Það er á þína ábyrgð ef einhver reynir að drepa þig

Höfundur: Arngrímur Vídalín

Einhversstaðar las ég á dögunum að um fjögurhundruð íslenskar konur væru með PIP brjóstapúða. Landlæknisembættið hefur gefið út að þessir brjóstapúðar séu ekki gölluð vara heldur svikin. Það felur í sér að framleiðendur púðanna hafi selt stórhættulega vöru af ásettu ráði, og því má hæglega jafna við morðtilraun. Ennfremur skilst mér að aðeins einn lýtalæknir á Íslandi hafi flutt vöruna inn og komið henni fyrir í líkömum kvenna. Tvennum sögum fer af því hvort hann sjálfur vissi að varan væri skaðleg, en það er heldur ekki til umfjöllunar hér (hinsvegar er athyglisvert að í frétt um að sami læknir hefði látið af störfum vegna eigin veikinda var mynd af brjósti en ekki lækninum – hvað svosem það á eiginlega að þýða). Aðalatriðið er að krabbameinsvaldandi eiturkeppir hafa verið græddir inn í grunlaust fólk undir yfirskini lýtalækninga.

Umræðan á netinu var þrungin fyrirsjáanlegri þórðargleði og mörgum fannst að þær konur sem fengu PIP brjóstapúða gætu sjálfum sér um kennt. Fæstum fannst boðlegt að ríkið kæmi til móts við konurnar með nokkrum hætti, heldur ættu konurnar sjálfar að greiða fyrir að láta fjarlægja púðana og standa straum af kostnaði vegna mögulegra sjúkdóma af þeirra völdum síðar meir. Þetta er svona svipuð lógík og ef blóðsýni væri tekið úr mér með notaðri sprautunál, ég fengi alnæmi og það væri á einhvern hátt mér að kenna. Burtséð frá tilgangi aðgerðarinnar þá er hvorki hægt að kenna þeim sem gengst undir hana um afleiðingar hennar eða um gæði þess varnings sem aðgerðin krefst. Þetta segir sig fullkomlega sjálft og það er heimskulegt að halda öðru fram. En konum er svosem kennt um allan fjandann á hinni hátíðlegu 21. öld, meiraðsegja þegar þeim er nauðgað.

Auðvitað er það á hinn bóginn sjálfsagt að velta því fyrir sér hvað það er í samfélaginu sem fyllir konur slíku óöryggi að þeim finnist sjálfsagt mál að gjörbreyta líkama sínum svo þær geti öðlast sjálfstraust, svo þær upplifi sig sem konur meðal kvenna, jafningja, jafnvel sem kynveru. Á hverjum tíma í mannkynssögunni hefur verið uppi tiltekin hugmynd um fegurð, sem varla þarf að nefna, og það á jafn mikið við nú sem fyrr, að því undanskildu að nú búum við yfir tækjum til að breyta sjálfum okkur til að mæta þeirri hugmynd á miðri leið og jafnvel taka framúr henni. Fólk hvíttar tennurnar, stækkar brjóst, mjaðmir, rass, varir, breytir nefinu, fer í ljós, manikúr, pedikúr og ræður sér hárstílista. Sjálfsöryggi er vanalega eitthvað sem er áunnið, en hérna er semsé komin styttri leið að sama marki. Og það er rétt að spyrja sig að því hvort það sé eðlilegt að breyta sjálfum sér til að þóknast öðrum, eða sjálfum sér gegnum viðbrögð annarra, vegna þess að maður hefur ekki sjálfstraust til að líta á einhvern hátt öðruvísi út en það fólk sem á þessum tiltekna tímapunkti í mannkynssögunni telst fallegra en annað.

Lýtalækningar eru eðlisólíkar slíkum fegrunaraðgerðum. Brjóst eru auðvitað stór hluti af sjálfsmynd sumra kvenna, og það er margumrætt að mörgum konum finnst sem sjálfsmynd þeirra brotni missi þær brjóstin, til að mynda eftir krabbameinsmeðferðir, og brjóstaígræðslur geta hjálpað til við að laga þá sjálfsmynd. Án efa tilheyra einhverjar þessara 400 kvenna sem fengu PIP ígræðslur þeim hóp.

Það sem gerir umræðuna um þetta mál alveg froðufellandi heimskulega er ekki síst það að brjóstaaðgerðir eru ekki bara brjóstaaðgerðir og að forsendur þeirra eru margvíslegar. 400 konur eru dæmdar á einu bretti og kallaðar hálfvitar, þegar stikkprufa gæti leitt í ljós að ein kona í þessum hópi hafi farið í aðgerð vegna samfélagslegs þrýstings um að líta út á tiltekinn hátt (það er engum blöðum um það að fletta að slíkar kröfur eru gerðar til bæði kvenna og karla), meðan önnur fór ef til vill í aðgerð vegna þess að hún hafði fengið brjóstakrabbamein og orðið að láta fjarlægja annað eða bæði brjóstin.

Auðvitað ber samfélagið ábyrgð. Fólk á lagalegan rétt á því að kaupa ósvikna vöru og tilgangur þess með vörukaupunum kemur engum öðrum við en því sjálfu. Þetta er ekki spurning um hvort það sé klókt að fylla líkamann af einhverju drasli einsog svo margir virðast halda, drasli sem mörgum finnst vel að merkja sjálfsagt að konur fylli sig af, heldur hvort það sé siðferðislega verjandi að heilbrigðiskerfið bæti ekki fyrir skaðann. Þetta er heldur ekki spurning um það hver situr uppi með reikninginn. Ekki vil ég búa í þjóðfélagi sem gerir prinsípmál einsog neyð fólks og heilsu að einhverju vandamáli, hverjum svosem um er að kenna. Þaðan af síður hef ég geð í mér til að búa í samfélagi sem krefst þess að konur þurfi hjólbörur undir brjóstin og úthúðar þeim svo þegar fyllingarnar byrja að leka.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.