Af ritskoðun

Höfundur: Hildur Knútsdóttir

Ritskoðun er ljótt orð sem hefur óþægilegar skírskotanir í alræði, kúgun, ofbeldi og ógnarstjórn. Þessi óhuggulegi baggi sem fylgir orðinu á kannski ekkert sérstaklega vel við þegar það er notað til að lýsa því þegar athugasemdir eru fjarlægðar af síðu sem fjallar um lífstíl, snyrtivörur og fræga fólkið, en ég nota það samt, því í grunninn þýðir það einfaldlega það að einhver vill stýra umræðunni með því að ráða því hverjir fái að tjá sig. Og það í sjálfu sér er svolítið alvarlegt mál.

Mynd af http://www.uproxx.com/

Þeir fjölmiðlar sem á annað borð leyfa athugasemdir við fréttir og greinar eru flestir með einhverskonar stefnu varðandi það hvaða athugasemdir eru fjarlægðar, sem yfirleitt felst í því að ærumeiðandi, dónalegar, ómálefnalegar eða rætnar athugasemdir fá ekki að standa. Og þó það sé auðvitað matsatriði hvenær kommentari gengur yfir strikið, þá þykir mér þetta ágætis þumalputtaregla, því það er alveg óþarfi að leyfa ómálefnalegum svívirðingum að standa á opinberum síðum. Ég hef aftur á móti enga þolinmæði fyrir því þegar málefnalegar athugasemdir sem hvorki eru dónalegar né ærumeiðandi eru fjarlægðar, bara af því efni þeira falla síðuhöldurum ekki í geð.

Vefmiðlar eru misstórtækir í því að fjarlægja athugasemdir. Þannig vakti það t.d. nokkra reiði þegar Pressan fjarlægði ítrekað málefnalegar athugasemdir á Facebook-síðu sinni þegar fjölmörgum lesendum ofbauð myndbirting þeirra af kæranda í kynferðisbrotamáli og tjáðu þá skoðun sína. Og undanfarið hefur ritskoðun á veftímaritinu Pjattrófunum* farið mikið fyrir brjóstið á mér.

Málefnaleg gagnrýni er ekki alltaf velkomin

Athugasemdirnar sem fjarlægðar hafa verið þaðan eru nefnilega ekki persónulegar árásir, níð eða rógur, heldur málefnaleg gagnrýni á efnisleg atriði í pistlum. Dæmi um athugasemd sem var fjarlægð (eða falin) á Pjattrófusíðunni er þegar lífefnafræðingur benti á að sú fullyrðing að A-vítamín veitti frumuhimnum raka stæðist ekki skoðun, enda séu frumuhimnur úr fosfólípíðum, og ekkert rakt við þær. Sami lífefnafræðingur gerði athugasemdir við fullyrðingar um ágæti þess að fasta í heila viku. En fullyrt var að föstu fylgdu tólf kostir:

1. hvíld fyrir meltingarkerfið
2. leyfir líkamanum að hreinsa sig og ‘dítoxa’ eða losa sig við óæskileg sindurefni
3. gerir hlé á matarvenjum og býr til tækifæri til að skapa nýjar
4. hreinsar hugann, gerir hann skírari
5. losar um ‘föst’ hugsunar, hegðunar eða tilfinningaleg mynstur
6. maður verður léttari á sér og orkumeiri
7. innri friður, sterkari andleg tengsl
8. unglegra útlit, tærari húð
9. betri svefn
10. nýjar hugmyndir
11. æfing fyrir sjálfsagann
12. þú léttist

(Tekið héðan)

Athugasemdir lífefnafræðingsins lutu beinlínis að staðhæfingum í greininni. Hún benti t.d. á að meltingarkerfið þyrfti ekki hvíld, lifur sæi um hreinsun líkamans, heilinn þyrfti glúkósa til þess að starfa, en við svelti myndist annarlegt ástand þar sem fólki finnst það hugsa skýrar, en það er talið vera vegna þess að líkaminn framleiðir efni sem heitir beta-hydroxybutyrate, sem myndast við niðurbrot á prótíni (vöðvum líkamans) og er náskylt eiturlyfinu gamma-hydroxíbutyrate. Ég gæti haldið áfram, en athugasemdin var löng og fræðileg svo ég ætla að hlífa lesendum við því.

Athugasemdunum við föstupistilinn var í fyrstu svarað, en svo voru þær faldar. (Kommentakerfi með Facebook-tengingu býður síðuhöldurum nefnilega upp á þann möguleika að hægt er að fela athugasemdir þannig að þær eru eingöngu sýnilegar þeim sem skrifuðu þær, sem og Facebook-vinum þeirra. Þannig veit sá sem verið er að ritskoða jafnvel ekki að það sé verið að ritskoða hann. Aðrir sem skoða síðuna sjá athugasemdirnar hins vegar ekki.) Ég veit ekki hvort þeim var síðan eytt fyrir fullt og allt, en þær birtast að minnsta kosti ekki núna þegar ég skoða færslurnar.

Annað dæmi um málefnalega athugasemd sem Pjattrófurnar földu eða fjarlægðu var þegar höfundur efnis sem þær höfðu stolið gerði athugasemd við færsluna þar sem höfundarefni hennar birtist. Sú athugasemd fékk ekki að standa lengi. (Hægt er að lesa meira um það hér)

Tálsýnin um opna, málefnalega umræðu

Í sjálfu sér er auðvitað ekki hægt að banna fólki að eyða athugasemdum á eigin síðum. En mér finnst þetta afar óheppilegt og raunar hæpin vinnubrögð hjá fjölmiðli, því ef einhver les pistla á Pjattrófusíðunni sem eru allrar gagnrýni verðir (eins og t.d. þegar um er að ræða stuld á efni, hæpnar fullyrðingar um eðli kynjanna, föstur, efnafræði líkamans o.s.frv.) þá blasir við opið kommentakerfi með einungis jákvæðum athugasemdum. Það gefur tálsýnin um opna, málefnalega umræðu sem allir geti tekið þátt í, þegar sannleikurinn er sá að umræðunni er grimmilega ritstýrt og aðeins eitt sjónarmið fær að heyrast.

Mér finnst það sérstaklega slæmt í ljósi þess að umræddur miðill hefur herjað sérstaklega á börn sem markhóp, hann er neyslumiðaður, ýtir oft og tíðum undir neikvæða staðalímynd kvenna, leggur ofuráherslu á útlit og dásamar svelti.

*Ég kalla vefinn veftímarit frekar en bloggsíðu, því það eru seldar auglýsingar á síðuna (þegar þetta er ritað eru átta auglýsingaborðar á forsíðunni). Að auki kom forsprakki þeirra fram í DV föstudaginn 5. janúar og var titluð „ritstjóri veftímaritsins Pjattrófur“, og því má ætla að síðan sé ritstýrður fjölmiðill.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.