Hlustað á karlinn – horft á konuna

Höfundur: Kristín Jónsdóttir

Það er áhugavert að fylgjast með ringulreiðinni í kringum frambjóðendaspár á Íslandi og bera saman við skipuleg forvölin hér í Frakklandi. Enginn virðist mega opna munninn og segja eitthvað gáfulegt án þess að vera bendlaður við embættið en þegar þetta er ritað er enginn öruggur frambjóðandi kominn fram og ekki einu sinni algerlega ljóst hvort sitjandi forseti býður sig fram aftur eða víkur.

Mér sýnist og heyrist að margir telji það betra að kona verði forseti. Og er það álit ekki einskorðað við femínista, heldur virðist sem svo að Vigdís Finnbogadóttir sé talin hafa staðið sig svo vel, verið svo frambærilegur fulltrúi þjóðarinnar, að í raun snúist málið um að finna aðra Vigdísi.

Martine Aubry (lexpansion.lexpress.fr)

Ég get alveg tekið undir þetta, ég hefði glöð kosið Vigdísi á sínum tíma og fékk nú reyndar að greiða henni mitt fyrsta atkvæði í endurkjörinu 1988. Ég stóð alltaf með henni og fannst gaman að finna hversu þekkt hún var í Frakklandi þegar ég kom hingað út haustið 1989. Meira að segja leigubílstjórar og rónar í metró nefndu hana fullu nafni þegar ég sagðist vera íslensk. En ég ber þó álíka tilfinningar í brjósti til Kristjáns Eldjárn og man enn vel hversu full stolts ég var, þegar ég stóð, ásamt félögum mínum á Grænuborg með fána á gullskónum mínum fínu og veifaði forsetanum, sem veifaði mér til baka. Þá var ég bara lítið barn og vissi lítið um femínisma, þó að mamma væri rauðsokka og stolt af því. Þá vissi ég ekki að síðar myndi ég í alvöru hugsa sem svo að betra væri að fá konu en karl í forsetaembættið, bara af því bara. Eða hvað? Hugsa ég þannig?

Eva Joly er ekki græn þó hún sé græningi

Í Frakklandi var Eva Joly fyrst til að tilkynna framboð sitt fyrir Græna flokkinn (Les Verts) í ágúst 2010 eða fyrir rúmu ári síðan. Kosið var í forvali þeirra í júlí síðastliðnum og þó að keppinautur hennar, Nicolas Hulot, hafi notið stuðnings stjórnar flokksins og sé stórstjarna hér í landi, sigraði hún hann með rúmum 58 % atkvæða. Það er í raun ansi merkilegt að Eva Joly hafi náð að sigra Nicolas Hulot. Hún er kona af erlendum uppruna og eingöngu þekkt fyrir að hafa komið hvítflibbaglæpamönnum í steininn, sem hefur yfir sér dálítið neikvæðan blæ þó flestir hafi fagnað þessum árangri hennar. Hann er ofurvinsæl sjónvarpsstjarna sem hefur aðallega fjallað um hið jákvæða efni náttúrufegurð árum saman, en þetta verður þó ekki meginefni þessa greinarstúfs.

Vert er að hafa í huga, að þó að Græni flokkurinn hafi náð ágætis rótum í pólitísku landslagi Frakka, er víst engin „hætta“ á því að frambjóðandinn nái kjöri sem forseti landsins, það hefur Evu Joly alltaf verið ljóst. Hennar framboð, líkt og margra annarra frambjóðenda, snýst um að sýna andstöðu sína við ríkjandi flokkana tvo, UMP til hægri og Sósíalistaflokkinn til vinstri (eða þrjá, því Front National hefur náð árangri sem erfitt er að horfa framhjá og sem við fjöllum nánar um á eftir) og að koma hugsjónum sínum á framfæri í fjölmiðlum, enda eru mjög strangar reglur hér um jafnan tíma frambjóðenda í fjölmiðlum.

Valdamiklar konur í Sósíalistaflokknum lúta í lægra haldi fyrir valdamiklum mjúkum karli

Forvalið í Sósíalistaflokknum vakti heimsathygli í þetta sinn, aðallega vegna þess að Dominque Strauss-Kahn sem talinn var nokkuð öruggur sigurvegari féll úr keppni með látum og hamagangi þegar hann var kærður fyrir nauðgun í New York í maí sl., og í framhaldi af því einnig settur í rannsókn fyrir tilraun til nauðgunar í Frakklandi.

