Kunta veltir vöngum

Höfundur: Sóley Tómasdóttir

Sem femínisti hef ég átt mörg samtöl við karla á öllum aldri um stöðu kynjanna í samfélaginu. Sum skemmtileg og árangursrík en önnur hreinlega leiðinleg og tilgangslaus. Skemmtilegustu samræðurnar snúast að mínu mati um hugmyndafræðina og samfélagið en persónulegar árásir leiðast mér.

Um daginn átti ég samtal við ungan mann á Facebook um staðgöngumæðrun. Hann var ósammála mér um það mál en hafði líka sterkar skoðanir á persónu minni. Því kom hann skýrt til skila með allskyns ósmekklegum athugasemdum um mig og fjölskyldu mína, sagði mig öfgafulla og kúgandi herfu, siðspillta kuntu og að hann vorkenndi manni mínum og börnum.
Þetta samtal hefur vakið nokkra athygli og þykir mörgum nóg um. Sjálf tek ég þetta ekki nærri mér, enda orðin sjóuð í opinberri umræðu og búin að brynja mig gagnvart rætnum og persónulegum árásum sem virðast vera órjúfanlegur hluti af lífi stjórnmálafólks. Sér í lagi kvenna og sér í lagi femínískra kvenna. Það er fáránlegur raunveruleiki í sjálfu sér. Það á enginn að þurfa að sitja undir persónulegum árásum vegna skoðana sinna. Hvorki ég né pólitískir andstæðingar mínir. — Og í því samhengi er fullkomlega eðlilegt að fólk velti því fyrir sér af hverju það eru ekki fleiri konur sem taka þátt í pólitískri umræðu.
Þar sem athugasemdirnar komu frá ungum manni, virtust flestir sammála um að dónaskapurinn hlyti að eldast af honum þegar fram í sækti. Margir litu á þetta sem bernskubrek einstaklings sem mögulega ætti eitthvað erfitt uppdráttar. Í því samhengi vil ég nefna tvennt.

Bernskubrek
Er allt í lagi að ungir strákar noti svona orðfæri bara af því þeir eru svo óþroskaðir eða af því þeim líður illa? Er hægt að samþykkja að fólk, alveg sama hvað það er gamalt eða hvernig því líður, beiti þeim aðferðum í samræðum að brynjuðu stjórnmálafólki blöskri? — Ég get ekki samþykkt það.
Ég á bágt með að trúa að framkoma þessa einstakings gagnvart bekkjarsystrum sínum eða vinkonum einkennist af kurteisi og virðingu. Maður sem segir miðaldra stjórnmálakonu að hún sé kunta sparar varla stóru orðin gagnvart jafnöldrum sínum.
Og raunar er ég ekkert viss um að þessi einstaklingur eigi erfiðara uppdráttar en margir aðrir. Því miður hefur heil kynslóð ungra manna alist upp með fyrirmyndir á borð við Egil Einarsson, að ekki sé talað um Jón stóra — heil kynslóð sem hefur alist upp við gagnrýnislausa umfjöllun fjölmiðla um þessa menn og viðhorf þeirra til kvenna. Þessi kynslóð (auðvitað ekki öll, en allt of stór hluti), sem vílar ekki fyrir sér að kalla stjórnmálakonur kuntur, lofar því miður ekki góðu.
Mér er skapi næst að líta á kynslóðina sem fórnarlömb. Fórnarlömb öfgafullra staðalmynda sem hafa verið mærðar og dáðar af fyrirtækjum og fjölmiðlum og haft stórkostleg áhrif á sjálfsmynd, sjálfstraust og hegðan fólksins sem er að vaxa úr grasi. Ábyrgðin er auðvitað alltaf hjá þeim einstaklingum sem haga sér með þessum hætti — en samfélagið á sinn þátt í þessu. Því verður að breyta.

Kurteislegur dónaskapur
Er svo víst að þessi einstaklingur verði svo mikið heflaðri þegar hann vex úr grasi? Mun hann ekki bara læra betur á tungumálið og leiðirnar sem virka til að hann geti komið kvenfyrirlitningu sinni til skila þannig að mark sé á takandi? — Ég er ansi hrædd um það.
Í því samhengi vil ég kynna annan mann til leiks. Ekki vegna persónulegra samtala, heldur skrifa sem eru af svipuðum meiði. Þar er þess vandlega gætt að ráðast ekki að persónum, heldur rægir hann stóran hóp fólks. Og rógurinn er settur fram af stakri kurteisi. Hér er brot úr pistlinum:
Femínismi, sem setur konur í þá stöðu að þurfa að afsaka og réttlæta klæðaburð sinn, notkun á snyrtivörum, verkaskiptinguna inni á heimilinu eða jafnvel langanir í kynlífi, er á villigötum. Þegar hugmyndafræði, sama hvaða nafni hún nefnist, fer að fela í sér ritskoðun, tískulögreglu og persónunjósnir er hún löngu hætt að snúast um hugsjónir. Þá hefur vænisýkin tekið völdin, eins og svo sorglega mörg dæmi sanna.
Davíð Þór Jónsson, Fréttablaðinu, 17. september 2011.

Í upphafi pistilsins tekur hann fram að hann sé sjálfur femínisti (sniðugt strákar, prófið þetta næst, þið getið gagnrýnt harðar ef þið þykist vera innanbúðarmenn). Svo fer hann að lýsa því hvernig femínisma sem hugmyndafræði hafi verið misbeitt til að valda vanlíðan kvenna, án þess að gerð sé grein fyrir gerandanum. Það er sumsé stór hópur sem kemur til greina — allt það fólk sem hefur kennt sig við femínisma (ekki síður sniðugt strákar, takið heildina alla niður í einu, þannig forðist þið meiðyrðamál — og Davíð veit sko ekkert hræðilegra en meiðyrði).
Í pistli sínum tekst þessum fullorðna og þekkta manni að koma því til skila með trúverðugum hætti að ekkert mark sé tekið á femínistum (mögulega mér). — Og það alveg án þess að segja „Sóley Tómasdóttir er hugsjónalaus en vænisjúk á villigötum sem vill ritskoðun, tískulögreglu og persónunjósnir“. Kannski hefði hann orðað þetta svona þegar hann var tvítugur — hver veit?

Femínistar ögra ríkjandi hugmyndafræði og kalla á róttækar breytingar. Femínistar sætta sig ekki við að konur séu kallaðar ljótum nöfnum vegna skoðana sinna og femínistar sætta sig ekki við að staðalmyndir hefti tækifæri beggja kynja til virkrar samfélagsþátttöku. Femínistar ógna þannig hinni friðsælu tilveru þar sem fólk leikur sín hefðbundnu kynhlutverk í blindni. Friðsælu segja sumir, jafnvel þótt hún innihaldi ójöfn tækifæri kynjanna, kynbundinn launamun og kynbundið ofbeldi. Viðhorf samfélagsins í garð femínista eru þannig skiljanleg — en óásættanleg engu að síður.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.