær reiðar, fylltust hefnigirnd og ákváðu að ná sér niður á honum með nauðgunarákæru. Önnur ákærenda hefur líka verið talin einstaklega ótrúverðug vegna þess að hún er femínisti. Það er í raun merkilegt að sjá að í hvert einasta sinn sem nauðgunarmál berst í hámæli er gefið í skyn að ásakanirnar séu uppspuni og fórnarlömbin ásökuð um annarlegar hvatir. Í raun er umræðan mjög ófrumleg og einkennist af stöðluðum viðbrögðum þó að það verði að viðurkennast að CIA samsæri sé kannski óvenjulegt tilbrigði við þetta þekkta stef.

Í maí síðastliðnum birtust svo fyrirsagnir í dagblöðum heimsins um að Dominique Strauss-Kahn, forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, hefði verið handtekinn og kærður fyrir að nauðga herbergisþernu á hóteli sem hann dvaldi á á Manhattan. Af fyrstu viðbrögðum við því máli að dæma virtist auðveldara fyrir samsæriskenningasmiði að trúa því að ásakanirnar væru liður í herferð pólitískra andstæðinga Strauss-Kahn í komandi forsetakosningum í Frakklandi en að þessi maður, sem þó hafði áður verið sakaður um kynferðislega áreitni, hefði nauðgað konunni. Það var líka áhugavert að lesa útskýringar stuðningsmanna Strauss-Kahn á mögulegum misskilningi í þessu máli. Aðstoðarmenn forstjórans lögðu það víst í vana sinn að senda vændiskonur á hótelherbergi hans og því átti hann að hafa haldið að herbergisþernan væri mætt til að svala holdlegum fýsnum hans. Einhvers staðar í umræðunni gleymdist að taka tillit til þess að vændiskonur afsali sér ekki rétti sínum til þess að setja mörk í þeim athöfnum sem þær taka gjald fyrir. Einnig mátti sjá fyririrsagnir á borð við: „Hvað kom raunverulega fyrir Strauss-Kahn“. Hann var þá orðinn fórnarlambið, hafði óvart lent í því að vera ásakaður um nauðgun. Og á fyrirsjáanlegan hátt tókst saksóknurum að kasta rýrð á frásögn konunnar. Henni hafi orðið það á að verða tvísaga og í fjölmiðlum var sagt frá því á þann hátt að hún hafi viðurkennt lygar. En ef vel er að gáð má líka sjá frásagnir af því að konan telji orð sín hafa verið misskilin af túlki sem ráðinn var til að túlka orð hennar við lögregluyfirheyrslur. Hún var nefnilega ólöglegur innflytjandi í Bandaríkjunum og hafði ekki fullt vald á enskunni. Og þar sjáum við valdaójafnvægið: Forstjóri einnar valdamestu fjármálastofnunar heims og málsvari auðvaldsins á móti herbergisþernu á hóteli í borg þar sem hún dvaldi og vann ólöglega og talaði heldur ekki tungumál innfæddra.

Það setur að manni óhug við að fara kerfisbundið yfir atburðarás og frásagnir af málum sem þessum. Í upphafi virtist sem málin tvö væru ólík að því leyti að annar maðurinn, Assange, var talin hetja af almenningi og fengi því vægari meðferð í fjölmiðlum en Strauss-Kahn. En þegar betur er að gáð eru fréttaflutningur og umræða um bæði málin keimlík, þau virðast fylgja ákveðinni formúlu og afhjúpa því fyrirframgefnar hugmyndir samfélagsins um stöðu karla og kvenna og ábyrgð þegar kynferðisafbrot eiga í hlut.

Þess vegna langar mig fyrst og fremst að nota þessi mál til þess að vekja fólk til umhugsunar um það hvernig það talar um fórnarlömb og ákærendur kynferðisafbrotamála. Erum við þátttakendur í þeirri dæmigerðu orðræðu að kenna fórnarlambinu um? Leyfum við ákærða að njóta vafans á meðan við efumst um sannleiksgildi frásagnar fórnarlambsins? Föllum við í þá gryfju að taka harða afstöðu gegn mönnum sem okkur líkar ekki við en erum til í að sjá í gegnum fingur okkar við menn sem okkur finnst annað hvort fyndnir eða standa í okkar huga sem málsvarar gilda sem við samsömum okkur við? Erum við fljót að bendla málin við pólitískt samsæri?

Ég hvet lesendur til þess að líta í eigin barm áður en þeir taka þátt í umræðu um kynferðisafbrotamál og vara sig á gildrunum því þær leynast víða en eru sem betur fer auðþekkjanlegar.
Uppfært á hádegi þann 15. desember 2011.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.