Minna pjatt og meira knúz

Höfundur: Drífa Snædal

Mynd með grein: Útsaumsverkið It has been lovely but I have to scream now eftir Körlu Dögg Karlsdóttur

Færu færri konur í brjóstastækkun ef laun kynjanna væru jafnari? Væru færri nauðganir ef fleiri konur sætu í stjórnum fyrirtækja? Sætu fleiri konur í stjórnum fyrirtækja ef glanstímaritin væru færri?

Byrjum á glanstímaritunum sem fylgja öll fyrirframgefinni uppskrift sem sækja má sennilega aftur til millistríðsáranna. Fullt af greinum og auglýsingum um hvernig konur eiga að mála sig, grenna sig, vera betri í rúminu, ná sér í mann og halda í hann o.s.frv. Allar fjalla þær um að konur eru ekki nóg og geta endalaust bætt sig. Reyndar fyrir utan þessa einu grein sem fjallar um að elska sjálfa þig eins og þú ert. Þá grein má kalla afsökunina fyrir öllum hinum greinunum. Svona svipað og þessi eina kona í umræðuþáttunum hans Egils Helgasonar (eða það var raunin síðast þegar ég horfði) og þessi eina kona í kynjablönduðum keppnisliðum, jú og þessi eina kona í stjórn fyrirtækisins og þessi eina kona í panelnum á ráðstefnunni og þessi eina kona í tónlistarþættinum. Allt saman afsökun fyrir að halda áfram á sömu braut kynjamisréttis, þ.e. koma með lægsta samnefnarann til að réttlæta áframhald, láta líta út eins og „þetta sé allt í áttina“ þegar staðreyndin er að við höfum tvístigið í sömu sporunum árum saman. Millistríðsárin plús þessi eina táknmynd kvenkynsins.

Hvaða áhrif hefur þetta — við erum alltaf að fjalla um það í öllum greinum sem ritaðar eru um femínisma. Áhugavert er kannski að pæla í því hvernig hlutirnir væru ef við snérum dæminu — gera tilraun í svo sem eitt ár. Hvaða afleiðingar ætli það hefði ef konur hefðu það í hendi sér hvaða álitsgjafar væru fengnir í samfélagsumræðuna og þær veldu aðallega konur til að tala við? Hvaða áhrif hefði það ef lífstílsblöðum og -vefjum væri breytt í lausnamiðaða umræðu um aðkallandi samfélagsmál? Hvaða áhrif hefði það ef konur væru með hærri laun en karlar, stjórnuðu viðskiptalífinu og stjórnmálunum og ættu fyrirtækin? Ef alið væri á sjálfstrausti kvenna til jafns við sjálfstraust karla og konur fengju endalaust þau skilaboð að þær væru verðmætari, betri og hæfari en karlar?
Ég hef þá kenningu að þá myndi brjóstastækkunum fækka, konur legðu ekki líf og limi í hættu til að uppfylla óraunhæfa fegurðarstaðla og karlar hættu að nauðga konum af því sumir þeirra hefðu ekki lengur þá hugmynd í kollinum að þeir mættu það og gætu stöðu sinnar vegna. Karlar yrðu fórnarlömb valdamisréttis og myndu greiða það dýru verði — hvernig er ekki ljóst en valdalausir hópar eru alltaf verr settir. Ég held að enginn óski körlum þess að vera valdalausir en því miður er valdaleysi kvenna viðhaldið með harðri hendi. Þó að konur ættu það svo sannarlega inni að fá völdin í sínar hendur í svona eins og hundrað ár eftir ósköpin sem valdaleysi þeirra hefur valdið síðustu aldir þá er enginn að biðja um slíkt. Aðeins jafnrétti svo konur hætti að gjalda fyrir valdaleysið. Það er of dýrkeypt.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.