Jöfnunarsjóður tónsmíða

Höfundur: Hildigunnur Rúnarsdóttir

Í tónlistarsögu hins vestræna heims fer lítið fyrir konum.

Reyndar heimsins alls að ég viti – það er ekki mikið um skráða sögu tónlistar annarra heimshluta gegn um aldirnar.

Ég hef oft velt þessu fyrir mér, hvernig sé að vera kvenkyns tónskáld í þessum sögulega karldómíneraða tónsmíðaheimi. Í raun og veru hef ég samt sjálf aldrei nokkurn tímann fundið fyrir fordómum eða neikvæðni í minn garð vegna kynferðis. Kannski vegna þess að þeir sem panta og flytja nútímatónverk eru iðulega menntað og víðsýnt fólk.

Það viðhorf er hins vegar tiltölulega nýtilkomið. Þegar móðir mín var í Tónlistarskólanum í Reykjavík fyrir um 50 árum, hafði gengið mjög vel í tónfræðum og kontrapunkti og hún og vinkona hennar höfðu áhuga á að læra meira í tónsmíðum fengu þær viðbrögðin frá kennara þeirra: „Stelpur mínar, ég vona nú að þið séuð ekki að hugsa um að verða tónskáld, ég veit ekkert asnalegra en konur sem halda að þær geti orðið tónskáld.“

Því miður tóku þær þessa ádrepu inn á sig og héldu ekki áfram í tónsmíðanám.

Þetta hugarfar hefur auðvitað verið mjög lengi við lýði, konur eins og Fanny Mendelssohn-Hensel (systir Felixar), Clara Schumann og margar fleiri konur sem hefðu viljað semja tónlist fengu ekki aðgang að skólun, til dæmis var þeim hreinlega bannað að sækja tíma í hljómfræði alveg fram til 1879 í París. Þær Clara og Fanny voru svo heppnar að eiga annars vegar eiginmann og hins vegar bróður sem tónskáld, annars er því miður ólíklegt að tónlist þeirra væri þekkt í dag. Robert Schumann, þó hann hafi dáðst að tónlistarhæfileikum konu sinnar var samt ekkert yfir sig hrifinn af áherslunni sem hún lagði á tónlistariðkunina, vildi frekar konu sem sinnti heimilinu og eignaðist börn. Fanny lagði tónlist sína fram undir nafni Felixar bróður síns lengi vel.

Enn eimir eftir af þessu hugarfari því miður, gagnvart konum sem listamönnum. Frægasta dæmið úr nútímanum er væntanlega þegar mælst var til þess af Joanne K. Rowling að hún kæmi fram eingöngu undir upphafsstöfum til þess að almenningur áttaði sig ekki á að bækur hennar væru ekki eftir karlmann.

Ég hef reyndar fulla trú á því að þetta muni breytast og sé að breytast hratt þessa dagana. Konur eru aðeins um tuttugu prósent félagsmanna í Tónskáldafélagi Íslands en síðastliðið haust var brotið blað í tónsmíðadeild Listaháskóla Íslands (ef ekki víðar); þá innrituðust fleiri stelpur en strákar. Ekki mikið fleiri, enda á stefnan ekki að vera að yfirtaka greinina – en það má vel stefna í jöfnuð. Jöfnunarsjóður tónsmíða ávaxtast hjá ungu krökkunum.

Tónskáldið Linda Catlin Smith skrifar ansi góða úttekt eða hugleiðingu um hvað er að vera kventónskáld hér.

Höfundur er tónskáld, söngvari og kennir tónsmíðar og tónfræði við Listaháskóla Íslands og víðar.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.