Sá ég glitta í konu þarna einhversstaðar?

Höfundur: Elva Björk Sverrisdóttir

„Við viljum það sem karlarnir fá. Ef við náum því ekki með samböndum okkar á milli, þá fáum við það með samtökum okkar.”

Viðskiptakarl í áramótablaði Markaðarins. 

Þetta sagði m.a. í áhugaverðri grein á Smugunni milli jóla og nýárs, þar sem fjallað var um vestur-íslenska femínista á fyrri hluta tuttugustu aldar og baráttu þeirra. Tilvitnunin að ofan er úr bréfi sem gengið mun hafa kvenna á milli og var lesið „í betri skápum” úti um allt, að því er Smugan hafði eftir Laurie Jonasson, afkomanda eins þessara vestur-íslensku femínista. Með öðrum orðum hafi hluti kvenfrelsisbaráttunnar átt sér stað í miklu átaki kvenna á milli, en í felum frá hinni opinberu umræðu.

Auðvitað hafa vestur-íslensku femínistarnir fyrir bráðum hundrað árum vonast til þess að árið 2012 teldist jafnrétti sjálfsagður hlutur. Að þá þyrfti enginn að pískra í skápum lengur um þessi mál. Þrátt fyrir þetta hefur mér síðustu dagana oft orðið hugsað til orðanna sem á sínum tíma gengu skápa á milli í Kanada. Og af því að nú er 2012 skrifa ég ekki bréf og sendi í leiðangur heldur slæ netstafi á lyklaborð.

Tónlistarkonur, hvar?

Milli jóla og nýárs sýndi Ríkisútvarpið metnaðarfullan tónlistarþátt sem nefndist Áramótamót Hljómskálans. Þættirnir, sem eru í umsjá Sigtryggs Baldurssonar, hafa verið á dagskrá í haust og ég hef einstaka sinnum séð þá. Þeir eru að mörgu leyti vel gerðir, en mér hefur þótt miður hversu fáar konur hafa komið þar fram. Þess má geta að með Sigtryggi í þættinum eru tveir karlar, Bragi Valdimar Skúlason og Guðmundur Kristinn Jónsson með regluleg innslög, auk þess sem söngvarinn Sigurður Guðmundsson kemur reglulega fyrir sjónir í þáttunum. Í lýsingu á þættinum á vef Ríkisútvarpsins segir að þar sé farið „um víðan völl íslensku tónlistarsenunnar og þekktir tónlistarmenn fengnir til að vinna nýtt efni fyrir þættina”.

Mynd fengin að láni hjá „http://maidofmight.net/“

Skemmst er frá því að segja að farið var um víðan völl í þættinum, en heldur mikill hrútafnykur var af. Í stuttu máli voru þrjár konur í þættinum. Ein kvennanna var í áberandi sönghlutverki, Sigríður Thorlacius, sem söng dúett. Hinar tvær, Ellen Kristjáns og Andrea Gylfa voru bakraddir. Karlar sem komu fram í þættinum voru um 25 talsins. Nú gæti einhver gripið fram í og spurt hvort þetta sé ekki einfaldlega vegna þess að karlar séu bara svona rosalega ferskir í tónlistinni að enginn af kvarthundraðinu sem steig á stokk hefði mátt missa sín? Þegar skoðuð eru söngatriði þáttarins má þó strax sjá að lögin voru misbrakandi fersk og flytjendurnir ekki allir alveg nýjasta nýtt. Karlar sem létu ljós sitt skína í þættinum voru í fyrsta lagi sjálfur þáttastjórnandinn, Sigtryggur Baldursson. Aðrir voru Valdimar í Valdimar, Unnsteinn Manuel í Retro Stefson, Prins póló, Guðmundur Pálsson í Baggalúti, Sigurður Guðmundsson, Laddi, Megas og Jakob Frímann Magnússon. Þá voru fjölmargir karlar kallaðir til hljóðfæraleiks og má þar nefna menn á borð við Guðmund Pétursson, Eyþór Gunnarsson, Samúel Samúelsson, Þorstein Einarsson og fleiri.