Stríðið stóð eftir það milli tveggja kvenna og eins karls, Martine Aubry, Ségolène Royal og François Hollande.

Martine Aubry (t.v.) og Ségolène Royal (t.h.) á góðri stundu
(www.actualites.fr)

Martine Aubry er virt af mörgum vinstrimönnum, sögð vera ein af fáum úr valdaklíkunni sem sé í alvöru til vinstri. Hún er borgarstjóri Lille, sem er mikilvæg menningarborg og á heiðurinn af lögum um 35 stunda vinnuviku, sem er óumdeilanlega einn af stærstu sigrum vinnandi lýðsins gegn samtökum atvinnulífisins á síðustu árum. Ef trúa má endalausum fjölda af spjallþráðum og athugasemdum við fjölmiðla, er ansi líklegt að Martine Aubry hafi aðallega verið fundið það til foráttu að vera feit og ljót. Þetta sannast best á atriði grínistans óforskammaða, Stéphane Guillon, sem lýsir hér yfir að hann hafi fengið símtal frá stjórnanda útvarpsstöðvarinnar sem hann vinnur hjá, sem hafi bannað honum að gera grín að líkama Martine Aubry, en hún var gestur þáttarins þennan morgun. Þetta sýnir hvernig talað hefur verið um þetta atriði þegar um hana var rætt baksviðs áður en hún mætti í viðtöl, að allir hafi verið skíthræddir um að missa eitthvað út úr sér varðandi þetta „vandamál“ hennar. Ég hef sjálf persónulega reynslu af því frá vinum sem eru sósíalistar, þeir afskrifuðu hana eingöngu út á útlitið.

Ségolène var frambjóðandi sósíalista í síðustu kosningum, 2007 og var þá í sambúð með François Hollande. Þau skildu mjög fljótlega eftir tap hennar en Hollande hafði einnig boðið sig fram í forvali og þau stóðu ekki þétt saman í kosningabaráttunni. Í raun hafði Ségolène Royal, líkt og Eva Joly nú, ekki stuðning stjórnar flokks síns. Það má spyrja sig hvers vegna í ósköpunum flokksstjórnir standi ekki með þessum konum, sem hafa náð völdum og eru vinsælir leiðtogar í sínum kjördæmum. Háværar raddir eru hér um að Frakkar séu einfaldlega ekki tilbúnir til að kjósa konu. Ef netspjöll frá 2007 eru skoðuð, kemur þessi skoðun berlega í ljós, margir telja að Ségolène Royal hafi tapað atkvæðum út á það að vera kona. Mér er minnisstætt hvernig iðulega var talað við hana á öðrum nótum en við Nicolas Sarkozy. Hún var til dæmis oft spurð út í það hvað yrði um börnin hennar, hvernig það samræmdist forsetaembættinu að eiga 4 börn.

En François Hollande skákaði þessum konum, svo við þurfum ekki að ræða meira um þær í sambandi við þann möguleika, að franska þjóðin kjósi yfir sig konu. Athyglisvert er að skoða, að hann kemur nú fram undir mjúkri, næstum bangsalegri föðurímynd. Sem faðir sömu fjögurra barna og voru nýtt gegn Segolène Royal fyrir fimm árum.

Hvers vegna þessi pistill þá? Hvers vegna er ég í krísu með það að óska eftir konu?

Jú, vegna þess að það er ein kona í framboði, sem gæti jafnvel náð alla leið. Eins og ég minntist á hér ofar, hefur öfga hægri flokkurinn Front National náð að troða sér inn í mjúkan valsinn sem hófsömu öflin tvö, UMP og Sósíalistaflokkurinn hafa dansað, annar hægra megin við miðju, hinn kurteislega aðeins til vinstri.