Hlutfall kvenna í áramótamóti Hljómskálans var rétt yfir 10%. Hvað endurspeglar þetta hlutfall? Hlutfall stúlkna í tónlistarskólum, hlutfall kvenna sem spila á hljóðfæri, syngja, eða eru í hljómsveitum?

Eða endurspeglar þessi staðreynd kannski frekar mikilvægi þess að stofnanir eins og Ríkisútvarpið marki sér stefnu um viðmið í kynjahlutfalli í dagskrárgerð? Þriggja ára dóttir mín fylgdist með áramótaþætti Sigtryggs og félaga. Er verið að senda henni þau skilaboð að tónlistariðkun sé bara eitthvað fyrir stráka? Eða er brandarinn um að tónlistarkonur séu bara „hækjur og hjálpargögn og hananú“ ekkert svo fjarri sanni, þrjátíu árum eftir að hann var sagður?

Eru fréttir einfaldar?

Fleira rak á fjörur femínista í jólafríi með áhuga á áramótadagskrá. Þannig kom út sérstakt áramótablað Markaðarins, viðskiptafylgiblaðs Fréttablaðsins. Þar voru nú aldeilis karlarnir. Ég er raunar ekki sú eina sem hjó eftir þessu, en hér er rakið ítarlega hvernig blaðið stóð að vali á viðskiptakarli, úps, viðskiptamanni, ársins. Ein kona i dómnefnd og yfir tugur karla. Útkoman var hressilegt blað, fullt af jakkafataklæddum körlum.

Sama dag skrifaði Þórður Snær Júlíusson, sem vinnur við téð viðskiptablað, ágætan leiðara í aðalblað Fréttablaðsins. Þar gagnrýndi hann aðför lögmanna útrásarvíkinga og annarra, hverra gjörðir hafa verið rannsóknarnefni eftir hrun, að fjölmiðlum landsins. Þórður Snær benti réttilega á að lesa yrði í slíkt með réttum gleraugum og hafa í huga að viðkomandi væru að berjast fyrir ákveðnum hagsmunum. Það væri hins vegar ekki hlutverk fréttastofa og Þórður Snær útskýrði í leiðaranum kjarna þeirrar starfsemi sem þar fer fram:

„Hlutverk fréttastofa fjölmiðla er einfalt; að segja fréttir.“

Það er rétt hjá Þórði Snæ að hlutverk fréttastofa er auðvitað að segja fréttir. Hitt er ekki rétt, að þetta hlutverk sé einfalt. Um það ber áramótaviðskiptakálfur hans sjálfs glöggt merki. Hvað telst vera frétt, hvar lendir hún í blaði eða í fréttatíma og hverjir eru spurðir álits um fréttirnar? Svo eru auðvitað dæmi um að fjölmiðlar búi til fréttirnar til algjörlega sjálfir. Hver ákvað til dæmis að fá næstum eingöngu karla í að velja viðskiptamann ársins á Markaðnum? Sem betur fer er þriggja ára stelpan mín ekki farin að lesa viðskiptablöð. Eigi hún eftir að hafa áhuga á því seinna meir vona ég að lesturinn verði ekki eins og sá sem mömmu hennar bauðst í lok árs 2011.

Ég byrjaði þennan pistil á að vísa í næstum hundrað ára gamla kanadíska umræðu um femínisma og jafnrétti. Það er vegna þess að þau dæmi sem ég hef rakið minntu mig á hinn kanadíska skápafemínisma. Ég hef nefnilega aðallega séð fólk hvískra um þessi asnalegu kynjahlutföll í nútímaskápnum facebook. En svo er alltaf verið að telja eitthvað svona og það er alveg hundleiðinlegt og sumum finnst það bara vera nöldur. En ég held samt að það sé mikilvægt nöldur sem þarf nauðsynlega að vera í dagsljósinu.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.