Marine Le Pen (www.marinelepen2012.fr)

Þetta gerðist árið 2002 þegar Jean-Marie Le Pen, sá kjaftstóri kynþáttahatari sló, öllum að óvörum, Lionel Jospin út í fyrri umferð kosninganna. Það er gersamlega ótrúleg sena í kosningasjónvarpinu, þegar andlit Le Pen birtist þarna við hlið Chirac á skjánum. Ráðgjafarnir, stífir og alvarlegir, hrópa upp yfir sig og allt fór á hvolf í settinu. Sem og úti á götu. Frakkar eru bara ekki svona, alla vega ekki út á við! Það eru bara Ítalir og aðrir kjánar, sem hampa öfgaskoðunum. Ég var stödd á Íslandi, maðurinn minn hringdi í mig grátandi. Hann grætur að vísu stundum yfir dans- og söngvamyndum, en aldrei hefur hann grátið yfir pólitík, hvorki fyrr né síðar. Þjóðin, með sósíalista í broddi fylkingar, flykktist á kjörstað í seinni umferð til að veita Chirac atkvæði sitt. Allir voru sammála: Allt er skárra en Le Pen.

Le Pen, sá óforskammaði karl, gæti aldrei orðið forseti. Hins vegar hefur hann nú vikið úr sæti fyrir dóttur sína, Marine Le Pen og hún er allt öðruvísi en hann. Hún deilir skoðunum hans og gildum, en hún segir það ekki eins beint út. Hún er öll miklu mýkri á manninn, brosmildari og yfirvegaðri í fasi. Og, fyrst og fremst, það kemur nánast alltaf fram í viðtölum við hana: Hún er svo aðlaðandi, svo geðug, með sitt síða ljósa hár og lögulega líkama.

Staðan er því þannig, að Front National teflir fram huggulegri konu, sem lítur þóknanlega út. Hvorki „þurr og stíf“ (og móðir!) eins og Ségoléne, eða „feit og ljót“ eins og Martine, heldur þrýstin og falleg ljóska sem ber fram tuggur um að ástandið sé ljótt, innflytjendur séu baggi á franskri þjóð, glæpum fari fjölgandi og Evrópa sé á barmi glötunar. Þessir popúlísku frasar virðast bera með sér einhvers konar fróun fyrir lýðinn, því alls staðar í Evrópu (og víðar) auka þeir sem svona tala fylgi sitt. Þetta vita frambjóðendur UMP og Sósíalista fullvel, og hafa því góða ástæðu til að óttast konuna.

Ég undirrituð, ein af íbúum landsins, sú sem óskaði þess svo heitt að sjá Ségolène sigra Nicolas síðast og enn heitar að sjá Martine Aubry sigra François Hollande í forvalinu nú, mig sem langar svo mikið að sjá Frakka samþykkja það að kona geti orðið forseti, ég bara get engan veginn sætt mig við þá hugsun að kannski verði Marine Le Pen sú sem fær að sanna það fyrir mér. Á sama hátt get ég ekki borið fram þá ósk að næsti íslenski forseti verði kona. Í raun óska ég þess heitast að þetta embætti verði lagt af, og Bessastaðir verði kósí kaffihús þar sem allir geti komið í ódýrar pönnukökur og kaffi, skoðað fínu málverkin og teppin og gluggað í vel innbundnu bækurnar. Ég óska þess til vara, að næsti forseti verði embættisins verður, mannelskandi og hógvær. Mér er í alvöru talað nákvæmlega sama um hvers kyns hann er, enda verður aðgreining í kyn óþörf um leið og jafnrétti verður náð, er það ekki?

Hverju vil ég þá helst berjast fyrir?

Því skal ég standa keik og verja Marine Le Pen, sem og allar aðrar konur, þegar málstaður þeirra fellur í skuggann af því hvernig þær líta út, hvort kinnar þeirra séu rjóðar, hvort dragtin sé rétt sniðin. Hvort þær eyði of miklu eða ekki nóg í snyrtivörur. Fyrir mér er þetta spurning um eðlilegt málfrelsi og jafnrétti milli karla og kvenna.
Mér finnst óþolandi að orð Brigitte Grésy í Petit traité contre le sexisme ordinaire (Stutt ritgerð gegn hversdagslegri kynjamismunun – Albin Michel, 2009), sem Olympe minnir hér á, skuli enn vera í gildi: „Við allar aðstæður, jafnvel á opinberum vettvangi, er hlustað á karlinn, en horft á konuna.“

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.